Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Tónlistarferilinn

Í tilefni af 30 ára tónlistarafmæli Þórarins haustið 2008 þótti tilhlýðilegt að taka saman það sem af er ferli hans á tónlistarsviðinu í stórum dráttum og fylgir yfirlitið hér á eftir.

Tónlistarferillinn hófst haustið 1978
þegar hljómsveitin Brestur var stofnuð vestur á Bíldudal af þeim bekkjarbræðrum Þórarni, Gísla Ragnari Bjarnasyni og Helga Hjálmtýssyni, þeir voru þá að hefja nám í 8. bekk (9. bekkur í dag) sem var síðasti bekkurinn sem kenndur var við Barnaskóla Bíldudals.  Hljómsveitin lék í fyrsta sinn opinberlega í desember á skólaballi á Bíldudal og kom alls fram 8 sinnum, í síðasta sinn á 17. júní 1979.  Þórarinn lék á trommur og söng, Helgi plokkaði bassann og Gísli lék á gítar og söng einnig.

Haustið 1979 lá leið Þórarins í Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði og dvaldi þar við nám næstu þrjá vetur.  Fyrstu tvo veturna kom hann ekki mikið nálægt tónlist en söng þó hluta úr vetri með blönduðum kór og einnig í 6 manna drengjakór en næsta hljómsveit sem Þórarinn starfaði með var stofnuð haustið 1981 á síðasta vetri Þórarins í Reykholti.  Upphaflega nafn hennar var Camelia 2000 (eftir dömubindunum) og lék Þórarinn á trommur og söng nokkuð en þegar annar gítarleikarinn, sem hafði einnig séð um sönginn að miklu leyti, hætti í skólanum um áramót var fenginn nýr trommari og Þórarinn einbeitti sér að söngnum.  Fékk hljómsveitin nú nafnið JÓGÓHÓ og HETOÞÓ eftir upphafsstöfum hljómsveitarmeðlima en mánuði síðar var nafninu breytt aftur og nú í Tíbía sem varð endanlegt nafn hennar.  Hljómsveitin kom alls fram 8 sinnum á skóladansleikjum og víðar.  Þennan vetur söng Þórarinn einnig aðalhutverkið, hlutverk Þórs, í rokkóperunni Goðgá (eða Sá á ekki að fara á kamar sem á hamar) sem sýnd var á árshátíð skólans og á svokölluðu Sameiginlegu balli með nemendum Reykholts og Bifrastar.

Varð nú hlé til desember 1986 þegar Leikfélagið Baldur á Bíldudal blés til dansleiks milli jóla og nýárs.  Þar komu fram 2 nýjar hljómsveitir, sem æfðu í einn dag eða svo, sem báðar reyndust vísar að langlífari hljómsveitum.  Hét önnur Bíldudals Búggarnir og hin Dalli Daladriver og hryggsúlurnar, söng Þórarinn með þeim báðum. Léku þær aðeins þetta eina kvöld í upphaflegri mynd.

Sumarið eftir hófu drengirnir í Dalla Daladriver formlegar æfingar með nýjan trommuleikara innanborðs.  Var hljóðfæraskipan þessi Bjarni Þór Sigurðsson gítar og söngur, Hjalti Jónsson trommur, Matthías Ágústsson bassi, Viðar Ástvaldsson hljómborð og Þórarinn söng.  Lék hljómsveitin á sínum fyrsta dansleik í lok ágúst 1987 og bar þá nafnið Harðlífi.

Bíldudals Búggarnir komu einnig saman á ný í dálítð breyttri mynd haustið 1987 og hlaut hljómsveitin nú nafnið Vesturfararnir, þar sem flestir meðlimir bjuggu fyrir sunnan en fóru vestur til að spila.  Þarna komu saman aftur félagarnir úr Bresti, Þórarinn, Gísli og Helgi og feðgarnir Viðar Ástvaldsson og Ástvaldur Hall Jónsson.  Kom hljómsveit þessi fram 4 sinnum á Bíldudal árin 1987 og 1988 en mannabreytingar urðu nokkrar.

