21.07.2025 18:48
Annar í sextugsafmæli!
Vikan 27. apríl - 3 maí var bara nokkuð frábær. Hún hófst með Vortónleikum okkar í Karlakór Fjallabyggðar og fóru þeir fram í Siglufjarðarkirkju. Skemmtilegt prógram, bæði án undirleiks og með hljómsveit, og var mæting tónleikagesta ljómandi góð. Við vorum bara nokkuð grobbnir með okkur karlarnir. Svo tók við kennsla í MTR næstu daga og einhver fréttaskrif og útivist.
Að kvöldi þess 1. maí lékum við Stulli svo á skemmtilegum þjóðbúningadansleik í Miðgarði í Skagafirði og að honum loknum pikkuðu Stína mín og Amalía yngsta dóttirin mig upp og við brunuðum í borgina því mikið stóð til. Þann 21. desember sl. var ég svo lánsamur að ná 60 ára aldri og var því fagnað með opnu húsi á heimili okkar Stínu á Siglufirði. Þar mættu margir og fögnuðu með okkur. En þar sem tímasetning fæðingardagsins er ekki alveg sú heppilegasta til ferðalaga, svona þremur dögum fyrir jól, þá var ákveðið að hafa fagnað síðar fyrir mitt nánasta fólk á suður- og vesturhelmingi landsins.
Sú gleði var föstudaginn 2. maí sl. og hýsti Hrefna dóttir mín, Orri, hennar ektamaður, og börnin þeirra þrjú gleðskapinn sem fram fór í Garðabænum. Til leiks mættu einnig systkini mín þrjú og þeirra fylgdarlið, Pála elsta dóttir mín með sitt fólk (nema Fíu sem var að dimmitera) og svo kom að sjálfsögðu stórkaupmaðurinn og ættarhöfðinginn faðir minn að vestan.
Úr varð veisla af bestu gerð, ljúfar veitingar, frábær félagsskapur, söngur og gleði. Til að kóróna gleðina mætti Björn Thoroddsen, stórfrændi, með gítarinn og flutti Bítlasyrpu fyrir “afmælisbarnið” og TOB tríóið (Tóti, Orri og Bjössi), sem var myndað á staðnum, tróð upp og flutti þrjú lög. Amalía, dóttir okkar, söng svo Yesterday af innlifun og Logi bróðir stal senunni, eins og venjulega, í flutningi sínum á All of me, við undirleik Orra, eftir orð sem hittu í hjartastað frá systkinum mínum.
Yndislegt kvöld með mínu fólki sunnan- og vestanlands og Stína mín sá um að allt gengi vel fyrir sig og að allir færu saddir og sáttir úr húsi.
![]() |
||
|