Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Fréttir

04.07.2014  Mikið líf á Ljóðasetrinu

Það hefur verið mikið um að vera á Ljóðasetrinu frá því sumaropnun hófst þann 26. júní sl. Viðburðir á hverjum degi og ágætis rennerí af gestum, sérstaklega síðustu tvo daga enda flottir viðburðir þá á dagskránni. Í dag voru það hvorki fleiri né færri en fjögur ljóðskáld úr Ritlistarhópi Kópavogs sem tróðu upp og hátt í 30 gestir nutu þess sem þau höfðu fram að færa. Ég flutti þeim svo öllum frumsamið lag við þeirra eigin ljóð og vakti það mikla lukku sem fyrr, lögin urðu til á síðustu dögum en það síðasta fæddist um tveimur tímum fyrir frumflutninginn. Í gær var einnig þétt setinn bekkurinn á setrinu þegar ég hélt útgáfutónleika mína vegna nýju plötunnar - Á fornum slóðum, sem inniheldur 18 frumsamin kvæðalög og kveð ég þau við ljóð hinna ýmsu skálda. Á morgun verða tveir viðburðir á setrinu, kl. 14.00 og 16.00, sá fyrri er liður í dagskrá Þjóðlagahátíðar og er þetta í fyrsta sinn sem setrið er vettvangur viðburðar á þeirri flottu hátíð.

28.06.2014  Nóg að gera og gaman að lifa

Það er óhætt að segja að það sé nóg að gera, eins og stundum áður. Við fjölskyldan skelltum okkur til Spánar þegar skóla lauk og dvöldum þar í 9 daga. Síðan var stoppað nokkra daga í Reykjavíkinni þar sem við upplifðum þann gleðilega áfanga að konan var útskrifuð sem þroskaþjálfi frá Háskóla Íslands eftir þriggja ára fjarnám. Stór og glæsilegur áfangi og útskrift með fyrstu einkunn - Maður er heldur betur stoltur af frúnni.

Svo var haldið norður og þar biðu nokkur verkefni og sum þeirra bíða enn!  Hafði lokið að mestu upptökum á nýrri geislaplötu áður en við fórum út en þurfti aðeins að fínpússa og bæta við þegar heim var komið. Þetta er frumleg plata því á henni kveð ég 18 frumsamin kvæðalög án undirleiks, í anda gömlu íslensku þjóðlaganna, og er þetta líklega í fyrsta sinn sem gefin er út slík plata á landinu. Nú er upptökum lokið, búið að hanna umslagið og gera það klárt í prentun og platan fer í fjölföldun eftir helgi. Útgáfutónleikar verða í Ljóðasetrinu fimmtudaginn 3. júlí kl. 17.00 og eru allir hjartanlega velkomnir.

Annað verkefni er að klára að skrifa handrit að einleik sem ég stefni að að frumsýna á Síldarævintýrinu, þ.e. um Verslunarmannahelgina. Ég fékk styrk frá Menningarráði Eyþings til að ráðast í þetta verkefni og er ákaflega þakklátur fyrir það. Vinnuheiti einleiksins er Í landlegu og fjallar hann um lífið á síldarárunum á Siglufirði, svona um 1955-1960, og verður verkið sýnt í Bátahúsi Síldarminjasafnsins. Ég skrifaði megnið af sögunni á sundlaugarbakkanum úti á Spáni en er núna að bæta meira kjöti á beinin og svo verða örugglega einhverjar viðbætur þegar ég hef æfingar í næstu viku. Verkið  verður í léttum dúr, en þó fullt af fróðleik, og í því verður töluvert af söng og kveðskap, dans og ýmislegt fleira. Gaman er að segja frá því að Síldarminjasafnið mun veita mér liðsinni með sérfræðiráðgjöf, búningum o.fl. og ég mun æfa verkið að miklu leyti á opnunartíma safnsins svo gestir geta fylgst með þessu brölti mínu.

