Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Íþróttaannálar 1991-´95

emoticon Árið 1991 var Þórarinn áfram búsettur á Núpi með fjölskyldu sinni.  Kenna yfir vetrartímann, íþróttir og almenn kennsla jöfnum höndum, yfir sumarið að vinna við sumarbúðir og sinna málefnum Héraðssambands Vestur Ísfirðinga þar sem hann var framkvæmdastjóri.  Engin markviss þjálfun sem oft áður en var með á æfingum hjá nemendum Héraðsskólans, sem hann þjálfaði í körfubolta, og tók virkan þátt í íþróttatímum í skólastarfinu.  Spilaðir voru tveir hörkuleikir við lið Þingeyringa í knattspyrnu, að vori og hausti og eins áttust liðin við í körfubolta.

Um sumarið fór Þórarinn nokkrar ferðir á Bíldudal til að leika knattspyrnu með félögum sínum í ÍFB og þar enduðu Bílddælingar á toppnum eins og árið áður.  Skoraði Þórarinn 15 af 31 marki liðsins og þar af þrjú mörk eða fleiri í 4 leikjanna.  Þetta sumar tók lið héraðsins, Héraðssambandið Hrafnaflóki, þátt í Vestfjarðamóti í knattspyrnu sem varð nú reyndar hálf endasleppt.  En liðið lék 3 leiki, tvö jafntefli og einn sigur, og fékk svo einn leik gefinn.  Þórarinn skoraði 5 af 10 mörkum liðsins í þessum þremur leikjum en ekki náðist að klára mótið.

Eina frjálsíþróttamót Þórarins á árinu var hið árlega Héraðsmót HHF og þar sigraði hann í "sínum" greinum, spjóti, kringlu og hástökki og varð 2. í kúluvarpi sem og í boðhlaupi með sveit ÍFB.

Bestu árangrar í frjálsum þetta árið hjá Þórarni voru:

Langstökk 5.41m, hástökk inni 1.90m úti 1.85m, kringlukast 33.20m, kúluvarp 10.46m, spjótkast 55.10m, 400m 1:01.00mín.


 

 

emoticon Enn er Þórarinn búsettur á Núpi í ársbyrjun 1992 og tekur virkan þátt í íþróttalífinu með nemendum sínum, kennir þeim íþróttir og fleira á daginn, þjálfar þau í körfubolta á kvöldin og keppir með þeim við einstaka tilfelli.  Tekur sjálfur góða skorpu í þjálfun og lyftir í fyrsta sinn reglulega í eina þrjá mánuði fram á vorið og skokkar með.

Um miðjan maí flytur Þórarinn tímabundið heim í heiðardalinn er hann tekur að sér þjálfun á Bíldudal.  Var þetta sumar mjög gott hjá Bílddælingum og Þórarni á íþróttasviðinu.  Héraðsmótið í frjálsum vannst í annað sinn í röð og Þórarinn vann sínar greinar, hástökk, spjót og kringlu auk þess að hlaupa til sigurs með boðhlaupssveit ÍFB, varð í öðru sæti í langstökki og kúluvarpi og þriðja sæti í 1500m.  Setti hann héraðsmet í hástökki í níunda sinn er hann vippaði sér yfir 1.93m og vann besta afrek mótsins.

Í knattspyrnunni gekk ekki síður vel og meistaraflokkur ÍFB vann héraðsmótið í þriðja sinn í röð og því bikarinn til eignar við mikinn fögnuð heimamanna.  Þórarinn skoraði 17 af 34 mörkum liðsins, þar af 7 í einum leiknum sem vannst 11-0 hvorki meira né minna. 

Þetta sumar náði golfbakterían einnig alvarlegum tökum á Þórarni, en þessi skemmtilega íþrótt var mikið að riðja sér til rúms á Bíldudal á þessum árum.  Tók hann þátt í 5 golfmótum þetta sumarið og hlaut tvenn gullverðlaun, eitt silfur og tvö brons.   