Hljómsveitin Harðlífi kom aftur saman í jólafríinu vestur á Bíldudal 1987 og enn var breytt um nafn.  Var nú ákveðið að hljómsveitin fengi nafnið Græni bíllinn hans Garðars og hefur það nafn haldist við hana alla tíð síðan, fyrir utan nokkra dansleiki eftir að trommuleikarinn flutti suður þá kallaðist hún Mínus einn um tíma.  Lék hljómsveitin á Áramótagleði á Bíldudal þessi áramót og kom hún síðan fram víða á Vestfjörðum tæplega 50 sinnum á næstu árum, eða til ársins 1994 þegar hlé varð á störfum hennar.

Aldrei lognmolla hjá drengjunum í Græna bílnum

Árið 1989 kom Þórarinn í fyrsta sinn fram einn með gítar og flutti frumsamin lög.  Það var á Vísnakvöldi vestur á Bíldudal, en slík kvöld hafa verið haldin þar milli jóla og nýárs allt frá árinu 1987. 

Í maí árið 1991 hélt Þórarinn sína fyrstu tónleika einn með gítar þar sem frumsamin lög og textar voru uppistaðan í dagskránni.  Þetta var í Héraðsskólanum að Núpi, þar sem hann var kennari um þessar mundir, og urðu nemendur hans fyrir barðinu á þessari frumraun.

Hljómsveitin Darlingarnir kom fram á Áramótagleði á Bíldudal áramótin 1991-´92 en hana skipuðu meðlimir úr Græna bílnum og Vesturförunum.

Í apríl 1993 kom Þórarinn í fyrsta sinn fram sem "Knæpusöngvari" einn með gítarinn en það var á Matborg á Patreksfirði, var hann þá með um 50 lög á prógrammi sínu og fékk fínustu viðtökur þrátt fyrir takmarkaða kunnáttu á gítarinn.  Gerði hann mikið af því að koma fram á öldurhúsum næstu tvö árin eða svo, á Vestfjörðum og síðar Siglufirði þegar hann flutti þangað.  En eftir um 50 skipti í þessu auk þess að starfa með Græna bílnum og koma fram við ýmis önnur tækifæri fékk hann nóg og tók sér að mestu hvíld frá því að koma fram árin 1997 - 2000.

Árið 2000 varð svo tímamótaár á tónlistarferlinum hjá Þórarni því þá ákvað hann að fara að huga nánar að laga- og textasmíðum sínum og helst að koma þeim á fast form.  Fóru málin svo að haustið 2000 hóf hann upptökur á sínum fyrsta geisladisk í Tónskóla Siglufjarðar og fékk til liðs við sig jákvætt og gott siglfirskt tónlistarfólk.  Elías Þorvaldsson stjórnaði upptökum og sá um undirleik ásamt tvíburunum Kristni og Kristjáni Kristjánssonum og Björn Thoroddsen lék gítar inn á þrjú laganna.  Þórarinn lék á gítar og söng og Jónbjörg Þórhallsdóttir söng bakraddir.  Nokkur bið varð þó á að diskurinn kæmi út því það varð ekki fyrr en haustið eftir en viðtökur voru með ágætum og dómar mjög góðir.  Var útgáfunni fylgt eftir með tónleikahaldi vestan- sunnan- og norðanlands og blaðaviðtölum.  Fékk diskurinn hið frumlega nafn Má ég kitla þig?

Árið 2000 hófst einnig samstarf Þórarins við bassaleikarann Kristinn Kristjánsson og komu þeir fram saman um 30 sinnum næstu tvö árin, oftast á Siglufirði en einnig á Selfossi og víðar.  Gekk dúettinn undir ýmsum nöfnum t.d. Tóti og Kiddi, TK dúettinn, Öl og elta (sem var mjög lýsandi nafngift, félagarnir fengu sér öl, Þórarinn opnaði möppuna sína og Kiddi elti á bassanum) o.fl.  Stundum slóst Kristján bróðir Kidda í hópinn og barði húðir.  Kristinn hefur einnig komið fram með Þórarni við ýmis tækifæri síðan.

sildaraevintyrid_a_siglufirdi_2008_v_mg_2173.jpg

Þórarinn og Kristinn ásamt Guito Thomas á tónleikum 2008

Á þessum árum urðu einnig til ýmsar hljómsveitir, tríó eða hópar eða hvað skal helst kalla það, sem komu saman eitt og eitt ball og léku án mikilla eða nokkurra æfinga. Spilamennskan fór þá þannig fram að Þórarinn mætti með möppurnar sínar, spilaði á gítarinn og söng og aðrir spiluðu með, enda lög sem flestum voru kunn.  Þeir sem oftast tóku þátt í slíkum uppákomum voru títtnefndur Kiddi, Þorsteinn Sveinsson slagverksleikari og söngvari og bróðir hans Rúnar bassaleikari, Ómar Hlynsson trúbador, Agnar Sveinsson trommuleikari og Eva Karlotta Einarsdóttir trúbador.