Enn eitt verkefnið er að sjálfsögðu að reka Ljóðasetrið og þar er starfsemi komin í fullan gang og gestir farnir að líta inn. Setrið er opið alla daga vikunnar kl. 14.00 - 17.30 og lifandi viðburðir eru alla daga kl. 16.00 þegar einhverjir eru til að njóta. Í dag lék ég t.d. eigin lög við ljóð ýmissa skálda fyrir hressar konur sem eru saman í ferðaklúbb og ákváðu að heimsækja Fjallabyggð að þessu sinni. Í stuttu máli sagt eru þær alveg heillaðar af öllu því sem hér er í boði.

Þá er ótalið að syngja með Gómunum og kveða með kvæðamannafélaginu Rímu en það eru þó nokkur verkefni á dagskránni hjá báðum þessum hópum. Gómarnir voru t.d. að syngja fyrir hressan árgang á Kaffi Rauðku í kvöld og fengum við vægast sagt frábærar móttökur og í fyrramálið kveðum við í Rímu fyrir gesti skemmtiferðaskips sem verður hér í höfn á morgun. Við munum kveða um borð í Tý, stærsta bátnum í Bátahúsi Síldarminjasafnsins, og hafa hinir erlendu gestir verið afskaplega hrifnir af hinum íslenska þjóðlagaarfi þegar við höfum gert þetta áður, en það eru nokkur skipti á undanförnum árum.

Svo er svona eitt og annað sem verið er að bardúsa, en ætli þetta sé ekki gott í bili af upplýsingum!

03.03.2014  Fjölbreytt verkefni í tónlistinni að undanförnu

Hef komið fram nokkrum sinnum að undanförnu við ýmis tilefni. Var beðinn að mæta á hannyrðakvöld í bókasafninu hér á Sigló á dögunum og gerði það vopnaður því skemmtilega hljóðfæri ukulele og lék og kvað nokkur frumsamin lög fyrir frúrnar. Ég og Logi bróðir stóðum fyrir smá viðburði á Ljóðasetrinu á dögunum sem fékk nafnið Bræður í útlegð. Þar fjölluðum við um nokkra útlaga í tali, leik og tónum og var úr hin besta skemmtan. Siglómótið í blaki fór fram með miklum bravúr á dögunum og þar steig maður á stokk og lék og söng fyrir mannskapinn, var það mjög skemmtilegt að vanda og ekki verra að hafa hann Kidda bassaleikara aftur mér við hlið en hann er fluttur í bæinn að nýju. Munum við án efa brallað eitthvað meira saman á næstunni. Við kvæðamenn látum ekki deigan síga og æfum hvern sunnudag. Tvo síðustu sunnudaga hefur æfingin einnig verið framkoma við opnanir listsýninga fyrst í Herhúsinu hjá hollenskum listamanni og síðan í Ljóðasetrinu í gær þar sem ég tók einnig upp gítarinn og ukuleleið og lék eigin lög fyrir gesti. Sem sagt alltaf nóg að brasa við í músikinni!!

04.02.2014  Fjáröflun á Ljóðasetrinu

Þann 2. febrúar stóð ég fyrir fjáröflun á Ljóðasetrinu þar sem safnað var fé upp í nýtt röntgenæki fyrir Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar. Það var lifandi dagskrá frá kl. 14.00-17.00 þar sem listamenn á öllum aldri komu fram, fluttu vísur og ljóð, sungu, kváðu, léku á hljóðfæri og lesið var úr leikriti. Tæplega 100 manns lögðu leið sína í setrið þennan dag, hlýddu á skemmtilega dagskrá, nutu kaffiveitinga í boði Samkaupa og létu fé af hendi rakna til góðs málefnis. Alls komu um 57.000 krónur í baukinn og eitthvað var lagt inn á söfnunarreikning sem Kvenfélagið Von hafði áður stofnað í sparisjóðnum. Þetta var flottur dagur og eftirminnilegur. Ég kom fram sjálfur milli atriða, söng, kvað, lék á ukulele og gítar og fór með nokkur ljóð úr eigin smiðju.

04.02.2014  Kvæðamenn kváðu á sjúkrahúsinu

Á dögunum mættum við nokkur úr kvæðamannafélaginu Rímu og kváðum fyrir sjúklinga, gesti og starfsfólk á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar á Siglufirði. Komum okkur fyrir í kaffistofunni og kváðum þó nokkur kvæðalög sem sumir könnuðust við. Það var þakklátur áhorfendahópur sem fagnaði okkur.

