21.08.2025 21:13
Ljóðasetur, Landsmót og útskriftir
Önnur vikan í júní var sérlega fjölbreytt og skemmtileg. Hún hófst með fermingarveislu vestur á Barðaströnd og endaði á útskriftum á Akureyri, inn á milli var svo eitt og annað gert.
Já, fermingarveisla Frosta Þórs, dóttursonar míns, fór fram í Birkimel á Barðaströnd á sunnudeginum og var gaman að vera með þessum efnilega dreng á þeim degi. Að veislu lokinni var brunað norður á Sigló. Á þriðjudeginum brunuðu Stína mín og Amalía dóttir okkar suður í borgina í læknastúss meðan ég tók á móti leikskólabörnum á Ljóðasetrinu með ljóðalestri, söng og spileríi og seinna um daginn sat ég undirbúningsfund vegna Landsmóts 50+ sem fór fram hjá okkur í Fjallabyggð nokkrum dögum síðar.
Næstu dagar fóru að mestu í undirbúning fyrir Landsmótið; græja frjálsíþróttavöll, því slíkur er ekki til staðar hjá okkur, skipuleggja tímaseðla, setja upp ritarablöð og fleira slíkt. Og svo vinnu á Ljóðasetrinu við að koma betra skykki á allan aukabókakostinn sem við eigum orðið þar, byrja að skafa og mála setrið að utan og taka lóðina í gegn. Einnig sótti ég fund ferðaþjónustuaðila í Fjallabyggð og svo kom einkasonurinn í óvænta heimsókn frá Akureyri og þá var nú hent vænni steik á grillið.
Laugardagurinn var svo stór dagur hjá familíunni. Tvær dætur okkar útskrifuðust frá Háskóla Akureyrar; Elín Helga úr grunnnámi í kennslufræðum og Hrefna sem hjúkrunarfræðingur. Hrefna gat þó ekki verið viðstödd þar sem hún var nýflutt til Minneapolis með eiginmanni og börnum. Yndislegur dagur engu að síður og tvær kjarnakonur fengu nýja nafnbót.
Mynd: Elín Helga, tilvonandi kennari, og stoltir foreldrar.
![]() |