Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Íþróttaannálar 1986-´90



Árið 1986 var ár mikilla breytinga og stórra titla á íþróttaferli Þórarins. Skólagöngu á Laugarvatni að ljúka og óvíst hvert stefnan skildi tekin.

Körfuknattleikslífið var fjörugt þessa síðustu önn sem fyrr. Baráttan í 2. deildinni með liði HSK hélt áfram og liðið tryggði sér sigur í sínum riðli með skemmtilegri spilamennsku. Leiðin lá því í úrslitakeppnina þar sem ekki gekk alveg eins vel en liðið endaði í 3. sæti af 4 liðum. Mótherjarnir voru allt lið sem voru að byrja mikla sigurgöngu í körfuboltanum; Snæfell, Tindastóll og Skallagrímur. Þórarinn lék alla leiki liðsins þennan vetur, 16 talsins, og var næststigahæstur með 229 stig. Þórarinn keppti einnig með Laugdælum í Deildarkeppni HSK þar sem vannst yfirburðasigur.

Lítið var komið nálægt frjálsum íþróttum þetta vorið en Þórarinn keppti þó sem gestur í hástökki á hinu svokallaða Þriggja félaga móti sem fór fram á Minniborg og sigraði þar.
 
Þórarinn tók einnig þátt í Héraðsmóti HSK í blaki með félögum sínum í íþróttakennaraskólanum og vannst sigur á því móti.

Um vorið fékk Þórarinn tilboð sem hann gat ekki hafnað en það var að taka að sér þjálfun í frjálsum íþróttum hjá einu öflugasta frjálsíþróttafélagi landsins Umf. Selfoss auk leikjanámskeiða hjá HSK. Að lokinni útskrift frá Laugarvatni, með meðaleinkunn upp á 8.35, lá leiðin á Selfoss þar sem tekið var til við þjálfun efnilegra krakka og flengst um Suðurlandið með leikjanámskeið hjá hinum ýmsu félögum. Jafnframt gekk Þórarinn til liðs við Umf. Selfoss en sá um að þjálfa sig sjálfur að mestu leyti, eins og ávallt fyrr. Þjálfunin barnanna gekk mjög vel, góðir árangrar náðust og margir titlar unnust. Hjá Þórarni gekk ekki síður vel í keppni. Fyrsta mótið sem Þórarinn tók þátt í fyrir hönd Umf. Selfoss var Íþróttahátíð HSK og þar fékk Þórarinn silfur í hástökki, þrístökki og spjótkasti og brons með B-sveit Selfoss í boðhlaupi. Síðan kom að stóru titlunum þegar Þórarinn gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í karlaflokki í spjótkasti og fimmtarþraut, en hafnaði í 6. sæti í hástökki á Meistaramóti Íslands. Kom hann þar mörgum á óvart, ekki síst sjálfum sér.


Þetta sumar keppti Þórarinn einnig á Fjölþrautarmóti HSK þar sem hann sigraði í fimmtarþaut, Boðsmóti FRÍ þar sem tóku þátt keppendur frá Íslandi, Smálöndum og Skáni, þar varð 5. sæti í hástökki og það 4. í spjótkasti hlutskipti Þórarins, Bikarkeppni FRÍ 1. deild, með liði HSK, þar sem hann varð 3. í hástökki og tugþraut og síðasta mótið var keppni milli Selfoss og Keflavíkur þar sem Þórarinn hlaut gull í spjótkasti og boðhlaupi og silfur í langstökki og hástökki. Á lokahófi Umf. Selfoss í lok sumars var okkar maður verðlaunaður sérstaklega fyrir frábæra frammistöðu sem keppandi.  Sem sagt viðburða- og árangursríkt sumar á íþróttasviðinu.

Um haustið fluttist Þórarinn í höfuðborgina, tók upp þráðinn í körfuboltanum og lék nokkra leiki með Laugdælum á Laugarvatni sem og með liði HSK í 2. deildinni. Var hann þó ekki eins atkvæðamikill og árin á undan enda æfði hann ekki mikið með liðunum, var meira í því að veita liðsstyrk í keppni. Hlé var frá frjálsíþróttaæfingum þetta haustið en Þórarinn stundaði aftur á móti knattspyrnu með Dalamönnum 2 sinnum í viku til að halda sér í einhverju formi.

Bestu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru þessir. Langstökk 6.45m úti 6.01 inni, þrístökk 13.15m úti 12.92m inni, hástökk 1.90m inni og úti, kringlukast 38.52m, kúluvarp 11.15m, spjótkast 58.92m, 100m 12.2sek, 200m 25.84sek, 400m 56.6 sek, 1500m 4.49.5 mín, 110m grind 18.7 sek.



