14.08.2025 18:31
Endurmenntun, söngur og nýr Íslendingur
Vikan 25. - 31. maí var alveg ljómandi. Hún hófst með rólegum sunnudegi sem fólst aðallega í afslöppun og snatti í kringum Ljóðasetrið. Á mánudeginum héldum við starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga í endurmenntunarferð og leituðum ekki langt yfir skammt að þessu sinni. Á mánudeginum heimsóttum við Framhaldsskólann á Húsavík, fengum kynningu á starfsemi skólans og funduðum með kollegum. Síðan var gist á Narfastöðum í góðu yfirlæti og á þriðjudeginum var Framhaldsskólinn á Laugum heimsóttur þar sem okkur var vel tekið og fundað með starfsfólki. Sáum eitt og annað nýtt og gagnlegt sem nýtist okkur næsta vetur.
Á föstudeginum var óskað eftir okkur Stulla að spila og syngja við opnun sýningarinnar Fegurð fjarða í nýrri menningarmiðstöð í Ólafsfirði sem heitir Brimsalir þar sem samstarfskona mín Ida og hennar fjölskylda heldur úti öflugri starfsemi. Á laugardeginum vorum við Stína mín boðin í sérlega ánægjulega veislu þar sem vinur okkar Jaouad, kokkur á hinum vinsæla veitingastað á Hótel Siglunesi, fagnaði því að hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt eftir 9 ára veru á Siglufirði.
Hreyfði mig eitthvað svolítið þessa vikuna líkt og aðrar, fór m.a. og kastaði spjóti og kringlu, og svo voru skrifaðar nokkrar fréttir að venju og unnið að ýmissi annarri skrásetningu.
![]() |