14.09.2025 15:55
Ævintýravika, söngur og fjör
Vikan 20. - 26. júlí var Ævintýravika í orðsins fyllstu merkingu því þá var ég með seinni Ævintýraviku Umf Glóa á Siglufirði þetta sumarið. Eins og komið hefur fram í fyrri færslum var ég í hópi stofnenda félagsins árið 1994 og hef þjálfað hjá því síðan og formennsku hef ég gegnt síðan 1995, eða í 30 ár. Ævintýravikan var vel sótt af hressum ungmennum og ýmislegt skemmtilegt brallað að veju eins og t.d. að fara í fjöruna, skógræktina og á söfn. Einnig var farið í leiki, þrautir og fjallgöngu. Allt til að efla ungviðið, auka víðsýni og kynni af nærsamfélaginu.
Laugardagurinn var svo helgaður tónlistinni. Við Stulli sungum og spiluðum á frábærum Trilludegi á Siglufirði, lékum þá lög sem allir þekkja og geta sungið með í rúmar 4 klukkustundir á smábátabryggjunni á Sigló meðan gestir sigldu út á fjörðinn og sóttu fisk á grillið sem Kiwanismenn sáu um. Mikill mannfjöldi og veðrið lék við okkur að mestu.
Að lokinni gleðinni á bryggjunni var pakkað niður og haldið upp í Skagafjörð þar sem við lékum og sungum áfram í 4 klukkustundir til viðbótar á eldhressri árshátíð sem fór fram í hátíðartjaldi og tóku Skagfirðingarnir hressilega undir í söngnum. Það var gott að leggjast á koddann þegar heim var komið.
![]() |
![]() |