13.09.2025 19:10
Hjólaævintýri, Ljóðasetur og lax
Vikan 13. - 19. júlí var að mestu helguð rekstri og umsjón Ljóðaseturs Íslands, sem ég stofnaði árið 2011 og hef rekið síðan. Komið var að málningarvinnu utanhúss eina ferðina enn á þessu um 100 ára gamla steinhúsi. Fóru allnokkrir klukkutímar í að skafa og mála og svo var setrið einnig opið fyrir gesti og gangandi sem vildu forvitnast um þennan merka arf okkar ljóðlistina. Setrið vel sótt og ég tók upp gítarinn og flutti gestum eigin lög við ljóð ýmissa skálda tvisvar sinnum þessa daga.
Um miðja vikuna skelltum við Stína okkur í skemmtilegt ævintýri; hjóluðum inn í Fljót og gistum á sveitahótelinu Sóta. Vorum um 2,5 klst. á leiðinni, ekki á rafmagnshjólum og margar brekkur á leiðinni sem tóku vel í lærin. Þegar komið var í Fljótin var látið líða úr sér í heita pottinum og sundlauginni á Sólgörðum og svo var ljúffeng þriggja rétta máltið áður en lagst var til svefns og svo hjólað heim á leið um hádegi næsta dag. Ljómandi skemmtilegt ævintýri.
Á fimmtudegi brunaði Stína mín svo í Laxárdal í Þingeyjarsýslu þar sem hún var næstu vikuna að vinna í veiðihúsi og hafði bara gaman af meðan ég sinnti ljóðlistinni.
![]() |