Um haustið verða miklar breytingar á högum Þórarins þegar vinnustaður hans Hérðasskólinn að Núpi er lagður niður og hann gerist íþróttakennari á Patreksfirði auk þess að taka að sér að sjá um líkamsræktina þar.  Körfuknattleikur hefur í gegnum árin verið mikið stundaður á Patreksfirði og gekk Þórarinn til liðs við lið heimamanna, Íþróttafélagið Hörð, sem lék í 2. deildinni.  Var töluverður uppgangur í íþróttinni á Patró þessi árin og var fenginn þjálfari að sunnan sem lék einnig með liðinu.  Var m.a. leikið gegn Ísfirðingum og Ólafsvík þetta haustið og vannst sigur í hverjum leik.  Þórarinn lék í stöðu leikstjórnanda og var með stigahæstu mönnum liðsins í flestum leikjum.

Milli jóla- og nýárs var haldið innanhúsknattspyrnumót HHF og þar bar lið ÍFB enn sigur úr býtum og hampaði bikarnum í mótslok.  Einnig var haldið mót í körfuknattleik og þar varð lið ÍFB í 2. sæti.

Bestu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru eftirfarandi:  langstökk 6.20m, hástökk 1.90m inni 1.93m úti, kringlukast 34.30m, kúluvarp 11.08m, spjótkast 55.68m, 400m 59.20sek og 1500m 5:04.2mín.
 

 

emoticon Árið 1993 hefst vestur á Patreksfirði þar sem Þórarinn kennir íþróttir þennan veturinn og æfir körfuknattleik með Íþróttafélaginu Herði.  Körfuknattleiksiðkunin gengur vel og liðið kemst í úrslitakeppni 2. deildar sem fram fer í höfuðborginni.  Skömmu fyrir keppnina verður Þórarinn fyrir því óláni að snúa sig illilega á ökkla og nær ekki að beita sér sem skildi þrátt fyrir að fá sprautur í ökklann á fyrri leikdegi.  Liðið nær sér ekki alveg nógu vel á strik í upphafi en sýnir mjög góðan leik seinni daginn, sigrar andstæðinga sína með miklum yfirburðum en endar í 5. sæti deildarinnar.

Um vorið flytur Þórarinn á Bíldudal þar sem hann hefur aftur tekið að sér að þjálfa.  Keppir hann á nokkrum golfmótum fyrri part sumars og landar m.a. tvennum gullverðlaunum.

Á knattspyrnusviðinu gekk ekki eins vel og síðustu ár hjá ÍFB og hafnaði meistaraflokkur í öðru sæti þetta árið í Héraðsmótinu sem aðeins þrjú lið tóku nú þátt í.  Óvenju lítið var skorað í leikjum sumarsins, skoraði lið ÍFB aðeins 10 mörk og þar af átti Þórarinn helminginn.

Öllu líflegra var yfir frjálsíþróttunum og þar vann lið ÍFB glæstan sigur á Héraðsmótinu þriðja árið í röð og vann því báða stigabikara mótsins til eignar.  Þórarinn hafði í nógu að snúast að venju því auk þess að segja iðkendum sínum til keppti hann í sjö greinum.  Varð hann í 1. sæti í hástökki og spjóti, 2. sæti í kúlu og 3. sæti í langstökki og kringlu.  Setti hann enn eitt héraðsmetið í hástökki er hann fór yfir 1.94m og vann besta afrek mótsins.
Þórarinn tók einnig þátt í Kastmóti HHF þar sem hann sigraði í spjóti og varð annar í kúlu og kringlu.
Hrafnaflóki (HHF) sendi öflugt lið til þátttöku í Bikarkeppni Frjálsíþróttasambandsins 3. deild sem fram fór á Lýsuhóli á Snæfellsnesi.  Þar keppti Þórarinn í 4 greinum, sigraði í hástökki, varð annar í spjótkasti og fjórði í kringlu.  Einnig hljóp hann í sveit HHF í 1000m boðhlaupi og náði hún 2. sæti.  Hafnaði lið HHF í 2. sæti í stigakeppninni og vann sér sæti í 2. deild að ári.

