18.07.2025 12:56
Eitt og annað gert um páska
Vikan 20. - 26. apríl var í rólegri kantinum. Páskadagur þann 20. og að sjálfsögðu lambasteik á boðstólum fyrir stórfjölskylduna. Þessir páskar sérkennilegir að því leyti að ekkert var skíðað þar sem frúin fór í krossbandaaðgerð árinu áður og átti enn að taka það rólega en svo var líka lítið um snjó. Veðrið gott og tíminn m.a. nýttur til að fara í vorverkin í garðinum og stunda ýmiskonar aðra útivist sem og til samskipta við familíuna.
Líf var á Ljóðasetrinu um páska að venju. Eyfirski safnadagurinn fastur liður á sumardaginn fyrsta þar sem þó nokkrir gestir litu inn sem og í páskaopnuninni. Svo var unnið að skýrslugerð fyrir Umf Glóa sem ég átti þátt í að stofna árið 1994 og hef verið formaður og þjálfari þar síðustu 30 ár. Æfing var hjá Karlakór Fjallabyggðar sem ég hef sungið með síðustu tvö ár og við Stulli, Sturlaugur Kristjánsson, tókum okkar vikulegu æfingu. Við komum fram sem tvíeykið Stulli og Tóti og það hefur verið nóg að gera hjá okkur síðan við hófum formlegt samstarf 2023.
Svo var verið að skrá og skrifa. Ritaði 8 fréttir, þar af 4 í héraðsfréttablaðið Helluna sem kemur út einu sinni í mánuði hér í Fjallabyggð en ég hef skrifað fréttir í það í rúm 30 ár. Fyrst eingöngu íþróttafréttir en síðar ýmiskonar tíðindi af mannlífi, menningu og íþróttum.
![]() |