Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Grunnurinn lagður


Þórarinn hafði snemma mikla hreyfiþörf þrátt fyrir að vera dagfarsprúður og rólegur drengur. Hann var svo lánsamur að alast upp í frjálsræðinu á Bíldudal og undi hann sér með börnunum þar við ýmsa leiki daginn út og daginn inn, reyndist það góður grunnur fyrir íþróttaiðkun og keppni síðar meir. Sumrin voru að sjálfsögðu draumatíminn þegar börnin vildu helst ekki koma inn þótt mæður þeirra létu vita að matur væri framreiddur þ.e.a.s. þegar börnin voru í kallfæri sem var nú ekki alltaf. Og í þá daga voru sumarfrí barnanna lengri en nú er því skólinn hófst ekki fyrr en í lok september og honum var lokið snemma í maí.

Vinsælustu leikirnir voru Yfir þar sem reyndi á snerpu, útsjónarsemi, þol og hittni, Fallin spýta þar sem reyndi á snerpu og spretthörku og Brennó þar sem einnig reyndi á snerpu, þol og hittni. Þessir leikir voru gjarnan stundaðir við hlið æskuheimilis Þórarins, Sólheima, en þar stóð grænn veiðafæraskúr sem Mangi grásleppukarl með meiru átti. Þakið hafði sérlega góðan halla til að leika Yfir. Ofan við þennan skúr var svo gulur háreistur skúr sem tilheyrði Jónsbúðinni og í kringum hann voru góðir felustaðir í Fallin spýtan auk þess sem vinsælt var að fela sig við Jónsbúðarlækinn sem rann við hlið þessara skúra. Brennó var yfirleitt leikið á skólalóðinni, þar var kosið í tvö lið sem völdu sér höfðingja og síðan fólst leikurinn í því að skjóta meðlimi hins liðsins úr leik.

Aðrir leikir sem nutu mikilla vinsælda voru leikirnir Einn á steypu og Strika píla. Ekki er skrásetjara kunnugt um hvort þeir hafi þekkst annars staðar a.m.k. ekki sá fyrrnefndi. Hann fór fram á Tungunni á minnismerkinu um drukknaða sjómenn, en það er stór steyptur pallur með keðjum í kringum og á miðjum pallinum stendur minnisvarði sem skipsmastur mikið er fest við. Leikurinn fólst í því að einn var hann og mátti hann ná öðrum ef þeir voru á steypunni en þeir gátu bjargað sér með því að stökkva af pallinum eða reyna að halda jafnvægi og róla á keðjunum án þess að snerta steypuna. Þarna reyndi á ýmsa líkamlega færni eins og kraft, snerpu, jafnvægi, þol og einnig á útsjónarsemina.

Leikurinn Strika píla fór þannig fram að barnahópnum var skipt í tvennt. Annað liðið grúfði á meðan hitt liðið faldi sig, einhvers staðar í bænum, en áður en haldið var af stað teiknaði liðið leiðina að felustaðnum með priki á jörðina og síðan átti hitt liðið að reyna að fylgja leiðarvísinum og finna hópinn. Barst þessi leikur oft út um víðan völl og reyndi mikið á þol þar sem annað liðið reyndi að forða sér á hlaupum en hitt elti. Man Þórarinn eftir æsilegum stundum ofan í skurðum, brunnum, uppi í hlíðum, í yfirgefnum byggingum og víðar þar sem hann lá í felum meðan andstæðingarnir leituðu allt í kring. Þessi leikur var vinsæll allt fram á táningsár.

Auk þessara skipulögðu leikja var útivera ýmiskonar almenn hjá börnum á Bíldudal, eins og víða annars staðar á Íslandi á þessum tíma. Engar tölvur, sjónvörp, myndabandstæki eða annað slíkt til að hangi inni við. Helst að menn litu í bók, kubbuðu, léku hefðbundna innileiki eða hlustuðu á vinilplötur þegar ekki viðraði nógu vel.