04.02.2014  Leikið undir hjá Amalíu

Á dögunum skilaði ég af mér bæjarlistamannstitlinum og nú hefur Leikfélag Fjallabyggðar tekið við kyndlinum. Það var mér mikil ánægja að sjá það enda tilnefndi ég félagið. Við athöfnina gerði ég grein fyrir hinu viðburðaríka ári mínu sem bæjarlistamaður - en ég kom fram rúmlega 100 sinnum þetta ár, eins og lesa má hér að neðan. Einnig tók ég við tveimur styrkjum sem ég sótti um hjá sveitarfélaginu - fyrir rekstur Ljóðasetursins og vegna ljóðahátíðarinnar sem nú mun heita Haustglæður. Síðast en ekki síst lék ég undir hjá henni Amalíu minni sem söng Kvæðið um fuglana fyrir gesti á athöfninni.

04.02.2014  Sungið með blökurum

Þann 18. janúar héldum við blakarar okkar árlega Minningarmót, sem heitir nú Minningarmót um látna félaga. Þar var leikið blak af miklum móð eins og lög gera ráð fyrir og um kvöldið var komið saman, snæddur góður matur, veitt verðlaun og svo að sjálfsögðu sungið. Ég var sá eini af gítarhetjum klúbbsins sem hafði tök á að mæta og hélt uppi stuðinu í um tvo klukkutíma. Ánægjulegur og góður dagur.

06.01.2014  Elín Helga efnilegasta frjálsíþróttastúlkan

Við val á íþróttamanni ársins í Fjallabyggð á dögunum var dóttir okkar, hún Elín Helga, valin sú efnilegasta í frjálsum íþróttum. Er hún vel að því komin með m.a. silfur í spjóti frá Íslandsmótinu í sumar, 4. sæti í kúlu á sama móti, brons í kúlu á Stórmóti ÍR, fjölda gullverðlauna í keppni við efnilegustu frjálsíþróttastúlkur á Norðurlandi og setti 17 siglfirsk aldursflokkamet á árinu.

06.01.2014  Kom fram rúmlega 100 sinnum á síðasta ári

Var að taka saman hversu oft ég kom fram á síðasta ári og reyndust það vera rétt rúmlega 100 skipti, 75 sinnum til að flytja tónlist og 32 til að flytja eigin ljóð. Ég kom fram víða um land, oftast þó hér á Siglufirði en einnig í Ólafsfirði, á Akureyri, Reykjavík, Hafnarfirði og svo að sjálfsögðu fyrir vestan. Ég flutti einnig ljóð mín og lög á sjónvarpsstöðvunum ÍNN og N4 og útvarpsstöðinni Trölla FM103,7 sem sendir út hér á Eyjafjarðarsvæðinu og næst á netinu um allan heim. Kveðskapur minn birtist einnig í Morgunblaðinu, Skinfaxa, Hellunni og fleiri tímaritum. Hef ég aldrei komið oftar fram á einu ári og held ég bara að ég hafi staðið fyrir mínu sem Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013. Svo má ekki gleyma því að ég gaf út eina geislaplötu með frumsömdu efni og eina ljóðabók - Já, þetta er bara þó nokkuð í rúmlega fullu starfi, og svo er ég að auki fjölskyldufaðir, þjálfari, fréttaritari og rek Ljóðasetrið (sem mér hefur talist til að sé svona u.þ.b. þriggja mánaða vinna, í klukkustundum talið).K

03.01.2014  Uppfærð tölfræði

Var loks að uppfæra tölfræðina í liðnum Afrakstur, embætti og tölfræði og til að gefa ykkur einhverjar hugmyndir um hvað þar er að finna má t.d. nefna þetta varðandi tónlistina: Hef komið fram 871 sinni til að flytja tónlist, hef flutt rúmlega 900 lög, hef samið 177 lög, gefið út þrjár plötur með eigin lögum og textum og á lög og/eða texta á 5 plötum til viðbótar. Í ljóðadeildinni má m.a. nefna að ég hef komið fram 130 sinnum til að flytja eigin ljóð eða vísur, hef flutt 143 frumsamin ljóð eða vísur og gefið út 4 ljóðabækur með frumsömdu efni. Nánari upplýsingar um tónlistarbröltið, ljóðlistina, íþróttaferilinn, félagsstörf og leiklistarstúss má lesa um í liðnum Afrakstur, embætti og tölfræði hér til hliðar.

