Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Þjálfaraferillinn

Hóf þjálfun sumarið 1984 vestur á Bíldudal og hef þjálfað linnulítið síðan. Lauk stúdentsprófi af íþróttabraut vorið 1984 og útskrifaðist sem íþróttakennari vorið 1986. Hér kemur yfirlit yfir ferilinn, getið er helstu titla sem unnist hafa sem og þekktra íþróttamanna sem ég hef þjálfað.

1984 Þjálfaði yfir sumartímann hjá Íþróttafélagi Bílddælinga (ÍFB). Í knattspyrnu 4. flokk, sem var eini yngri flokkurinn, og meistaraflokk, frjálsar íþróttir hjá öllum aldursflokkum og var með leikjanámskeið fyrir þau yngstu.
Meistaraflokkur karla varð í 3. sæti af fjórum liðum í knattspyrnunni á Hérðasmóti HHF en 4. flokkur varð héraðsmeistari með nokkrum yfirburðum. Frjálsíþróttalið ÍFB varð í 2. sæti á Hérðasmótinu í frjálsum.

1985 Þjálfaði aftur hjá ÍFB yfir sumarið, sömu greinar og sömu flokka og árið áður en nú gerðist sá stóratburður að 4. flokkur þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu, auk Hérðasmótsins, og er það í eina skipti sem yngri flokkur frá Bíldudal hefur gert það. Gengi liðsins var með miklum ágætum og náði 3. sæti í sínum riðli. Liðið vann fáheyrðan yfirburðasigur á Héraðsmótinu og endaði með markatöluna 56-0 eftir 4 leiki. Meistaraflokkurinn endaði í 2. sæti á Héraðsmótinu og í frjálsum varð 2. sætið líka hlutskipti ÍFB.

1986 Eftir útskrift úr Íþróttakennaraskóla Íslands var mér boðið að þjálfa frjálsar íþróttir á Selfossi það sumarið auk þess að vera með leikjanámskeið hjá HSK. Ég tók þessu boði þar sem þarna var mjög öflugt og gott frjálsíþróttalíf og mikið af efnilegu frjálsíþróttafólki. Ég þjálfaði krakka frá 11-16 ára á Selfossi og náðu þau mjög góðum árangri þetta sumar má þar t.d. nefna nokkra Íslandsmeistaratitla o.fl. Meðal iðkenda var t.d. Ólafur Guðmundsson. Leikjanámskeiðið fór fram hjá ýmsum félögum í héraðinu, tvær vikur í senn. Einnig tók ég að mér þjálfun hjá Umf. Skeiðamanna tvö kvöld í viku. Var þetta sumar mjög lærdómsríkt og eftirminnilegt.

1987 Þetta sumar starfaði ég sem framkvæmdastjóri hjá Héraðssambandinu Hrafnaflóka (HHF). Eina þjálfunin var sundnámskeið fyrir börn á Bíldudal sem fór fram um haustið.

1988 Starfaði aftur hjá Hrafnaflóka þetta sumar og var með sundnámskeið eins og árið á undan.

1990 Tók við starfi sem framkvæmdasstjóri hjá Héraðssambandi Vestur Ísfirðinga (HVÍ) snemma árs. Sá um sumarbúðir að Núpi fyrir börn af Vestfjörðum. Þar var margt skemmtilegt brallað. Um haustið hóf ég störf sem íþróttakennari við Héraðsskólann að Núpi. Þjálfaði hjá Umf Gróanda, félag nemenda á Núpi, þetta haust körfubolta og blak.

1991 Þetta ár þjálfaði ég áfram hjá Umf Gróanda bæði vor og haust. Körfubolta og blak fram á vorið en um haustið aðeins körfubolta. Yfir sumarið stóð HVÍ fyrir sumarbúðum að Núpi og sá ég um þær í félagi við fleira fólk. Var það mjög skemmtileg og gefandi reynsla.

1992 Þjálfa körfubolta fram á vorið hjá Umf Gróanda á Núpi. Um sumarið réð ég mig aftur í þjálfun á Bíldudal eftir nokkura ára hlé. Þjálfaði frjálsar íþróttir, knattspyrnu og var með leikjanámskeið. Frábær árangur náðist þetta sumar. ÍFB vann Hérðasmótið í knattspyrnu í 4. flokki og meistaraflokki, meistaraflokkur vann þriðja árið í röð og fékk því bikarinn til eignar. Á Héraðsmótinu í frjálsum vann ÍFB báða bikarana , þ.e. bæði fyrir heildarstig og bikarstig, annað árið í röð. Einnig unnust Íslandsmeistaratitlar hjá yngri iðkendum. Meðal margra efnilegra iðkenda hjá ÍFB á þessum árum var Vala Flosadóttir og var strax greinilegt að þar var mikið efni á ferð.
Um haustið hóf ég störf sem íþróttakennari á Patreksfirði og leiðbeindi auk þess í líkamsræktinni þar.