Þórarinn dvaldi löngum stundum í fjallshlíðinni ofan við Bíldudal við kastalabyggingar með sínum vinahóp. Risu þar margir kastalar, misjafnlega burðugir, með ýmsum herbergjum og útskotum. Þarna voru eldaðar máltíðir þegar best lét, grillaðar pulsur yfir eldi eða á bárujárnsplötum, poppað auk fleiri matreiðslutilrauna. Einnig var mjög vinsælt að byggja stíflur í efri hluta Jónsbúðarlæksins svonefnda. Þarna reyndi á krafta og úthald auk skipulagsvinnu ýmiskonar.

Fjaran heillaði marga og þar með talinn okkar mann. Hann var sannkallaður fjörulalli og brallaði margt þar, veiddi marflær í krukkur í stórum stíl, sigldi heimatilbúnum bátum, fleytti kerlingar, spreytti sig í að kasta langt, leitaði að fallegum steinum, kuðungum og skeljum ásamt ýmsu fleiru. Einnig var vinsælt að bregða á leik í bátunum í fjöruborðinu. Eða að smíða fleka og sigla um í fjöruborðinu. Man Þórarinn sérstaklega eftir einni slíkri ferð þegar hann og Helgi Hjálmtýsson komust yfir topp af fólksbíl og sigldu á honum út fyrir varnargarð á ígulkerjaveiðar. Veiðarfærið var 20 lítra olíutunna en aflabrögð voru ekkert sérstök. Þarna reyndi t.d. á jafnvægi, samhæfingu og kastkraft.

Kofar voru reistir með tilheyrandi fyrirhöfn sem vakti einnig gleði og ánægju. Safna timbri hér og þar, naglhreinsa, moka fyrir stoðum, saga, negla, mæla og hugsa. Allt svo skemmtilegt og bráð þroskandi fyrir líkama og sál.

Hjólreiðar voru einnig partur af hinu daglega lífi á Bíldudal yfir sumarið og voru hjólin ekki aðeins notuð til að skjótast á milli húsa heldur var farið í lengri hjólreiðatúra. T.d. man Þórarinn eftir hjólreiðatúrum inn í Otradal, fram að rafstöðinni í Hnjúksdal, í berjamó allt inn í Dufansdal, í skógræktina við Taglið, inn að Fossi og allt inn í Reykjafjörð í sund, sem er um 20 km leið. Að sjálfsögðu var hjólið svo þarfasti þjóninn þegar ferðunum fjölgaði fram á Hóli á knattspyrnuvöllinn. Á þessum dögum voru gírahjólin ekki komin til sögunnar og vegirnir voru eins og þeir voru, holóttir og ósléttir malarvegir. Hjólreiðarnar reyndu að sjálfsögðu mikið á lungu og hjarta auk þess að auka vöðvaþol og kraft einkum í fótleggjum.

Snemma var Þórarinn einnig byrjaður að sparka bolta ásamt félögum sínum og voru ýmsir blettir notaðir til þess arna. Garðurinn hjá Viðari og Ómari var t.d. ansi vinsæll þ.s. þar voru mjög heppilegir snúrustaruar, Jónstúnið var einnig mikið notað þrátt fyrir töluverðan halla. Bletturinn fyrir ofan Matvælaiðjuna var notaður sem knattspyrnuvöllur á tímabili og þar klambrað upp mörkum úr hjallaspírum, annað þeirra endaði nú í höfðinu á markmanni eitt sinn. Síðar fjölgaði ferðunum fram að Hóli þar sem íþróttaaðstaða byggðist smám saman upp.

Aðrar íþróttagreinar voru ekki stundaðar að neinu marki í ungdæmi Þórarins á sumrin. Þó var leikið badminton þegar vindur leyfði og stöku sinnum var farið í sund inn í Reykjafjörð. Fyrstu árin var notast við gamla pollinn en sundlaug var steypt þar 1975 þegar Þórarinn var á ellefta ári. Það var nú svo sem ekki mikið synt í Reykjafirðinum þar sem vatnið kom beint úr hver og því of heitt til sundiðkunar að einhverju viti.

