Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Ritstörfin

Þórarinn hefur frá fyrstu tíð haft mikinn áhuga á hinu ritaða orði og var mikill bókaormur í barnæsku.   Á táningsárum hóf hann að fikta við ritstörf og hefur fengið útrás fyrir þá þörf að koma einhverju frá sér með ýmsum hætti allt frá 12 ára aldri.   Hér verður sagt frá því helsta sem Þórarinn hefur tekið sér fyrir hendur á þessum vettvangi.

 

Æskuárin á Bíldudal

 

Þórarinn gerði tilraunir með það að setja saman ljóð á æskuárum sínum, eins og svo mörg börn gera, og birtist eitt þeirra í skólablaði Barnaskóla Bíldudals þegar Þórarinn var í 6. bekk.   Þann vetur sat hann í ritnefnd fyrir sinn bekk og sá um að rita íþróttafréttir sem voru bæði af íþróttalífi staðarins sem og landsins.

 

Árið eftir gaf Þórarinn út blað ásamt félaga sínum Guðmundi Otra Sigurðssyni (Vestfjarðavíkingi) og hlaut blaðið það frumlega nafn Hraðhleypur.   Það var fjölritað á stensil í skólanum.  6 bls. A4 og efnið var stuttar sögur, gátur, brandarar og spurningar til bæjarbúa.   Einnig var framhaldssaga eftir Þórarin, en á henni varð reyndar ekki mikið framhald þar sem aðeins kom út eitt tölublað.

 

Árið eftir var aftur farið af stað og nú bættist Viðar Örn Ástvaldsson í hóp útgefenda.   Að þessu sinni hlaut blaðið nafnið Fjölskyldublaðið  Blaðið var 6 bls. A4. Efnið í svipuðum dúr og í Hraðhleyp.   Aðeins kom út eitt tölublað.   Þetta var árið 1977.


Fréttabréf og meiri kveðskapur

Svo varð nokkuð langt hlé á ritstörfum, eða um 10 ár, en sumrin 1987 og 1988 starfaði Þórarinn sem framkvæmdastjóri hjá Héraðssambandinu Hrafnaflóka og sá um ritun og útgáfu á fréttablaði sambandsins. Síðan réðst hann til Héraðssambands Vestur Ísfirðinga og sá þar einnig um útgáfu fréttablaðs og ritun ársskýrslna árin 1989-1992.

Árið 1988 byrjaði hann einnig að spreyta sig aftur á kveðskap og samdi nokkuð af vísum og einnig ljóðum þar sem hann rifjaði upp æskuárin á Bíldudal og seinna urðu hluti af hans fyrstu ljóðabók. Árið eftir samdi hann sinn fyrsta dægurlagatexta og frá árinu 1992 allt fram undir 2000 urðu dægurlagatextar hans eini kveðskapur en ljóða- og vísnagerð var sett til hliðar.


Blaðamennska á Siglufirði

Árið 1994 urðu tímamót á þessum ritunarferli Þórarins þegar hann réð sig sem blaðamann hjá héraðsfréttablaðinu Hellunni á Siglufirði. Hefur hann í gegnum árin skrifað jafnt almennar fréttir sem íþróttafréttir, tekið viðtöl o.fl. Gegnir Þórarinn þessum starfa ennþá en töluvert minna hefur þó farið fyrir skrifunum síðustu árin en þau fyrstu.  Fréttirnar sem hann hefur ritað í Helluna eru nú tæplega fimmtánhundruð og þekja tæplega 500 bls.
 

Fréttabréf, ársskýrslur og heimasíður hjá Glóa

Árið 1994 tók Þórarinn einnig þátt í því að stofna Ungmennafélagið Glóa á Siglufirði og hefur gegnt formennsku í þeim félagsskap frá árinu 1995 ásamt því að vera formaður frjálsíþróttadeildar og síðar körfuknattleiksdeildar meðan deildarskpting var enn hjá félaginu. Þessum starfa hafa fylgt nokkur skrif m.a. ritun ársskýrslna, útgáfa og ritun fréttabréfa, skrif á heimasíðu o.fl. Hefur Þórarinn haft þessi störf á hendi fyrir félagið í gegnum árin.


Enn meiri kveðskapur

Eftir nokkurt hlé frá kveðskapnum, þ.e. fyrir utan gerð dægurlagatexta við lög sín, hóf Þórarinn aftur að yrkja um aldamótin 2000 og nú af endurnýjuðum krafti.  Á næstu árum varð til nokkuð af ljóðum og vísum sem oftar en ekki voru samin fyrir einhver ákveðin tilefni. Síðar rataði eitthvað af þeim í ljóðabækur eins og sjá má hér að neðan.


