Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Tónlistarannálar 1986-´90

Sæl aftur, langt síðan síðast. Já árið 1986 runnið upp og Þórarinn hefur verið í sjálfskipaðri útlegð frá tónlistinni í rúm fjögur ár en mikið hefur gengið á í lífi hans á þessum árum og ekkert rúm fyrir tónlistarflutning. Tvö ár í Reykjavík við áframhaldandi nám og stúdentsprófið. Frumburðurinn kom í heiminn. Á sumrin í sólinni á Bíldudal. Íþróttaiðkun og þjálfun sem aldrei fyrr. Tvö ár á Laugarvatni og íþróttakennaraprófið. Gifting. Sumar á Selfossi. Vinna í Reykjavík. Skilnaður. Já, það var bara einhvern veginn ekkert rúm fyrir tónlistina, nema að hlusta og Þórarinn gerði mikið af því á þessum árum. Kynntist tónlistarmönnum eins og Bob Dylan, Cat Stevens, Albert Hammond, Davið Bowie, U2 o.fl. Sem bættust við þá flóru sem þegar hringlaði í hausnum á honum og áttu kannski eftir að hafa nokkur áhrif þegar fram liðu stundir.
En undir lok ársins 1986 gerðist nokkuð skemmtilegur og afdrifaríkur atburður. Leikfélagið Baldur á Bíldudal ákvað að halda ball með bíldælskum tónlistarmönnum, milli jóla og nýárs, og í fljótheitum voru settar saman a.m.k. tvær hljómsveitir sem æfðu eina dagstund, eða svo. Þórarinn söng með báðum þessum sveitum en þær urðu fyrirrennarar tveggja hljómsveita sem koma mikið við sögu á næstu árum og áratugum. Þessi uppákoma var kannski einnig fyrirrennari hinna rómuðu Vísnakvölda sem hafa verið árviss viðburður milli jóla og nýárs á Bíldudal.

# Söng með hljómsveitinni Bíldudals Búggarnir á leikfélagsballi Í Baldurshaga, á dagskránni voru þó aðeins 6 lög. Þarna hitti Þórarinn aftur félaga sína úr Bresti, Helga og Gísla, og samstarf þeirra átti eftir að verða meira á næstu árum.
# Söng með hljómsveitinni Dalli daladriver og hryggsúlurnar, á sama dansleik og um er getið að ofan. Þessi sveit, í aðeins breyttri mynd, átti svo sannarlega efir að koma mikið við sögu á næstu áratugum á tónlistarferli Þórarins.

Þá er Þórarinn kominn af stað á ný og spurningin er hvort tími reynist til að sinna tónlistinni á næstu árum. Sjáum hvað setur.


Þó Þórarinn komi ekki oft fram á því herrans ári 1987 er árið nokkuð merkilegt á tónlistarferlinum hjá félaga vorum. Fyrst má telja að gleðisveitin mikla Græni bíllinn hans Garðars tekur til starfa, hljómsveitin Vesturfararnir verður einnig til og Þórarinn kemur fram á sínu fyrsta Vísnakvöldi með sinn fyrsta frumsamda lagatexta. Þá er ótalin fyrsta Áramótagleði bílverjanna á þeim græna en um þær væri hægt að skrifa margar skondnar sögur, jafnvel heilu bækurnar.
Þórarinn kom fram 4 sinnum á árinu og líklega hafa tæplega 600 manns séð og heyrt. Fyrsti frumsamdi lagatextinn fluttur fyrir fullu húsi á Vísnakvöldi í Baldurshaga.

# Þórarinn söng með hljómsveitinni Harðlífi, sem síðar var skírð Græni bíllinn hans Garðars, á íþróttafélagsballi í Baldurshaga. Æfingar höfðu staðið yfir í rúman mánuð og fóru fram í Langa skúrnum svonefnda, en hann var byggður á dögum Péturs Thorsteinssonar, um aldamótin 1900, og var á sínum tíma lengsta bygging á landinu. Sveitin var beðin að spila á þessum dansleik og valdi þetta nafn þar sem það útlagðist svo vel á enskunni Hard Life. Einhverjir töldu þó að sveitin héti Hafliði.
# Hinir burtfluttu Brests meðlimir voru beðnir um að mynda hljómsveit og leika á árshátíð leikfélagsins Baldurs á Bíldudal, sem alltaf fer fram í kringum 1. des. Þeir voru meira en tilbúnir í það og fengu feðgana Ástvald og Viðar í lið með sér, en þeir voru búsettir á Bíldudal. Æfingar fóru því fram á sitt hvoru landshorninu, þ.e. annars vegar í Reykjavík og hins vegar á Bíldudal. Síðan var þetta slípað saman degi fyrir ball. Hljómsveitin fékk nafnið Vestufararnir og Þórarinn sá um sönginn.
# Fyrsta Vísnakvöldið í Baldurshaga. Þórarinn kom fram ásamt frændum sínum og félögum Bjarna Þór og Matthíasi undir nafninu Frænda tríó. Fluttu þeir tvö erlend lög og síðan lag sem Bjarni hafði samið deginum áður og Þórarinn sett saman texta við.
# Fyrsta Áramótagleði Græna bílsins.. og Þórarinn við hljóðnemann. Þetta var alveg rokna gleði sem entist langt fram á morgun með hinum ýmsustu uppákomum.

Já sannarlega afdrifaríkt ár í tónlistarsögu Þórarins og á eftir fylgdi bara meiri gleði og meira stuð. Lesið áfram.