Árið 1987 runnið upp og eftir gott jólafrí á heimaslóðum á Bíldudal var aftur haldið í borgina. Þórarinn lék áfram körfuknattleik með HSK í 2. deildinni og fór liðið aftur alla leið í úrslitakeppni deildarinnar og hafnaði í 2. sæti. Þórarinn fór einnig nokkrar ferðir upp á Laugarvatn og lék með Laugdælum í Héraðsmóti HSK í körfuboltanum þar sem öruggur sigur vannst.

Þórarinn tók þátt í Meistaramóti Íslands í frjálsum innanhúss og varð þar í 2. sæti í hástökki.

Um vorið lá leiðin aftur vestur á Bíldudal þar sem Þórarinn var fyrstur manna ráðinn framkvæmdastjóri hjá Héraðssambandinu Hrafnaflóka. Sá hann um mótahald, útgáfu fréttabréfa og daglegan rekstur auk þess sem hann hóf að taka saman afrekaskrár sambandsins í frjálsum íþróttum. Eftir sem áður var Þórarinn félagi í HSK og keppti fyrir þá í frjálsum og körfubolta á mjög svo eftirminnilegu Landsmóti UMFÍ á Húsavík. Þar varð Þórarinn 3. í hástökki, með stökk upp á 1.94m, og 5. í spjótkasti. Í körfuboltakeppninni endaði lið HSK í 6. sæti. Að loknu Landsmóti fékk Þórarinn boð um að fara með besta frjálsíþróttafólki UMFÍ í viku æfinga- og keppnisferð til Danmerkur. Eftir nokkrar tilfæringar gat hann tekið boðinu og hefði ekki viljað missa af þessari ferð sem var mjög skemmtileg. Keppt var við frjálsíþróttalið Árósa og vann lið UMFÍ öruggan sigur. Þórarinn varð 2. í hástökki og 4. í spjótkasti. Sumrinu lauk með þátttöku í Meistaramóti Íslands í beinni útsendingu í sjónvarpinu og þar varð okkar maður 3. í spjóti og 4. í hástökki með sínum besta árangri 1.95m.

Keppt var með liði ÍFB í knattspyrnu þetta sumar fyrir vestan en Bílddælingar enduðu þar í 3. sæti í þetta sinn. Einnig gerði lið ÍFB tilraun til að taka þátt í 4. deild Íslandsmótsins en hún rann út í sandinn vegna mannahallæris eftir tvo tapleiki.

Um haustið var aftur haldið til borgarinnar. Þórarinn stundaði badminton 1x í viku þetta haustið ásamt nokkrum félögum sínum og fékk að mæta á æfingar í frjálsum hjá Ármanni 2x í viku en ekkert var keppt.

Bestu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru þessir: Langstökk úti 6.01m, þrístökk úti 12.92m, hástökk inni 1.90m úti 1.95m, kringla 31.42m, kúla 11.07m, spjót 55.88m og 200m hlaup 26.20sek.



Áfram flýgur tíminn og árið 1988 runnið upp.  Sem fyrr dvelur Þórarinn í borginni yfir vetrartímann en lítið er um skipulagðar æfingar.  Badminton var leikið með nokkrum vinum og sparkað í bolta einstaka sinnum, skokkað í vinunna og slíkt til að halda sér við.  Erfiðlega gekk að slíta böndin við Laugarvatn og því fór Þórarinn nokkrar ferðir þangað til að leika körfuknattleik og varð héraðsmeistari með Laugdælum.

Um vorið lá leiðin enn vestur á Bíldudal þar sem beið framkvæmdastjórastaða hjá Hérðasassambandinu Hrafnaflóka eins og sumarið áður og kennt var á einu sundnámskeiði.  Knattspyrnulið Bíldudals var öflugt þetta sumar og loks kom að því að félagið lyfti hérðasbikarnum í mótslok eftir nokkur mögu ár.  Þórarinn skoraði 10 af 21 marki liðsins í 6 leikjum.  Þórarinn gekk aftur til liðs við ÍFB í  frjáslum og á frjálsíþróttavellinum átti okkar maður góðu gengi að fagna og setti m.a. 4 hérðasmet.  Hlaut hann 5 gull á héraðsmótinu, 3 silfur og 1 brons auk þess sem hann fékk verðlaun fyris besta afrek mótsins í karlaflokki er hann stökk 1.90m í hástökki.  Þrír keppendur fóru frá HHF til þátttöku í 3. deild Frjálsíþróttasambandsins sem fram fór á Vík í Mýrdal að þessu sinni.  Þórarinn var einn þeirra og sigraði hann í hástökki og spjóti en varð 4. í kringlu.  Á Meistaramóti HHF í lok sumars sigraði Þórarinn svo í hástökki, spjóti og kringlu og setti þar tvö héraðsmet.