Árið 2001 tók Þórarinn þátt í söngskemmtun á Allanum sem bar nafnið Með allt á hreinu þar sem lög úr þessari geysivinsælu bíómynd þeirra Stuðmanna  voru flutt af hljómsveit og nokkrum söngvurum.  Heppnaðist þessi dagskrá mjög vel og næstu árin voru settar saman nokkrar svona þemasýningar og var Þórarinn ávallt þátttakandi í þeim má þar t.d. nefna Grease skemmtun og Golden Oldies en frá árinu 2004 hafa þessar skemmtanir heitið Frá Óperu til Idol.

Árið 2002 komu þrjú lög af disk Þórarins, Má ég kitla þig?, á safndisk tónlistarmanna frá Bíldudal og Patreksfirði.  Kallast sá diskur Vesturljós og seldist mjög vel.

Árið 2003 var tekin stór ákvörðun.  Græni bíllinn hafði verið vakinn af dvala árið 2001 þegar hann var beðinn um að leika á árshátíð Leikfélagsins Baldurs á Bíldudal og einnig tók Þórarinn saman sögu hljómsveitarinnar og gaf út þetta ár.  Endurtóku félagarnir svo leikinn árið eftir.  En árið 2003 kom svo sú stóra ákvörðun að drífa sig í hljóðver og taka upp disk.  Þetta var gert í tilefni af bæjarhátíðinni Bíldudals grænar ... fyrir vestan, sem haldin var í fyrsta sinn þetta ár.  Var haldið í Keflavíkina til Rúnna Júl og tekin upp 6 lög á tveimur dögum, þar af voru tvö eftir Þórarinn.  Var heilmikið líf í þeim bílverjum í kringum þetta ævintýri og baunahátíðin geysivel heppnuð.  Hafa þeir  komið saman á síðari Baunahátíðunum þ.e. 2005, 2007 og 2009 við góðar undirtektir.

Bílverjar syngja inn bakraddir á Bíldudalur bærinn minn í hljóðveri Geimsteins

Í desember 2003 hófst samstarf Þórarins við nokkra unga siglfirska drengi sem voru í tónlistarvali Tónskóla Siglufjarðar.  Fékk hann þá til liðs við sig fyrir tónleika sem hann hélt í Æskulýðsheimili staðarins og lukkaðist samstarfið það vel að þeir léku saman alls 12 sinnum í síðasta sinn í Torginu í miðbæ Siglufjarðar á 17. júní 2004.  Önnur tilefni voru t.d. við útnefningu íþróttamanns ársins, á skemmtuninni Frá Óperu til Idol, við setningu Unglingameistaramóts Íslands á skíðum í Siglufjarðarkirkju, á 1. maí o.fl.

Í kjölfar útgáfu á eigin lögum og textum jókst tónleikahald Þórarins og hefur hann einbeitt sér æ meir að því að flytja eigið efni þegar hér er komið sögu.  M.a. farið í tónleikaferðir á Vestfirðina og víðar.

Í nóvember 2004 voru lögð fyrstu drög að nýjum geisladiski og í þetta sinn ákvað Þórarinn að taka hann upp hjá Magnúsi G. Ólafssyni í Mogomusic í Ólafsfirði.  Valdi Þórarinn 12 lög úr safni sínu og Magnús sá að mestu um útsetningar og spilamennsku.  Upptökum lauk um mánaðamótin febrúar/mars og diskurinn var klár í sölu í lok mars.  Tók nú við mikil kynningarstarfsemi og spilamennska um víðan völl m.a. á Siglufirði, Reykjavík og Vestfjörðum. Gripurinn fékk nafnið Stolnar stundir, dómar voru með ágætum og sala ágæt, þ.e. það hafðist fyrir kostnaði. 