Þá er komið að stærsta ári Þórarins til þessa á tónlistarferlinum, árinu 1988, flestar uppákomur og flestir áhorf- og heyrendur. Leikið á 8 dansleikjum með 3 hljómsveitum og auk þess í skírn, brúðkaupi og brúðkaupsveislu. Nóg að gera, fjölbreytt verkefni og skemmtileg. Auk þess samdi Þórarinn sín fyrstu lög, 3 talsins við texta annarra.
Þórarinn kom því fram 12 sinnum á árinu og um 1300 manns hafa séð og heyrt.

# Árið hófst með Þorrablóti í Baldurshaga þar sem Þórarinn söng með Vesturförunum.
# Græni bíllinn hóf árið með því að leika á Furðufataballi í Baldurshaga.
# Þórarinn söng við skírn systursonar síns Hannesar Hjörvars í Bíldudalskirkju.
# Söng með Græna bílnum á Sjómannadagsballi í Bladurshaga.
# Græni bíllinn þreytti frumraun sína utan Bíldudals með balli á Tálknafirði sem heppnaðist þræl vel en með skrautlegum uppákomum.
# Græni bíllinn enn á ný nú með ball í kringum Héraðsmót HHF á Bíldudal.
# Söng í brúðkaupi Matta og Tone í Bíldudalskirkju og síðan í veislunni á eftir, bæði með Græna bílnum og Vesturförunum.
# Eitt af ótrúlegri böllum sem Þórarinn hefur komið fram á var þetta sumar. Hljómsveitin kallaði sig Hinir og þessir og það var sannarlega réttnefni. Hún var sett saman á fimmtudegi, æfði á föstudegi og hélt ball á laugardegi fyrir fullu húsi í Baldurshaga. Meðspilararnir voru engir aukvisar; Þorleifur Guðjónsson bassaleikari (með KK og Bubba), Þorsteinn Magnússon gítarleikari (með Bubba og Megasi) auk tveggja annarra og Þórarins og Viðars úr Græna bílnum og Vesturförunum.
# Vesturfararnir léku aftur á árshátíð Baldurs með aðeins breyttri liðskipan en gömlu félagarnir í Bresti voru kjölfestan sem fyrr.
# Önnur Áramótagleði Græna bílsins og sem fyrr leikið fram undir morgun í dúndrandi stuði. Raddleysi, timurmenn, harðsperrur og allur pakkinn daginn eftir.

Já, sannarlega fjörugt og fjölbreytt ár. En hvað tekur nú við, mun Þórarinn fylgja þessu eftir með enn fleiri uppákomum. Hver veit ?

Græni bíllinn hans Garðars Gleðisveitin Græni bíllinn hans Garðars


Rólegt ár hjá Þórarni á tónlistarsviðinu árið 1989, enda búsettur fyrir sunnan, en þó átti hann góðan endasprett er hann komst í Vestfirska fjallaloftið. Allar uppákomur ársins voru eftir 11. nóvember. Stór stund á ferlinum var á Vísnakvöldi þegar Þórarinn flutti sín fyrstu frumsömdu lög, með misjöfnum árangri þó. Kom fram á þremur dansleikjum þó aldrei með sömu hljómsveitinni.
Þórarinn kom aðeins 6 sinnum fram þetta árið og um 700 manns hafa barið hann augum á þeim uppákomum.

# Kom fram með Heimatilbúnu hljómsveitinni sem var sett saman fyrir Lions-ball á Bíldudal og lék undir bíóklefanum. Þarna voru með honum félagar úr Græna bílnum og Vesturförum ásamt fleirum.
# Vesturfararnir léku í þriðja sinn á árshátíð Baldurs. Í nokkuð breyttri mynd þó.
# Þórarinn kom tvisvar sinnum fram á Vísnakvöldi. Fyrst með föður sínum og bróður, fluttu þeir tvö lög við undirleik Ragnars Jónssonar. Síðan var frumraun Þórarins með frumsamið efni er hann flutti tvö frumsamin lög við texta eftir aðra.
# Græni bíllinn lék á barnajólaballi eins og árin á undan.
# Græni bíllinn hélt sína þriðju villtu Áramótagleði með tilheyrandi látum og gleði og fullt af nýjum lögum í farteskinu.

Sem sagt í rólegri kantinum þetta árið þó endaspretturinn hafi vissulega verið góður.

Jæja, árið á undan var rólegt en lengi getur vont versnað, og gott besnað eins og þar stendur. Á árinu 1990 gerðist bara ekkert í tónlistinni fyrr en í desember og þá nýjum heimavelli. Þórarinn flutti nefnilega að Núpi í Dýrafirði í mars þetta ár og gerðist þar framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestur Ísfirðinga og síðar einnig kennari.
Kom aðeins 4 sinnum fram þetta ár og um 500 manns hafa heyrt og séð.

# Græni bíllinn var fenginn til að leika á 1. des skemmtun hjá nemendum á Núpi, Umf. Gróanda. Var það hin besta skemmtun og söguleg í marga staði.
# Græni bíllinn lék fyrir börnin á barnajólaballi í Baldurshaga.
# Þórarinn flutti á Vísnakvöldi lag sitt og texta Vísnakvöld fyrir vestan sem strax sló í gegn.
# Græni bíllinn lék á enn einni Áramótagleðinni og fjörið sem aldrei fyrr.

Hvernig er þetta með drenginn er hann dauður úr öllum æðum eða skildi hann eitthvað taka frekar við sér í nýju umhverfi fyrir vestan.

Flettingar í dag: 31
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 46
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 47208
Samtals gestir: 12738
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 17:04:51