22.11.2025 18:55
Tónlist og meiri tónlist
Vikan 21. - 27. september var lituð af tónlist, eins og flestar vikur í lífi mínu síðustu áratugina svo sem, sem sagt engar nýjar fréttir. Vikan hófst þó á rólegum sunnudegi þar sem verið var að undirbúa næstu kennsluviku og dudda við eitt og annað eins og að skrifa fréttir og vinna að skrásetningu, huga að heimilinu og svona þessu hefðbundna. Svo tók skólalífið við á mánudegi og á þriðjudegi vorum við með dagskrá í Menntaskólanum á Tröllaskaga í tilefni af Alþjóðadegi friðar. Þar steig Hamingjubandið á stokk og ég sem fyrr sá sem stýrði lagavali, sem var í takti við þema dagsins, og sá um söng, kynningar og gítarspil með flott fólk með mér úr röðum kennara og nemenda.
Á föstudeginum sátum við, kennarar í MTR, haustþing og ýmsa fræðslu á Sauðárkróki og að henni lokinni renndum við Stína til Reykjavíkur því fyrir höndum var dansleikur hjá mér og Stulla í Danshöllinni í Mjóddinni. Þar var mikið fjör og dansað frá fyrsta tóni. Alltaf gaman að syngja fyrir fólk sem vill dansa. Svo var rennt heim á Sigló á sunnudeginum.
Á myndinni má sjá Hamingjubandið troða upp í MTR.
![]() |