1993 Leiðbeindi í líkamsræktinni á Patró fram á vorið en færði mig svo yfir á Bíldudal og þjálfaði þar yfir sumarið frjálsar íþróttir og knattspyrnu. Þriðja árið í röð vannst Héraðsmótið í frjálsum og báðir stigabikarar mótsins til eignar við mikinn fögnuð heimamanna. Í knattspyrnunni lenti meistaraflokkur í öðru sæti en 4. flokkur sigraði á ný í sínum flokki.
Var með tvö sundnámskeið þetta sumar, það fyrra á Barðaströnd og um haustið í Fljótum í Skagafirði því þá hafði ég ráðið mig sem íþróttakennara til Siglufjarðar.

1994 Þjálfaði 5. flokk hjá Knattspyrnufélagi Siglufjarðar (KS) innanhúss fram á vorið auk þess að aðstoða við körfuboltaþjálfun og um sumarið þjálfaði ég 6. og 7. flokk í knattspyrnu. Meðal iðkenda í 5. flokki var Grétar Rafn Steinsson síðar atvinnumaður í knattspyrnu og landsliðsmaður. Auk þess var ég með sundnámskeið fyrir 5-7 ára á Siglufirði og sundnámskeið fyrir krakka úr Fljótum og Hofsósi eins og haustið áður. Um haustið þjálfaði ég yngri flokka í körfubolta hjá hinu nýstofnaða félagi Umf. Glóa.

1995 Tók við formennsku hjá Umf. Glóa og þjálfaði yngri flokka í körfubolta hjá félaginu. Þjálfaði frjálsar yfir sumartímann.

1996 Þjálfa meistaraflokk hjá Glóa í körfunni fram á vor. Þjálfa frjálsar yfir sumarið hjá Glóa og sá um sameiginlegt leikjanámskeið Glóa og KS. Þjálfaði Minni-boltann og meistaraflokk í körfunni um haustið. Meistaraflokkur tók þátt í Bikarkeppni KKÍ og fór alla leið í 16 liða úrslit.


1997 Þjálfaði meistaraflokkinn í körfunni þar sem liðið náði sínum besta árangri til þessa, komst í úrslitakeppnina í annað sinn og hafnaði í 7. sæti í 2. deild. Liðið tók einnig þátt í Landsmóti UMFÍ í Borgarnesi. Þjálfaði einnig Minni-boltann fram á vor. Um sumarið var ég með frjálsíþróttaæfingar og íþróttaskóla með góðu fólki á vegum Glóa. Félagið sendi í fyrsta sinn keppendur á Íslandsmót í frjálsum og eignaðist sinn fyrsta Íslandsmeistara.

1998 Þjálfaði meistaraflokk Glóa í körfu og um haustið einnig Minni-boltann. Um sumarið var ég með íþróttaskóla og frjálsíþróttaæfingar eins og árið áður.

1999 Þjálfaði meistaraflokkinn enn eitt árið, fram á vorið, og var með frjálsíþróttaæfingar yfir sumartímann hjá Glóa. Einnig sá ég um svokallaða Ævintýraviku með félögum mínum í frjálsíþróttadeildinni. Hún var ætluð börnum 5-8 ára og þar var margt skemmtilegt brallað.  Um haustið þjálfaði ég 10. flokk í körfu en meistaraflokkur var lagður niður vegna mannfæðar.

2000  Þjálfaði 10. flokk í körfunni hjá Glóa fram á vorið.  Frjálsíþróttaæfingar hófust innanhúss eftir páska og héldu svo áfram í júní og júlí utanhúss.  Góður árangur náðist þetta sumar m.a. fengum við einn Íslandsmeistaratitil hjá 15-16 ára þegar Jón Örvar Gestsson sigraði í 3000m hlaupi á MÍ.  Um sumarið var ég einnig með 3 ævintýravikur ásamt félögum mínum hjá Glóa.   

2001  Stóð fyrir 5 Ævintýravikum þetta sumar ásamt félögum mínum hjá Glóa þar sem var mikið líf og fjör.  Körfuboltaæfingar fóru aftur af stað um haustið eftir árshlé og var ég með 9. flokk. 

