17.07.2025 07:53
Helstu tíðindi - Viku fyrir viku
Maður leggur alltaf af stað með góðum hug að blogga um þau viðfangsefni sem maður er að fást við hverju sinni og segja frá einhverju skemmtilegu. Svo er tíminn bara svo fljótur að líða og hleypur frá manni trekk í trekk og allt í einu eru liðnar vikur eða mánuðir án þess að hér séu sett inn einhver tíðindi. En nú á að taka þetta föstum tökum og segja frá hverri viku fyrir sig og birta mynd eða myndir með. Við hefjum leik frá síðasta bloggi, sem var víst um miðjan apríl!
Vikan 13. - 19. apríl hófst á Akureyri þar sem við gistum eina nótt á hóteli. Höfum verið dugleg við þetta undanfarin tvö ár eða svo þar sem börnin þrjú sem við Stína eigum saman eru nú öll búsett þar. Hittum þessar elskur allar sem og listafólkið Loga bróður og Billu konu hans sem voru þar í sýningarferð. Fengum okkur mat og drykk með listafólkinu.
Við Stína störfum bæði við Menntaskólann á Tröllaskaga, þann frábæra skóla, og nú var komið páskafrí þar. Þá var tími til að sinna aðeins Ljóðasetrinu, sem ég stofnaði og stýri hér á Siglufirði, áður en brunað var í Borgarfjörðinn þar sem við dvöldum í tvær nætur í frábærum félagsskap góðra vina. Blíðuveður, mikil útivera, góður matur og rólegheit.
Að venju var unnið að ýmiskonar skrásetningu í vikunni, bækur skráðar á Ljóðasetrinu og skrifaðar 8 fréttir á fésbókarsíður verkefna sem ég tengist.
Mynd: Vinahópurinn í blíðunni við Langá.
![]() |