Á veturna var margt hægt að gera fyrir börn með mikla hreyfiþörf og ímyndunarafl. Snjórinn var notaður á ýmsa vegu. Sem byggingarefni í hús og virki, í snjókallagerð, í snjókast og fleira álíka. Svo renndu menn sér að sjálfsögðu á snjóþotum, sleðum og skíðum en engar voru skíðalyfturnar svo mikið þurfti að þramma og þjappa svo ferðirnar sem náðust á klukkutímann voru ekki ýkja margar. Vinsælasti staðurinn til skíðaiðkunar var úr gilinu fyrir ofan húsið hans Högna, Merkjagili, og renndu menn sér þá alveg niður undir götu. Stundum var farið upp í Búðargil. Einnig var oft skíðað á Tungunni og í Maríubrekkunni. Oft voru útbúnir litlir stökkpallar þar sem drengir og stúlkur reyndu færni sína. Flesta vetur var boðið upp á skíðakennslu í um viku tíma og var skíðakennari fengin til þess. Þau námskeið fóru fram á ýmsum stöðum t.d. í vestanverðu Mekjagili, í Seljadal þar sem stóð gamall skíðaskáli og upp á Hálfdán. Þórarinn hafði mjög gaman af skíðaíþróttinni og stundaði hana töluvert á Atomic skíðunum sínum. Íþróttin hentaði, og hentar enn, vel til að stæla og styrkja unga kroppa.

Skautaiðkun var líka mikil meðal barna á Bíldudal og hana stundaði Þórarinn mikið á sínum uppvaxtarárum. Skautað var á götum bæjarins, á Kárseyrartjörninni, ofan við Matvælaiðjuna, á ánni við kirkjugarðinn og víðar. Meira að segja var skautað niður Maríubrekkuna, sem og niður lækjarsprænur í fjallshlíðum. Þarna reyndi mikið á styrk fóta, samhæfingu, jafnvægi og fleira.

Já, það var nóg við að vera fyrir börn á Bíldudal í þá daga og þar þótti Þórarni gott að alast upp. Næg tækifæri til að þjálfa upp ýmis íþróttatengd atriði þó svo að ekki væri um eiginlegar íþróttaæfingar að ræða. Leikurinn og ævintýramennskan voru aðalatriðin og það skilaði sér síðar í íþróttirnar.

Eiginlegar íþróttaæfingar voru ekki á dagskrá á Bíldudal á þessum árum en fyrsti vísirinn að þeim var sumarið 1976 þegar Hannes Friðriksson, faðir Þórarins, og Örn Gíslason tóku að sér að leiðbeina ungum og áhugasömum drengjum og stúlku í knattspyrnu. Árangurinn lét ekki á sér standa, liðið varð héraðsmeistari eftir keppni við Patreksfirðinga og Tálknfirðinga. Það hefur svo líklega ekki verið fyrr en 1980 sem þjálfari starfaði hjá ÍFB og þjálfaði þá knattspyrnu og frjálsar íþróttir.

Leikfimikennsla var á svipaðan veg, ekki faglærðir menn en menn með mikinn áhuga sem skiluðu frábæru starfi miðað við aðstæður, en kennt var í félagsheimilinu Baldurshaga. Þórarinn hafði ætíð gaman af leikfimi hvað svo sem var á dagskránni þar, gömlu góðu staðæfingarnar, áhaldaleikfimi, körfubolti, blak eða knattspyrna.

Svona var grunnurinn lagður. Undirstaðan ekki mynduð með neinum fræðum heldur frekar af náttúrulegum aðstæðum og tíðaranda tímabilsins sem og innbyggðum metnaði Þórarins og hvatningu og stuðningi hans nánustu.

Þá lítum við nánar á hvert ár fyrir sig. Ástundun íþróttanna, árangur og þróun Þórarins sem íþróttamanns. Við hefjum leikinn á því herrans ári 1975 þegar Þórarinn vinnur til sinna fyrstu verðlauna í íþróttum.
Flettingar í dag: 17
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 54
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 47248
Samtals gestir: 12747
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 06:21:14