Þórarinn með afraksturinn af Héraðsmótinu 1988

Eftir gott sumar fyrir vestan tók borgin við, vinna og aftur vinna, engar skipulagðar æfingar og engin mót eða keppni.  Um jólin lá leiðin aftur vestur í sprikl og spilerí.

Bestu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru eftirtaldir:  Langstökk 5.92 m, hástökk 1.92m úti 1.87m inni, kringlukast 35.90m, kúla 10.60m, spjótkast 55.52m, 100m 12.8sek, 400m 1:02,1 mín og 1500m 5:20,1 mín. 



Árið 1989 var eitt það allra daufasta á íþróttasviðinu hjá Þórarni í háa herrans tíð.  Búið var í borginni allt árið og vinna og fjölskyldulíf hafði forgang.  Engar skipulagðar æfingar voru sóttar fyrr en um haustið er Þórarinn æfði í tveggja mánaða tíma með Breiðablik í körfubolta .

Þó keppti Þórarinn á tveimur frjálsíþróttamótum hjá ÍR í byrjun sumars með ágætum árangri og fór vestur að keppa á Héraðsmóti HHF þar sem hann náði í nokkur verðlaun og var auk þess verðlaunaður fyrir besta afrek í karlaflokki eins og árið áður.

Bestu árangrar í frjálsum þetta árið voru:  Langstökk 5.82m, hástökk 1.90m, kringlukast 29.56m, kúla 10.58m, spjót 53.64m og 400m 1:01,6 mín. 



 Árið  1990 var ár mikilla breytinga og góðra afreka.  Enn var skipt um umhverfi þegar flutt var með fjölskylduna vestur á Núp í Dýrafirði þar sem Þórarinn tók að sér framkvæmdastjórn hjá Héraðssambandi Vestur Ísfirðinga (HVÍ).  Hóf hann störf þar í byrjun mars og bjó við hliðina á íþróttasal héraðsskólans.  Var kíkt reglulega í salinn, bæði með nemendum skólans sem og einn til að myndast við að bæta formið.
Núpur
Hluti skólabygginganna og kirkjan á Núpi 

Um sumarið var kíkt reglulega á æskuslóðirnar á Bíldudal og leikin knattspyrna með félögunum í ÍFB.  Má segja að ný gullöld hafi runnið upp í knattspyrnunni á Bíldudal þetta ár því mörgum titlum var landað þar þetta ár og næstu á eftir.  Meistaraflokkurinn sigraði á Héraðsmótinu eftir mikla baráttu. Þórarinn missti af fyrsta leiknum en varð engu að síður markahæstur, skoraði 15 af 22 mörkum liðsins í mótinu.  Einnig voru leiknir tveir æfingaleikir við lið frá Ísafirði.  Sigraði ÍFB lið "Young boys" af miklu öryggi 7-2, þar sem Þórarinn skoraði 5 mörk, en tapaði gegn aðalliði Ísfirðinga 4-1.  Fékk hann viðurnefnið "Klinsmann" þetta sumar og þótti ekki leiðinlegt.

Á frjálsíþróttasviðinu var gengi Þórarins einnig með ágætum þrátt fyrir að æfingar væru af afar skornum skammti.  Á Héraðsmóti HHF sigraði hann í þremur greinum, varð annar í einni og í þriðja sæti í þremur. Vann hann besta afrekið í karlaflokki þriðja árið í röð.  Hann keppti einnig á Landsmóti UMFÍ í Mosfellsbæ og náði þar sínu lengsta kasti í spjótinu 59.96m og varð 4. Keppti hann einnig í kringlukasti en gat ekki keppt í hástökki vegna meiðsla.

Golfíþróttin var að byrja að ná tökum á Þórarni þetta ár og keppti hann á einu golfmóti á Bíldudal þar sem hann varð í 2. sæti.

Um haustið hóf Þórarinn störf sem íþróttakennari með meiru við Héraðsskólann að Núpi og Barnaskóla Mýrdalshrepps auk þess að sinna áfram framkvæmdastjórastöðunni hjá HVÍ og tók einnig að sér þjálfun í körfubolta og blaki hjá nemendafélagi skólans sem var í raun ungmennafélag og hét Gróandi. 

Bestu árangrar Þórarins þetta árið í frjálsum voru þessir:  Langstökk úti 5.82m, hástökk úti1.85m inni 1.90m, kringla 33.36m, kúla 10.72m, spjót 59.96m, 400m 1:00.9mín, 1500m 5:24.2 mín. 

 

 


  



Flettingar í dag: 8
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 39
Gestir í gær: 4
Samtals flettingar: 46917
Samtals gestir: 12630
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 06:34:09