Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

21.01.2026 17:48

Nýja árið byrjar af krafti

Ætla að halda því að skrifa hér um viðfangsefni hverrar viku fyrir sig í því sem ég er að taka mér fyrir hendur og því sem gengur á í kringum mig. Verður vonandi skemmtileg heimild þegar frá líður og mögulega hafa einhverjir gaman af að fylgjast með því sem maður er að sýsla í einu og öðru.

Ýmis heit sett fyrir nýtt ár á sviðum tónlistar, ritlistar, ljóðlistar, heilsu og íþrótta en síðast en ekki síst með fjölskylduna í huga og að reyna að inna verk af hendi sem gagnast mínum nánustu sem samfélaginu. 

Árið byrjaði af krafti og fyrstu tíu dagana voru tvær framkomur í tónlistinni. Óskað var eftir Karlakór Fjallabyggðar til að syngja í jarðarför eins stofenda kórsins og að sjálfsögðu var brugðist vel við því og sungið í fallegri athöfn. Við Stulli stýrðum svo fjöldasöng við þrettándabrennu Kiwanismanna á Siglufirði með 10. bekkinga í jólasveinabúningum og álfakónginn og drottninguna okkur til halds og trausts. Flott brenna og góð mæting bæjarbúa í blíðviðri. Framundan er svo góð törn á þorrablótavertíðinni hjá okkur Stulla.

Svo var maður náttúrulega upptekinn við að undirbúa kennslu fyrir næstu önn í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þessum magnaða vinnustað sem ég tilheyri. Alltaf eitthvað nýtt og spennandi í gangi þar og áhugaverð verkefni að takast á við. Auk kennslunnar stýri ég þar menningarmálum, rita fréttir á heimasíðu skólans og er í heilsu- og forvarnarteymi svo eitthvað sé nefnt. Frábær skóli og frábært samstarfsfólk. 

Félagsmálin fengu einnig sinn skerf: Sat fyrsta fund stjórnar Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar á nýju ári í vikunni og hugaði að Ljóðasetrinu auk þess sem ritaðar voru fréttir af íþrótta- og féalgsmálum á ýmsa miðla.

Mynd: Ég og Stína mín

 
Flettingar í dag: 177
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 217937
Samtals gestir: 35274
Tölur uppfærðar: 21.1.2026 22:21:48