2002  Þjálfaði 9. flokk í körfunni fram á vorið en 10. flokk um haustið.  Engar frjálsíþróttaæfingar á dagskránni þetta árið frekar en árið á undan en ég sá um 2 Ævintýravikur hjá Glóa um sumarið.

2003  Þjálfaði 10. flokk í körfunni hjá Glóa fram á vorið. 

2004  Þjálfaði frjálsar íþróttir hjá Glóa frá ágústbyrjun og út árið sem og 10. flokk í körfubolta hjá Glóa það haust.  Iðkendur Skíðafélags Siglufjarðar voru með á frjálsíþróttaæfingum og voru í sérstöku þrekprógrammi.

2005  Þjálfaði 10. flokk í körfubolta og frjálsar íþróttir hjá Glóa fram á vorið.  Um sumarið tók ég að mér leikjanámskeið hjá KS þar sem yngstu iðkendur félagsins voru við leik og knattspyrnuæfingar frá kl. 13.00 -15.30 á daginn.  Einnig tók ég að mér þjálfun hjá Ungmennafélagi Fljótamanna og var þar um að ræða bland af leikjanámskeiði og frjálsíþróttaæfingum.  Um haustið var ég með íþróttaskóla hjá Glóa fyrir 5-6 ára börn.

2006  Var með íþróttaskólann hjá Glóa fram á vorið og aftur um haustið ásamt fleira góðu fólki.  Þjálfaði frjálsar frá byrjun september og út árið.   

2007  Þjálfaði frjálsar íþróttir og var með íþróttaskóla fram til vors.  Um sumarið tók ég aftur að mér leikjanámskeið í Fljótunum og síðan hófust æfingar hjá Glóa í frjálsum aftur í ágúst og voru út árið.  Keppendur Glóa náðu mjög góðum árangri þetta ár unnu til margra verðlauna og voru inn á Topp 10 yfir landið í nokkrum greinum.  Íþróttaskólinn hófst einnig á haustdögum og var ég með hann.

2008  Enn var haldið áfram að þjálfa frjálsar hjá Umf Glóa og var ég einnig með íþróttaskóla félagsins.  Frábær árangur náðist í frjálsum íþróttum þetta ár og sett voru yfir 100 aldursflokkamet hjá félaginu og um 30 félagsmet.  Iðkendur félagsins áttu fjölmarga árangra inn á Topp 10 yfir landið þetta árið í hinum ýmsu greinum.  Frjálsíþróttaæfingar voru í um 10 mánuði en íþróttaskólinn var jan-maí og okt-des.  Tók einnig að mér leikjanámskeið í Fljótum í þriðja sinn og gekk það ljómandi vel.

2009  Áfram var haldið að þjálfa frjálsar iþróttir hjá Umf Glóa og sá ég einnig um íþróttaskóla fyrir félagið fyrir börn 4-6 ára. Iðkendur félagsins stóðu sig með prýði eins og undanfarin ár og voru í verðlaunasætum á helstu mótum.  Sérstaklega var sætt að sjá soninn vinna til silfurverðlauna í hástökki á Íslandsmóti 11-14 ára innanhúss.
Um sumarið stóðu æfingar í frjálsum frá júlíbyrjun og til loka september.  Lítið var keppt utan fjarðar en samt sem áður skoruðu iðkendur Glóa hátt á afrekalistum Frjálsíþróttasambandsins t.d. áttu börn þjálfarans, Patrekur og Elín Helga, bestu árangra á landinu í kringlukasti í sínum aldursflokkum.

2010  Frjálsíþróttaþjálfun hjá Umf Glóa allt árið um kring og íþróttaskóli yfir vetrartímann fyrir yngstu iðkendurna, sama dagskrá og undanfarin ár.  Iðkendur félagsins ná fínum árangri á landsvísu í þeim greinum sem kostur er að æfa á Siglufirði og þá helst í kastgreinum yfir sumarið og atrennulausum stökkum og kúlu yfir vetrartímann.  Sumardagskráin frá júlíbyrjun til loka september og farið á fjölmörg mót jafnt sumar sem vetur og nokkur mót haldin heima.  Iðkendur félagsins skora hátt á afrekaskrá FRÍ áttu m.a. 24 afrek á Topp 10 eftir sumarið. Elín Helga, dóttir þjálfarans, átti besta árangur landins hjá 10 ára og yngri í spjóti og kringlu og þann næst besta í kúlu.