Útgáfufélagið Birkihlíð

Árið 2001 stofnaði Þórarinn í félagi við Elfar Loga bróður sinn útgáfufélagið Birkihlíð, en það heitir eftir æskuheimili þeirra bræðra vestur á Bíldudal.  Hlutverk þess var að gefa út hugverk þeirra bræðra en reksturinn reyndist nokkuð erfiðari en búist var við.  Á vegum félagsins komu út þrjú rit, tvö þeirra ritaði Þórarinn og eitt þeirra rituðuð þeir bræður í sameiningu.

Hljómsveitin Brestur frá Bíldudal. 20 síðna rit í A5 broti um skólahljómsveitina Brest sem Þórarinn var í á árum áður.  Kom út árið 2000.
Hvað veist þú um kvikmyndir? Spurningabók um heim kvikmyndanna 68 síður í litlu broti.  Þeir bræður, Þórarinn og Logi, rituðu í sameiningu og var hún töluvert notuð bæði í útvarpi og sjónvarpi í ýmsum spurningaleikjum en bræðurnir fitnuðu ekki af sölunni.  Kom út 2001. 
Saga gleðisveitar. 24 síðna rit í A4 um hljómsveitina Græna bílinn hans Garðars frá Bíldudal sem Þórarinn tók saman. Ritið vakti nokkra athygli þó salan hafi verið dræm. M.a. var fjallað um ritið í grein í Morgunblaðinu og það notað sem heimild í ritgerð í Háskóla Íslands þar sem umfjöllunarefnið var hljómsveitarnöfn á Íslandi. Kom út 2001.


Eitt og annað

Tók heilsíðuviðtal fyrir DV við Keith Carradine, stórleikara frá Hollywood, þegar hann dvaldi á Siglufirði við leik í myndinni Fálkar. 

Afmælisblað Glóa. 24 síður í A4 broti kom út á 10 ára afmæli félagsins 2004.   Þórarinn ritstýrði og skrifaði efnið að mestu. Þótti mjög vel heppnað og vakti mikla athygli á starfsemi félagsins.

Ritaði nokkrar pólitískar greinar í Siglfirðing, málgagn Sjálfstæðismanna á Siglufirði, og síðar í Firðing, málgagn Sjálfstæðismanna í Fjallabyggð.

Ritaði nokkrar greinar á heimasíðu Arnfirðingafélagsins.

Hefur skrifað all margar greinar og fréttir sem birst hafa á siglfirskum vefmiðlum.Dægurlagatextar

Þórarinn samdi sína fyrstu dægulegatexta árið 1989 og í dag eru þeir tæplega 150 talsins. Flestir þeirra hafa verið til eigin nota en einnig hefur hann samið texta fyrir annað tónlistarfólk.  Ætli sé ekki rétt að segja að flestir þeirra fjalli um ástina og lífið í sínum fjölbreytilegu myndum.


Heimasíða

Í mars 2007 hóf Þórarinn að halda úti heimasíðu um viðfangsefni sín á hinum ýmsu sviðum lista, menningar og íþrótta.  Var hann duglegur að setja inn efni á síðuna, ritaði þar m.a. annála um þátttöku sína í íþróttum og tónlist, fréttir af ýmsum viðfangsefnum, hvaða bækur hann var að lesa og hefur lesið, þjálfaraferil sinn, ritstörf og ýmislegt fleira. Fréttir af síðunni birtust oft á siglfirskum vefmiðlum. Vegna vandræða með að setja inn efni og myndir við það, hætti Þórarinn að setja inn fréttir á síðuna um 2014 en hefur notað hana áfram til að halda utan um ýmsa tölfræði um viðfangsefni sín og halda skrá um þau.

Fyrsta ljóðabókin - Æskumyndir.

Árið 2006 gaf Þórarinn út sína fyrstu ljóðabók.  Ber hún nafnið Æskumyndir og segir þar frá uppvaxtarárum Þórarins á Bíldudal.  Fékk bókin fínustu dóma og ágætis dreifingu m.a. í skólum landsins þar sem hún var notuð við ljóðalestur og sem innlegg í samfélagsfræði.  Eins og fyrr segir urðu fyrstu ljóðin í þessa veru til árið 1988 en megnið af þeim var samið á árunum 2004-2006.