Um svipða leyti tók Þórarinn þátt í undankeppni fyrir hátíðarlag Bíldudals grænna 2005.  Sendi hann lagið Hér vil ég vera inn til þátttöku og hafnaði það í 3. sæti. Það kom út á plötu, ásamt öðrum lögum sem send voru inn í keppnina, nokkrum dögum fyrir hátíðina.

Þórarinn og Matti flytja lög Þórarins á Grænu baununum

Í september 2005 flutti 6 manna hópur úr kennaraliðinu á Siglufirði nokkur íslensk þjóðlög á kennaraþingi KSNV sem fram fór á Siglufirði þetta árið.  Þessi hópur varð svo að kvæðamannafélaginu Fjallahnjúkum sem átti eftir að koma oft fram næstu árin við ýmis tækifæri.  Þegar þetta er skrifað, í október 2008, hefur hópurinn sungið opinberlega 16 sinnum m.a. erlendis, í útvarpi og í skemmtiferðaskipi.

Um páskana 2006 hóf Þórarinn samstarf við Daníel Pétur Daníelsson söngvara og gítarleikara og hafa þeir komið saman fram reglulega síðan.  Þeir einbeita sér að erlendum lögum frá bítla- og hippaárunum auk þess sem Daníel hefur aðstoðað Þórarinn við að flytja eigin lög.

Tóti og Danni á Síldarævintýri 2008

Í október 2006 var skorað á Þórarinn að semja lög við námsefni um dyggðirnar og gat hann að sjálfsögðu ekki skorast undan því og í apríl voru tilbúin lög við allar 15 dyggðirnar sem fjallað var um.  Komu lögin flest að mestu að sjálfu sér.  Voru nokkur þessara laga mikið sungin meðal nemenda í skólanum á Siglufirði þennan veturinn og Þórarinn lék þau við ýmis tækifæri og þá oftar en ekki með barnahóp sér til aðstoðar.  Þórarinn óskaði síðan eftir leyfi frá útgefendum námsefnisins til að taka lögin upp á geislaplötu og fékk það og komst þá að því að Herdís Egilsdóttir var höfundur textanna.  Platan var tekin upp hjá Magga í Ólafsfirði og 4 siglfirsk börn tóku þátt í að syngja þau inn með Þórarni.  Fékk hún nafnið Dyggðirnar og var seld til styrktar samtökunum Regnbogabörnum, seldist hún í rúmlega 1.000 eintökum.

Patrekur, sonur Þórarins, Karen Ósk og Rebekka Rut syngja inn á Dyggðirnar

Í október 2006 fékk Þórarinn beiðni frá Leikfélagi Siglufjarðar, viku fyrir frumsýningu, að leika undir í nokkrum lögum í sýningunni Láttu ekki deigan síga Guðmundur.  Ekki var sagt nei við þessari bón, frekar en öðrum, en málin þróuðust á þá leið að Þórarinn var inn á sviðinu hálft leikritið, lék nokkrar persónur og spilaði undir og söng í 6 lögum.  Hafði hann afskaplega gaman af þessu en æfingar voru nokkuð strangar, sú fyrsta sem hann tók þátt í var fimm dögum fyrir frumsýningu.  Leikritið var sýnt við góðar viðtökur og aðsókn, alls 6 sinnum.

Auk þess sem hér hefur verið sagt frá hefur Þórarinn komið oftsinnis fram t.d. á Síldarævintýrinu á Siglufirði, á 17. júní, á Jónsmessuhátíð Síldarminjasafnsins, á ljóðahátíðum og ljóðakvöldum hjá Umf. Glóa, á Grænu bauna hátíð á Bíldudal, á kennaraþingum, við kirkjulegar athafnir, á söngskemmtunum ýmiskonar og svona mætti áfram telja.

Sungið á Jónsmessuhátíð í borð um Tý í Bátahúsinu 

Núna, í október 2008, 30 árum frá upphafinu hefur hann komið fram 554 sinnum til að flytja tónlist í 32 byggðarlögum og á 122 stöðum þ.e. skemmtistöðum, félagsheimilum, sölum, kirkjum, skólum o.fl.  Hefur hann tekið þátt í að flytja alls 728 lög og samið 137 stykki. 

Og áfram verður haldið meðan kallinn hefur gaman af þessu.  Sjáumst í næsta stríði!!    

 

 

 

 

 

 

     

 

   

Flettingar í dag: 1
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 47365
Samtals gestir: 12773
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 00:08:20