2011  Árið byrjaði aldeilis vel því við afhendingu viðurkenninga til íþróttamanns ársins og bestu og efnilegustu íþróttamanna hverrar greinar á Siglufirði, var mér afhent viðurkenning fyrir mikið og óeigingjarnt starf að íþróttamálum á Siglufirði undanfarna tvo áratugi. Annars var árið í þjálfununni með þessum hætti: Þjálfaði frjálsar hjá Glóa allt árið um kring nema hlé var gert í júní og júlí þ.s. ég var að opna Ljóðasetur Íslands á Siglufirði og svo veittist mér sú ánægja að vera annar frjálsíþróttaþjálfari Íslands í ferð á Special Olympics í Aþenu. Sú ferð stóð í rúmar tvær vikur og var mjög skemmtileg og eftirminnileg. Sigurjón Sigtryggsson, strákur sem ég hef þjálfað á Siglufirði í nokkur ár, var einn af keppendum. Auk þess var ég með Íþróttaskóla félagsins, en aðeins fram á vor. Sem fyrr náðu iðkendur mínir fínum árangri í frjálsum, unnu til fjölmargra verðlauna á mótum og skoruðu hátt á afrekaskrám Frjálsíþróttasambandsins.  

2012Frjálsíþróttaþjálfun hjá Umf Glóa allt árið um kring líkt og árin á undan.  Iðkendur félagsins ná fínum árangri á landsvísu í þeim greinum sem kostur er að æfa á Siglufirði og þá helst í kastgreinum yfir sumarið og atrennulausum stökkum og kúlu yfir vetrartímann.  Sumardagskráin frá júlíbyrjun til loka september og farið á fjölmörg mót jafnt sumar sem vetur og nokkur mót haldin heima.  Iðkendur félagsins skora hátt á afrekaskrá FRÍ og þó nokkrir áttu afrek inn á topp 5 í sínum flokkum.

2013   Enn eru frjálsíþróttaæfingar á dagskránni hjá Umf Glóa allt árið um kring. Árangur mjög góður hjá iðkendum félagsins og vakti athygli sem fyrr, sérstaklega ef miðað var við það aðstöðuleysi sem þau bjuggu við . Besti árangurinn í kastgreinum en fínn árangur í ýmsum öðrum greinum t.d. stökkum og grindahlaupi. Iðkendur félagsins vel sjáanlegir á afrekaskrám Frjálsíþróttasambandsins og unnu til verðlauna á hinum ýmsu mótum. Farið á heldur færri mót en áður m.a. vegna þess að þjálfarinn var upptekinn að sinna Ljóðasetrinu og erfiðara en fyrr að finna tíma fyrir öll hugðarefnin! Amalía, dóttir þjálfarans náði bestum árangri sem 9 ára stúlka hafði nokkru sinni náð á landinu í kúluvarpi! Var einnig með frjálsíþróttaæfingar og leikjanámskeið hjá Ungmennafélagi Fljótamanna.

2014   Enn eitt árið er haldið af stað með frjálsíþróttaæfingar hjá Umf Glóa, en þ.s. starfsvettvangur þjálfarans var nú í Ólafsfirði reyndist erfiðara að samræma tíma og orkan var eitthvað minni en áður til að sinna verkefninu. Iðkendum hafði heldur fækkað og áhuginn ekki eins mikill og áður. Æfingar voru þó fram á vor og sumaræfingar einnig en þar voru mjög fáir iðkendur og veðrið mjög óhagstætt. Árangur iðkenda var eftir sem áður góður en minni tími gafst til að fara á mót en þegar var farið sópuðu iðkendur félagsins að sér verðlaunum sem fyrr. Að hausti var ákveðið að taka pásu á frjálsíþróttaæfingum en ný grein kom inn hjá félaginu þegar blakæfingar hófust aftur fyrir krakka og árið eftir hófust svo fimleikaæfingar á vegum félagsins í Ólafsfirði. 

2017    Eftir smá hlé frá þjálfun var haldið af stað að nýju. Að þessu sinni var það Íþróttaskóli fyrir 1. - 4. bekk í tengslum við nýtt fyrirbæri, Frístund, sem hófst að hausti í Grunnskóla Fjallabyggðar. Boðið var upp á þessar æfingar í framhaldi af skóladeginum, innihaldið var fjölbreytt hreyfing þar sem fimleikar, þrautabrautir og ýmsir leikir voru fyrirferðamest. Patrekur, sonur minn, þjálfaði með mér. Vorum við með 1. og 2. bekk í íþróttasalnum við Norðurgötu og 3. og 4. bekk í íþróttahúsinu. Hvor hópur var einu sinni í viku, um 20 krakkar í hvorum hóp. 

