Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

19.01.2025 18:03

Blússað af bjartsýni inn í nýtt ár

Árið er 2025 og ég kominn á sjötugsaldur! Það er bara þannig! Efst í huga er þó þakklæti fyrir að ná þó a.m.k. þessum áfanga, það eru ekki allir svo lánsamir og hugur minn er hjá þeim vinum mínum og kunningjum sem nú berjast við óværur sem herja á líkama þeirra. Hugur minn er hjá ykkur, kæru vinir.

En ég fer bjarstýnn ínn í nýtt ár með fögur fyrirheit og fullan poka af fyrirætlunum sem á að koma í verk á nýju ári. Tónlistarlífið er þegar komið af stað og allar líkur á blómlegasta tónlistarári í töluverðan tíma. Samstarf okkar Sturlaugs Kristjánssonar, Stúlla eða Stulla, gengur að óskum. Samanlagðir ferlar okkar í tónlist rúmlega ein öld og eftir tveggja ára formlegt samstarf er lagalistinn hjá okkur kominn í um 250 lög! Búnir að koma tvisvar sinnum fram á þessu ári og framundan eru nokkur þorrablót og í framhaldi af því eru bókanir vel inn í sumarið. Á dagskránni eru einnig bæjarhátíðarnar Bíldudals grænar ... og Síldarævintýrið á heimavöllum mínum og þar verður án efa stigið á stokk oftar en einu sinni eða tvisvar. 

Ég ætla að gefa út a.m.k. tvö rit á árinu, rit sem hafa verið í undirbúningi síðustu ár, og áfram er haldið að vinna að fleiri verkum á ritvellinum auk þess að rita fréttir á ýmsar heima- og facebooksíður og í héraðsfréttablaðið Helluna, líkt og síðustu þrjá áratugi.

Svo eru það Ljóðasetrið sem ég stýri, Ungmennafélagið Glói, þar sem ég stýri og þjálfa og ýmis önnur verkefni sem tínast til. Ekki má svo gleyma aðalstarfinu í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þeim frábæra vinnustað, þar sem ég mun kenna áfram og starfa við ýmis verkefni.

Við hlið mér stendur eiginkonan og börn og barnabörn vaxa og dafna, sækja sér menntun og upplifa ævintýri. Ég hlakka til góðra stunda með þeim á árinu.

Já, hér verður ekkert slakað á, kæru vinir. Njótum þess sem lífið gefur okkur, gefum af okkur, þökkum fyrir að vera til og lifum lífinu lifandi, til þess er það. 

 

 

Flettingar í dag: 45
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 386
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 97394
Samtals gestir: 24565
Tölur uppfærðar: 22.1.2025 06:40:18