Um haustið var tekin sú afdrifaríka ákvörðun að flytja til Siglufjarðar og gerast þar íþróttakennari við Grunnskóla Siglufjarðar.  Líkaði Þórarni strax afskaplega vel á Siglufirði og varð fljótlega mjög virkur í bæði félags- og bæjarlífinu.  Gekk hann til liðs við Knattspyrnufélag Siglufjarðar fljótlega eftir komuna norður auk þess sem hann mætti á handboltaæfingar og æfingar í blaki í öldungaflokki, sem hann var einmitt að verða gjaldgengur í.  Keppti hann með liði KS í innanhúsmóti á Laugum í Þingeyjarsýslu og hélt uppteknum hætti við að skora mörk.  Einnig tók hann að sér þjálfun í knattspyrnu yngri flokka.

Bestu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru:  langstökk 5.96m, hástökk inni 1.85m úti 1.94m, kringlukast 35.11m, kúluvarp 11.06m og spjótkast 54.30m.

 

 

emoticon Árið 1994

Þórarinn er sestur að á Siglufirði og orðinn vel virkur í íþróttalífinu þar en árið byrjar vestur á Bíldudal þar sem hann dvaldi um jól og áramót og sigrar þar Jólamót HHF í innanhúsknattspyrnu með félögum sínum í ÍFB í byrjun árs. Viku síðar keppir hann með KS í 2. deild Íslandsmótsins í innanhússknattspyrnu og heldur liðið sæti sínu í deildinni. Þórarinn var markahæstur hjá báðum liðum.

Þórarinn æfir knattspyrnu með KS af kappi fyrri hluta árs og reyndar alveg fram á haust. Æft er þrisvar til fjórum sinnum í viku, þrek við ýmiskonar aðstæður utandyra fram á vor en spil og tækni inni í íþróttasal. Að vori/sumri er góð tilfinning að komast aftur á grasið en einnig var eitthvað æft á malarvellinum. Lék 2 af 3 æfingaleikjum liðsins að vori, í ýmsum stöðum á vellinum og 2 leiki í Bikarkeppni KSÍ meðal annars svakalegan leik gegn ÍBV á mölinni á Sigló þar sem ÍBV jafnaði á síðustu mínútum leiksins og sigraði svo í framlengingu. Tók einnig þátt í Feykismótinu með liðinu og spilaði nokkra leiki með 1. flokk KS. Lítið um markaskorun hjá okkar manni að þessu sinni enda mest spilað á miðju og í vörn! Sem var nú alveg nýtt á þeim bænum!

En aðalmálið í knattspyrnunni var þátttaka í 4. deild Íslandsmótsins og ætlaði liðið sér beint upp í þá þriðju. Mótið byrjaði vel hjá liðinu 5 – 0 sigur gegn Þrym á mölinni en ekki eins vel hjá Þórarni því hann nefbrotnaði illilega í skallaeinvígi. Þurfti hann að fara af velli og gat ekki spilað næsta leik. Var svo inn og út úr liðinu það sem eftir lifði sumars, eitthvað á bekknum, stundum í byrjunarliði og spilaði mest á miðjunni. Seinni part sumars missti hann svo af nokkrum leikjum vegna þátttöku í frjálsíþróttamótum. Liðið komst alla leið í 4. liða úrslit en beið þar lægri hlut fyrir Leikni og svo fyrir Magna í leik um 3. sætið og endaði því í 4. sæti. Voru það mikil vonbrigði. Þórarinn skoraði 5 mörk í þeim 12 leikjum þar sem hann kom við sögu.

Kappinn stundaði einnig handbolta fram á vorið undir merkjum KS. Hittust þá ýmsir kappar einu sinni í viku í íþróttahúsinu og spiluðu þessa skemmtilegu íþrótt. Að hausti var þráðurinn tekinn upp aftur. 

Þórarinn gafst upp á blakiðkun snemma árs vegna óláta á æfingum.  Lítil gleði sem fylgdi þessu ástandi og hann hafði annað og þarfara við tíma sinn að gera.

Þórarinn brá sér nokkrum sinnum á golfvöllin á Siglufirði þetta sumar en ekkert var keppt, enda nóg að gera á öðrum vígstöðvum.

Í frjálsum gekk Þórarinn til liðs við Skagfirðinga, UMSS. Hann mætti þó ekki á margar formlegar æfingar en fór með liðinu í æfingaferð til borgarinnar á vordögum og tók þátt í þó nokkrum mótum, þar sem hann var gjarnan í verðlaunasætum. Hans helstu greinar voru sem fyrr hástökk og spjótkast og varð hann m.a. í 2. sæti í hástökki á Vormóti HSK og FRÍ 2000 móti í Rvk og Héraðsmóti UMSS á Króknum og í 2. -  3. sæti í spjótkasti á sömu mótum.

