26.10.2025 15:03
Skóli, rækt og spjót
Vikan 24. - 30. ágúst var frekar tíðindalítil, svei mér þá. Kennsla og skipulag hennar í aðalhlutverki, svona í upphafi skólaárs. Flottir nemendur og gott starf í Menntaskólanum á Tröllaskaga, starfsandi afbragðs góður og verkefnin mín í starfi fjölbreytt. Einmitt eins og ég vil hafa þau. Önnur verkefni vikunnar voru fyrsti fundur nýrrar stjórnar UÍF, Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar, þar sem ég á nú aftur sæti eftir nokkurra ára hlé, að skrifa fréttir á ýmsa miðla sem fyrr og að rækta kroppinn í ræktinni í bílskúrnum.
Svo tók ég mig til og mætti á frjálsíþróttamót á Akureyri og rifjaði upp gamla takta, Landsmót 50+ sem við héldum hér í Fjallabyggð síðasta sumar kveikti neistann til að taka upp þráðinn á því sviði. Ég keppti í kringlu og spjóti og keppt var með hefðbundinni þyngd áhalda, þ.e. 2kg kringlu og 800gr spjóti. Ég náði 6. besta árangri Íslendings frá upphafi í mínum aldursflokki í kringlunni og langbesta árangrinum í spjótinu. Gaman að því!
Á mótinu hitti ég fyrir systursyni mína, þá Nóa og Frosta, sem einnig unnu til verðlauna á mótinu.
![]() |

