Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

17.04.2007 21:46

Upptökur, eyrnalokkar, Njála og glíma !

Já, maður kemur víða við í bloggi dagsins eins og sjá má á titlinum. 
Fyrst er frá því að segja að skólastarfið er komið vel af stað eftir páskafríið og mikið líf og fjör hjá okkur í skólanum.  Í dag fengu nemendur m.a. kynningu á þjóðaríþróttinni íslenskri glímu og höfðu gaman af.  Kennari var Oddbjörn nokkur Magnússon sem er nýfluttur í bæinn og er vel að sér í glímufræðunum og vonandi fáum við að njóta krafta hans áfram á þessum vettvangi.  Gaman er frá því að segja að hann er afskaplega ánægur með móttökur Siglfirðinga þessar fyrstu vikurnar hér í bæ, íbúarnir elskulegir og boðnir og búnir til aðstoðar ef eitthvað er, heilsa á götum bæjarins og mannlífið gott.  Þetta er einmitt sú tilfinning sem ég fékk fyrir Siglufirði þegar ég kom hingað fyrir nærri 14 árum og gott að vita að andinn hefur ekki breyst.

Yngsta dóttirin, hún Amalía þriggja ára, er komin með eyrnalokka og fannst það nú ekki mikið mál.  Labbaði sér inn í Siglósport með mömmu sinni og kveinkaði sér ekki einu sinni þegar skotið var í gegn fyrst öðrum megin og svo hinu megin, þetta er hörkutól.  Það fór ekki fyrir henni eins og pabbanum þegar hann fékk gat í eyrað og lá við yfirliði, mikill kappi !!  Reyndar voru aðfarirnar nokkuð aðrar; stoppunál vætt upp úr rakspíra og eyrað kælt með ísmola ef ég man rétt.  Þetta var á unglingsárunum í Reykholti, sællrar minningar.  Ég skellti reyndar lokk í eyrað til að vera í stíl við dótturina en henni leist ekkert á það svo hann stoppaði ekki lengi.

Lestri á Njálu er lokið og féllu þar margir góðir drengir á skrautlegan hátt.   Byrjaði á nýrri bók í gærkvöldi Líffærameistarinn heitir hún eftir argentískan höfund og vakti hún nokkrar deilur í heimalandinu vegna bersögulla lýsinga.  Ágætis bók, ætli ég klári hana ekki í kvöld.

Að lokum er frá því að segja að upptökumálin í tónlistinni eru öll að skýrast.  Græni bíllinn búinn að fá tilboð frá upptökuveri Sigurrósar í Mosfellsbænum uppúr miðjum maí og allar líkur á að við skellum okkur á það.  Textamálin vegna barnaplötunnar eru líka að komast á hreint svo nú fer allt að verða vitlaust að gera á þessum vettvangi !!

Bless að sinni, nær og fjær.
Flettingar í dag: 9
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 44
Gestir í gær: 9
Samtals flettingar: 97872
Samtals gestir: 24653
Tölur uppfærðar: 28.1.2025 04:17:42