Gamansögur frá Siglufirði 

Árið 2008 hóf Þórarinn að skrásetja ýmsar gamansögur sem hann hafði heyrt, þá helst af fólki frá Siglufirði, og safna að sér fleiri slíkum sögum þar sem Siglufjörður eða Siglfirðingar komu við sögu.  Árið 2009 gaf hann út fyrsta hefti af 50 Gamansögum frá Siglufirði og fékk afurðin fínar viðtökur. 


Ljóðabók nr. 2 - Fleiri æskumyndir

Árið 2009 kom út önnur ljóðabók Þórarins og fékk hún nafnið Fleiri æskumyndir.  Eins og nafnið gefur til kynna var leitað á sömu mið og í fyrstu bókinni þ.e. atburðum frá æskuárunum gerð skil í knöppu formi.  Í þessari bók voru einnig lýsingar á nokkrum persónum staðarins.

50 Gamansögur frá Siglufirði 2

Árið 2010 gaf Þórarinn út 2. hefti af siglfirsku gamansögunum.  Líkt og í því fyrra voru í því bæði gamlar og nýjar sögur sem tengjast Siglfirðingum eða Siglufirði.  Hafði Þórarinn safnað þessum sögum saman og skráð þær.  Fékk hann aðstoð góðra manna við söfnunina enda biðlaði hann til fólks, á bakhlið fyrra heftisins, að hvísla að sér góðum sögum við tækifæri.

50 Gamansögur frá Siglufirði 3

Í nóvember 2011 sendi Þórarinn frá sér þriðja heftið í þessum flokki. Gamlar og nýjar sögur af Siglfirðingum sem fyrr, sem hann hafði safnað saman og skráð. Fékk aðstoð frá bæjarbúum sem voru ánægðir með framtakið og komu til hans sögum við ýmis tækifæri.

Ljóðabók nr. 3 - Nýr dagur

Í júlí 2012 kom út þriðja ljóðabók Þórarins og fékk hún nafnið Nýr dagur. Innihélt hún 52 ljóð, flest óhefðbundin, og var henni skipt í fjóra kafla: Þankabrot, Náttúran, Börnin og Ástin. Yrkisefnin voru af ýmsum toga en í grunninn má segja að ljóðin hafa fjallað um lífið og tilveruna í öllum sínum fjölbreytileika. Flest ljóðanna voru samin árin 2011-2012.  Bókaforlagið Ugla gaf bókina út og ágóði af henni rann til Ljóðaseturs Íslands.

50 Gamansögur frá Siglufirði 4

Enn er haldið áfram með þessa ritröð og í nóvember 2012 kom fjórða heftið út. Sala heftanna hefur aukist eftir því sem fleiri koma út og er það mjög ánægjulegt. Sem fyrr eru Siglfirðingar duglegir að hvísla að mér sögum sem nýtast sumar hverjar í þessi rit. Var beðinn að koma á upplestrarkvöld hjá Siglfirðingafélaginu í Reykjavík í nóvember þetta ár og lesa úr þessum ritum sem og nýju ljóðabókinni minni. Var það mjög skemmtileg stund fyrir fullum sal af fólki.

Ljóðabók nr. 4 - Um jólin

Í nóvember 2013 kom út fjórða ljóðabók Þórarins, það var ljóðakverið Um jólin. Kverið er í svipuðu broti og hið klassíska verk Jóhannesar úr Kötlum Jólin koma. Þórarinn yrkir um eitt og annað sem tengist jólunum s.s. jólatré, jólabaksturinn, skötuna, Þorlák helga auk vestfirskra jólavætta. Marsibil mágkona hans myndskreytti af listfengi og kverið var gefið út í samstarfi við Kómedíuleikhúsið. Kverið var prentað í 550 eintökum í upphafi. Árið 2018 kom út önnur prentun.

Ljóðabók nr. 5 - Ljóðasafnið A Small Collection of Poetry

Í júlí 2015 kom út ljóðasafn þar sem Þórarinn hafði snúið nokkrum ljóðum úr ljóðabókum sínum yfir á enska tungu auk þess sem þar birtust nokkur ný ljóð. Kverið sérstaklega ætlað vaxandi fjölda erlendra ferðamanna sem sóttu Ljóðasetrið heim. Sala gekk vel og viðbrögð voru góð.