2018    Frístund, þessi nýung sem fór af stað haustið áður líkaði vel. Við feðgarnir héldum áfram með Íþróttaskólann fyrir nemendur í 1. - 4. bekk fram á vorið. Yngri bekkirnir tveir voru saman í íþróttasalnum við Norðurgötu, þar voru um 20 nemendur í fjölbreyttum æfingum, en töluvert fækkaði í þeim hóp sem valdi Íþróttaskólann úr 3. og 4. bekk svo nú sá Patrekur að mestu um þann hóp. Æfingar voru út maí. Að hausti hófust æfingar aftur en þó með þeirri breytingu að nú var boðið upp á körfuboltaæfingar fyrir nemendur í 3. og 4. bekk. Voru hóparnir fjölmennir þetta haust; 28 í Íþróttaskólanum og 19 völdu körfuboltann. Sem fyrr var bara 1 æfing á viku hjá hvorum hópi. 

2019   Fram var haldið í Frístundinni frá haustinu áður. Íþróttaskóli fyrir nemendur í 1. og 2. bekk í litla salnum við Norðurgötu og körfubolti fyrir 3. og 4. bekk í stóra íþróttasalnum. Mjög góð þátttaka í Íþróttaskólanum að venju, 28 nemendur sem ég var með einu sinni í viku, um 20 í körfuboltanum. Æfingar voru út maí og gengu ágætlega, þó hávaði hafi verið nokkuð yfir leyfilegum mörkum á köflum. Um vorið var tekin ákvörðun um að endurvekja Ævintýravikurnar hjá Umf Glóa, í tilefni af 25 ára afmæli félagins. Við hjónin, ég og Stína tókum að okkur að skipuleggja þær og stýra. Vorum með 1 viku í júní og aðra í júlí. Krakkarnir voru í ýmsum ævintýrum þessa viku frá kl. 10 - 12 hvern virkan dag. Gekk mjög vel og þátttaka góð, um 20 börn hvora viku. Að hausti fór Íþróttaskólinn aftur af stað fyrir 1. og 2. bekk og var þátttaka mjög góð að venju, tæplega 30 börn, en körfuboltinn var hvíldur.  

2020   Íþróttaskólinn hélt áfram hjá 1. og 2. bekk með sama sniði og fyrr. Þátttaka ljómandi góð rúmlega 20 börn en Covid faraldurinn setti strik í reikninginn svo gera þurfti hlé á æfingum í nokkrar vikur. Vorum í íþróttasalnum við Norðurgötu en farið út þegar voraði og veður leyfði. Haldið áfram með Ævintýravikur um sumarið fyrir börn 6 - 7 ára. Ein vika í júní og önnur í júlí. Mjög góð þátttaka í þeirri fyrri en frekar lítil þá síðari. Fjölbreytt dagskrá og mikið fjör. Ég og Stína saman með fyrri vikuna en ég einn með þá síðari. Íþróttaskólinn var svo aftur um haustið, 26 börn skráð til leiks og fjörið mikið, stundum aðeins of mikið! 

2021  Íþróttaskólinn var áfram á dagskrá fyrir 1, og 2. bekk og með svipuðu sniði og fyrr. Frúin leysti mig að mestu af á vormisseri vegna kennslu minnar í MTR en ég tók alfarið við aftur að hausti. Rúmlega 20 börn voru á hvorri önn. Um sumarið var ég með 2 Ævintýravikur hjá Umf Glóa. Frúin var til aðstoðar í þeirri fyrri enda aðsókn mjög góð en heldur færri voru síðari vikuna og þá var ég einn með hópinn. Ýmis skemmtileg viðfangsefni sem fyrr og allir glaðir og kátir.

2022  Íþróttaskólinn enn sem fyrr á dagskrá. Fyrir nemendur í 1. og 2. bekk GF og formið líkt og fyrri ár. Um 20 börn skráð til leiks á vorönn. Ævintýravikurnar urðu tvær þetta sumarið, sú fyrri fyrir 6 - 7 ára en sú síðari fyrir 5 - 7 ára. Fín þátttaka í þeim báðum og við hjónin sáum um að allt gengi vel og væri spennandi og skemmtilegt. Veður setti strik í reikninginn í fyrri vikunni svo það þurfti að vera mjög lausnamiðaður, en allt gekk þetta upp. Um haustið fór Íþróttaskólinn aftur af stað, fyrir sama aldur og venjulega. Iðkendur tæplega 20.   

 

Flettingar í dag: 49
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 47
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 45859
Samtals gestir: 12261
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 15:10:11