Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

15.10.2025 16:44

Kennsla hefst og nýtt félagsheimili

Vikan 17. - 23. ágúst leið hratt og eitt og annað gert. Kennsla hófst í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þar sem við hjónin störfum bæði. Þessa önn kenni ég tvo áfanga á starfsbraut, sé um fréttaskrif á heimasíðu skólans, er sérlegur menningarfulltrúi hans og sé um verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli, sem sagt í ýmis horn að líta. Stína mín starfar svo sem þroskaþjálfi á starfsbraut. Alltaf gott þegar lífið dettur í rútínu þó frjálsræðið sé auðvitað dásamlegt líka. 

Dyttaði að Ljóðasetrinu einn seinni part, var duglegur í bílskúrsræktinni okkar og tók líka eina spjótkastsæfingu, skrifaði 8 fréttir á ýmsa miðla, renndum inn á Akureyri með bílinn í viðgerð og til að hitta börnin okkar þar og versla. Skiptum einnig um tvær rúður hjá okkur í Hafnargötunni, Patrekur smiður, sonur okkar kom og veitti hjálparhönd og helgin endaði svo með því að við Stulli spiluðum á fjörugum dansleik fyrir hressan hóp húsbílaeigenda og var hann í Ljósvetningabúð í Þingeyjarsýslunni, fyrsta skipti sem ég kem fram í því félagsheimili. Alltaf gaman að koma fram á nýjum stöðum.

 
 

 

Flettingar í dag: 288
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 185727
Samtals gestir: 33925
Tölur uppfærðar: 15.10.2025 23:29:47