 

50 Gamansögur frá Siglufirði 5


    

 

Já, enn er von á einni! Eftir nokkurra ára bið kom loks 5. hefti ritraðarinnar út í nóvember 2017. Höfðu þó nokkrir beðið spenntir eftir útkomunni, en hópurinn kannski heldur fámennari en skrásetjari hafði gert ráð fyrir því sala var þó nokkuð minni en á ritunum á undan. En gaman og gott að koma frá sér riti og hjálpa til við að halda sagnaarfinum við á Siglufirði. Sala á eldri ritum varð einnig meiri í kjölfarið og voru þau prentuð aftur.

Hvað veist þú um Siglufjörð og Siglfirðinga?

Spurningakver um Siglufjörð og fólkið sem þaðan kemur. Heftið kom út í maí 2018. 100 spurningar og svör í litlu handhægu kveri, upplagt jafnt fyrir gesti Siglufjarðar sem íbúa til að kynnast betur sögu staðarins og fræðast um hann. 

Sönghópurinn Gómar

Skrifaði sögu sönghópsins Góma fyrir meðlimi hópsins og lét útbúa nokkrar bækur, eintak einnig varðveitt á Bókasafni Fjallabyggðar á Siglufirði. Árið 2018.

Ljóðabók nr. 6 - Listaverk í leiðinni

Ljóðaafurð númer sex kom út í mars 2019. Um var að ræða ljóðakver sem kallaðist Listaverk í leðinni. Öll ljóðin voru samin í ferð til sælueyjarinnar Tenerife árinu áður og voru þau samin um listaverk sem bar fyrir augu í ferðinni. Kverið var í A5 broti, prentað í Tunnunni á Siglufirði og innihélt 22 ljóð. Útgáfuhóf var á Ljóðasetrinu. Viðtökur voru hófstilltar!

50 Gamansögur frá Siglufirði 6

Já, enn er eitthvað til af óskráðum gamansögum frá Siglufirði og ævintýrin gerast enn. Það tók tæp tvö ár að safna í nýtt hefti. Sem fyrr blanda af nýjum og gömlum sögum sem mér hafa borist til eyrna eða ég hef rekið augun í hér og þar. Vel sótt útgáfuhóf á Ljóðasetrinu um páskana 2019 og stemning góð. Sala minni en fyrst en alltaf einhver.

Ljóðabók nr. 7 - Enn fleiri æskumyndir

Það er nóg af minningunum frá æskuárunum á Bíldudal og nokkrar þeirra voru settar í búning og urðu að ljóðabókinni Enn fleiri æskumyndir sem kom út í apríl 2020. Þetta voru lokin á Æskumynda þríleiknum sem hófst með Æskumyndum árið 2006. Hélt útgáfuhóf í Ljóðasetrinu og fyrstu 77 eintökin voru tölusett og árituð. Gaf sjálfur út, Billa útbjó myndir og prentað í Tunnunni í A5 broti, ljóðin 22 talsins og blaðsíðurnar 34.

Tóti og Danni

Skrifaði sögu tvíeykisins Tóti og Danni sem starfaði á árunum 2006 - 2013 og flutti tónlist við ýmis tækifæri á Siglufirði og víðar. Lét útbúa nokkrar bækur og er eintak varðveitt á Bókasafni Fjallabyggðar á Siglufirði. Árið 2020.

Fjallahnjúkar

Skrifaði sögu kvæðamannafélagsins Fjallahnjúka sem starfaði á árunum 2005 - 2011 og flutti kvæðalög og rímur við ýmis tækifæri á Siglufirði. Lét útbúa nokkrar bækur fyrir meðlimi hópsins og fyrir Bókasafn Fjallabyggðar á Siglufirði. Árið 2020.

50 Gamansögur frá Siglufirði 7

Enn náðist að tína til sögur í nýtt hefti af siglfirskum gamansögum. Líkt og síðast var söfnunarferlið um tvö ár og úr varð skemmtileg blanda af nýjum og gömlum sögum úr ýmsum áttum. Eitthvað tínt upp af fésbókarsíðum og úr tímaritum en flestar sögurnar bárust mér þó til eyrna eða að ég upplifði þær sjálfur. Útgáfuhóf á Ljóðasetrinu var þokkalega sótt og sala nokkuð góð. Ritið kom út í júní 2021.

Þjálfarinn 1984 - 2024

Í tilefni 40 ára Þórarins við þjálfun íþrótta tók hann söguna stuttlega saman í bók skreytta myndum og færði Bókasafni Fjallabyggðar á Sigló. Árið 2023.  

 

 

Flettingar í dag: 30
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 43
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 60040
Samtals gestir: 16648
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 06:04:32