Hann keppti einnig á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni og varð þar 5. í spjóti og 6. í hástökki sem og á Meistaramóti Íslands þar sem hann varð í 4. og 5. sæti í sömu greinum. Þar keppti hann einnig í boðhlaupi fyrir UMSS og rétti sjálfum Jóni Arnari Magnússyni keflið eftir þriðja sprett (en reyndist svolítið erfitt að ná honum!).

Í apríl þetta ár varð svo örlagaríkur viðburður þegar Umf Glói var stofnað. Þórarinn var einn af forvígismönnum félagsins og var það hans hugmynd að það yrði ungmennafélag. Mikil körfuboltaalda reið yfir heiminn og landið á þessum árum (Michael Jordan áhrifin) og ungir drengir á Siglufirði vildu æfa þessa skemmtilegu íþrótt. Tveir ungir menn af suðurnesjunum voru byrjaðir með æfingar og Þórarinn bættist fljótlega í hópinn. Hann hafði einnig áhuga á að koma af stað frjálsíþróttaæfingum og auka fjölbreytnina í íþróttalífinu á Siglufirði sem var nokkuð einsleitt. Fleira fólk var á sömu skoðun. Þau 340 börn sem voru á grunnskólaaldri gátu aðeins æft fótbolta á sumrin og skíði og badminton á veturna. Úrvalið var heldur meira hjá þeim fullorðnu því þar var líka í boði blak og handbolti hjá körlum. Þar var þó aðeins komið saman og spilað.

Þessi áform hlutu góðan hljómgrunn hjá börnunum og ýmsum bæjarbúum en helst var það að knattspyrnuforkólfar litu þetta nýja félag hornauga og kannski fékk knattspyrnuleikmaðurinn Þórarinn aðeins að finna fyrir því! En félagið var stofnað þann 17. apríl 1994 og voru þar tvær deildir; körfubolta – og frjálsíþróttadeild. Þórarinn var varaformaður félagsins og formaður frjálsíþróttadeildarinnar.

Æfingar í frjálsum fóru þó ekki strax af stað en körfuboltaæfingar voru mjög fjölmennar, um 100 börn æfðu þessa íþrótt strax fyrsta veturinn og svo var ákveðið að setja saman lið í meistaraflokki karla og skrá lið til leiks í 2. deild Íslandsmótsins. Áður voru þó spilaðir nokkrir æfingaleikir og voru það fyrstu opinberu körfuboltaleikirnir á Siglufirði. Æft var tvisvar sinnum í viku og var æfingahópurinn um 12 manns. Á Íslandsmótinu var spilaður sérstakur Norðurlandsriðill, enda nokkur lið á svæðinu t.d. á Dalvík, Ólafsfirði, Þelamörk, Sauðárkróki og Húnavatssýslunum. Aðeins tóku þó 3 lið þátt og var leikin þreföld umferð. Liðið tapaði fyrsta leik en næstu tveir unnust. Þórarinn skoraði yfirleitt flest stig liðsins, um þriðjung þeirra eða svo, í hverjum leik.

Þórarinn tók góða skorpu í ræktinni síðustu tvo mánuði ársins og keppti einnig með KS í Laugamóti í innanhússknattspyrnu. Liðið endaði í 2. sæti eftir framlengingu og bráðabana í úrslitaleik. Skemmtilegt mót og Þórarinn skoraði 13/49 mörkum liðsins.

Fjölbreytt og flott íþróttaár – Fótbolti, handbolti, frjálsar, golf og körfubolti.

Bestu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru: þrístökk úti 11.74m, hástökk úti 1.85m, kringlukast 34,64m, kúluvarp 10,72m og spjótkast 53,86m.

 

emoticon Árið 1995

Árið áður var sannarlega viðburðarríkt á nýjum slóðum á Siglufirði og Þórarinn kominn á fullt í allra handa íþróttastarfsemi og iðkun auk þess að kenna íþróttir við Grunnskóla Siglufjarðar. Fjörið hélt áfram á árinu 1995 en um mitt ár dró til tíðinda.

