Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

24.11.2025 10:29

Ljóð, tónlist og rækt

Þá er það vikan 28. sept - 4. okt og líkt og fleiri vikur hófst hún á rúnti heim til Sigló á leið frá spilamennsku. Sunnudagurinn fór sem sagt að mestu í ferðalag að sunnan eftir ball í borginni en það var sumarfæri og allt í besta. Svo tók við hefðbundin kennsluvika í MTR, svona eins og hægt er að tala um "hefðbundar" vikur í kennslu yfir höfuð, og svo var tónlistin og ljóðlistin ekki langt undan.

Heimsótti dvalarheimilið Dalbæ á Dalvík með gítarinn í hönd og flutti þar bæði eigin ljóð og lög fyrir heimilisfólk og gesti. Ljúf og góð stund sem var vel sótt. Var þessi heimsókn fyrsti liðurinn í ljóðahátíðinni Haustglæður sem ég setti á fót og hef stýrt hér á Tröllaskaganum hvert haust síðan árið 2007. Það er tvö félög sem ég er í forsvari fyrir sem standa að hátíðinni þ.e. Umf Glói og Félag um Ljóðasetur Íslands. Hafa rúmlega 5500 manns notið þeirra viðburða sem þar hafa verið á dagskrá sl. 18 ár og fjölmargt listafólk hefur komið fram á þeim. 

Á laugardagskvöldinu var svo komið að næsta dansleik; stóðréttaball á Rimum í Svarfaðardal og var mikið líf og fjör á dansgólfinu. Við Stulli í góðum gír á sviðinu og lékum lög af ýmsu tagi. Lagalistinn hjá okkur telur tæplega 300 lög svo það er hægt að aðlaga lagasafnið að ýmsum hópum og það er nú galdurinn; að spila lög sem fólk þekkir og getur sungið og dansað með.

 Mynd frá góðri stund á Dalbæ.

 
 

   

Flettingar í dag: 218
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 98
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 198776
Samtals gestir: 34388
Tölur uppfærðar: 24.11.2025 17:21:07