Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

17.12.2024 09:23

Mannrækt og meitluð orð

Eins og fyrri daginn er í nógu að snúast. Lokaspretturinn á haustönninni stendur yfir í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þar sem ég kenni, glæsileg sýning á verkum nemenda stendur yfir, yfirferð verkefna lokið, lokaeinkunnir komnar í hús og útskrift stúdenta á næsta leyti. Blómlegt og kraftmikið starf í þessum skóla þar sem færri komast að en vilja. Nemendafjöldi yfir 500 síðustu annir, mikill meirihluti eru fjarnemar.

Skilaði af mér afmælisriti Ungmennafélagsins Glóa í síðasta mánuði. Félagið varð 30 ára fyrr á árinu og mér falið að rita og ritstýra riti í tilefni tímamótanna. Söguna þekki ég mæta vel enda verið þjálfari hjá félaginu frá upphafi og formaður í 29 ár. Ritið er 28 síður, í A4 broti og ríkulega skreytt af myndum. Í því er stiklað á stóru í sögu félagsins og tæpt á þeim fjölmörgu verkefnum sem félagið hefur staðið fyrir og komið að þessa þrjá áratugi. Má þar nefna æfingar í a.m.k. 5 íþróttagreinum, leikjanámskeið og Ævintýravikur, umhverfismál, lífseigustu ljóðahátíð landsins, 17. júní hátíðahöld, ýmis hreyfingarátök, umsjón Kvennahlaupsins í tæpa tvo áratugi o.fl.

Svo hefur nóg verið um að vera í ljóðadeildinni. Ljóðahátíðin Haustglæður, sem Umf Glói og Ljóðasetur Íslands, halda nú 18 árið í röð í Fjallabyggð er á lokametrunum en hún er samansett af 10 - 12 viðburðum á haustmánuðum ár hvert. Að þessu sinni hefur hátíðin verið að færa út kvíarnar og ég hef verið með viðburði bæði á Dalvík og Akureyri í tengslum við hana auk þess sem nokkrir viðburðir hafa verið hér í Fjallabyggð. Sérkenni hátíðarinnar er hversu virkan þátt börn og ungmenni taka í henni og úrslit í hinni árlegu ljóðasamkeppni nemenda í 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar voru m.a. kynnt fyrir fullu húsi nemenda í Ljóðasetrinu í síðustu viku og ljóðalestur hefur farið fram fyrir nemendur í yngri bekkjum skólans. Eldri borgarar gleymast ekki heldur og hefur ljóðalestur og söngur verið fyrir þá bæði á Dalvík og Ólafsfirði. 

 

 

  

Flettingar í dag: 69
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 351
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 89997
Samtals gestir: 23599
Tölur uppfærðar: 21.12.2024 15:40:11