Keppni hélt áfram í 2. deildinni í körfubolta, frumraun hjá hinu unga félagi Umf Glóa. Þórarinn var þjálfari og leikmaður, æft var tvisvar sinnum í viku. Spilaðir voru 3 leikir til viðbótar í Norðurlandsriðlinum og unnust tveir þeirra. Það dugði til þess að hið nýja félag, Umf Glói, stóð uppi sem sigurvegari og fór í úrslitakeppnina sem fór fram í Sandgerði og Garðinum. Þar gekk ekki alveg eins vel og liðið endaði í 8. sæti. Þórarinn var stigahæstur í flestum leikjum og skoraði 237 stig af þeim 634 sem liðið skoraði alls í keppni vetrarins.

Þórarinn hélt einnig áfram af fullum krafti í fótboltanum og æfði með KS 3 – 4 sinnum í viku fyrri hluta árs, allt fram í júní. Æft var við mjög sérstakar aðstæður utandyra því þessi vetur var sérlega snjóþungur á Siglufirði en einnig var æft inni í íþróttahúsi. Farið var í eftirminnilega æfingaferð til Skotlands um páskana og þar spilaðir 3 leikir við hálf-atvinnumannalið. Liðin voru Rob Roy, Petershill og Hamilton. Sá fyrsti endaði með jafntefli en hinir tveir töpuðust. Þetta voru allt hörkuleikir og gaman að kynnast menningunni í kringum boltann í Skotlandi. Öll lið með klúbbhús, þó þetta væru nú ekki stórlið, stjórnarmenn mættu í jakkafötum, veitingar í háfleik o.fl. Baðaðstaðan var svo alveg sérkapítuli!

Spilaðir voru nokkrir æfingaleikir að vori og KS tók þátt í Feykismótinu þar sem félagið bar sigur úr býtum. Þórarinn lék 5 af þessum leikjum, yfirleitt á miðju eða kanti. Byrjaði stundum á bekknum og lék þá yfirleitt bara síðari hálfleik. Liðið tók svo aftur þátt í 4. deild Íslandsmótsins en þar spilaði okkar maður aðeins fyrsta leik, og skoraði þar 1 mark, en svo fjárfesti hann í myndbandaleigunni Videovali og hellti sér af krafti í sjoppurekstur og þá varð eitthvað að víkja. Hann ákvað að það yrði fótboltinn!

Að vori tók Þórarinn við sem formaður hjá Umf Glóa og hefur gegnt því embætti síðan auk þjálfunar og ýmissa annarra starfa fyrir félagið.

Þrátt fyrir sjoppukaupin gaf Þórarinn sér tíma til að kíkja nokkrum sinnum í golf á Siglufirði um sumarið og tók þátt í þremur golfmótum þar. Sigraði hann í tveimur þeirra en varð í 4. sæti á Siglufjarðarmóti.

Hann hélt einnig áfram að keppa með UMSS í frjálsum íþróttum en ekki gafst tími til mikilla ferðalaga vegna sjoppurekstursins. Hann keppti á Héraðsmóti UMSS á Sauðárkróki og kom heim með eitt gull og tvö silfur og svo á Norðurlandsmóti á Dalvík þar sem hann varð Norðurlandsmeistari í spjótkasti og fékk silfur í hástökki.

Að hausti hófst körfuboltinn aftur. Umf Glói skráði sig að nýju til leiks í 2. deildina og nú var Norðurlandsriðillinn settur upp sem þrjú fjölliðamót í stað þess að leika heima og heiman. Fyrsta umferðin fór fram á Laugabakka þar unnust 2 leikir og 2 töpuðust. Þórarinn var sem fyrr stigahæstur og skoraði 104 stig af 281stigi liðsins í þessum fjórum leikjum. Sem fyrr var æft 2 sinnum í viku og Þórarinn þjálfaði.

Handbolti var svo spilaður 1 sinni í viku frá október og út árið.

Bestu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru:  langstökk úti 5.60m, hástökk úti 1.85m, kringlukast 34,84m, og spjótkast 54.16m.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 23
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 39
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 71282
Samtals gestir: 19176
Tölur uppfærðar: 21.9.2024 02:37:17