01.01.2014  Skrifaði tæplega 300 fréttir á árinu

Sem fyrr er maður allur í skrásetningunni og hef ég mjög gaman að því að segja frá því sem um er að vera í mínu lífi og af mínum hugðarefnum auk þess sem vel er gert í samfélaginu. Ég held úti þremur heimasíðum; þessari hér, síðu Umf Glóa og síðu Ljóðasetursins, auk þess skrifa ég fréttir á heimasíðu Grunnskóla Fjallabyggðar og skrifa fréttir í héraðsfréttablaðið Helluna. Við þetta hafa svo bæst færslur á fésinu þar sem ég er með síður í gangi fyrir mig, Ljóðasetrið, Umf Glóa og nýja verkefnið Jákvæðar fréttir úr Fjallabyggð. Þessar fésbókarfærslur eru þó ekki taldar sem fréttir hér. Á síðasta ári skrifaði ég tæplega 300 fréttir, þar af um þriðjung á þessa síðu. Þetta er þokkalegur fjöldi en þær hefðu þó verið mun fleiri ef ekki væri fyrir breytingar á viðmóti síðanna hjá 123.is sem hefur gert mér erfiðara fyrir og latt mig til verka. Vona að þið hafið gaman af þessu og einhverntíman geti þetta kannski orðið góð heimild um horfna tíma.

01.01.2014  Gleðilegt nýtt ár

Gleðilegt ár lesendur góðir og þakkir fyrir samfylgdina á síðasta ári. Árið var gjöfult og gott og mun ég reyna að gera grein fyrir helstu verkefnum mínum í samantektum hér á næstunni. Árið framundan er ekki síður spennandi og mörg verkefni á teikniborðinu auk þeirra sem maður er nú þegar að fást við. Ég held að þetta verði mjög gott ár og andi friðar og samtakamáttar muni svífa yfir vötnum.

31.12.2013  Nýtt verkefni - Jákvæðar fréttir úr Fjallabyggð

Á dögunum setti ég af stað nýtt verkefni sem heitir Jákvæðar fréttir úr Fjallabyggð. Hugmyndin með því er að dæla út í samfélagið fréttum af öllu því jákvæða og góða starfi sem er í gangi hér í Fjallabyggð og fá fólk til að velta sér meira upp úr því en neikvæðum atriðum sem of oft stjórna umræðunni. Stofnuð hefur verið síða á Fésinu sem ber nafn verkefnisins og þar birtast nokkrar jákvæðar fréttir á dag og fólk getur sent mér ábendingar um jákvæðar fréttir í gegnum síðuna. Verkefnið er unnið í samstarfi við þær Margréti og Maríu á Trölla FM 103,7 en þær eru með þátt á miðvikudagskvöldum sem kallast M og M. Sá þáttur er á mjög jákvæðum og uppbyggilegum nótum og rímar því vel við þetta verkefni. Í þættinum verður  m.a. litið yfir það sem komið er á síðuna og svo munum við vera með Hrós vikunnar þar sem við munum þakka einhverjum aðila/aðilum fyrir sérlega gott starf eða framtak, því verða að sjálfsögðu einnig gerð skil á fésbókarsíðu verkefnisins. Á fjórum dögum eru fylgjendur síðunnar orðnir um 420 talsins og hef ég fengið mjög góð viðbrögð úr samfélaginu við þessu verkefni.

Ástæðan fyrir þessu verkefni er sú að maður er orðinn þreyttur á þeirri neikvæðu umræðu sem er í gangi þrátt fyrir allt það góða sem við höfum og allt það jákvæða sem er í gangi í okkar góða samfélagi. Sameining bæjarkjarnanna í sveitarfélaginu á þar einnig hlut að máli því við sameininguna urðu til margir núningsfletir og fólk hefur verið ósammála um leiðir og aðferðir með tilheyrandi átökum. Þar vantar ansi oft að bera virðingar fyrir skoðunum annarra, því allir hafa jú rétt á sinni skoðun, þó hún sé önnur en okkar! Einnig hef ég heyrt á þó nokkrum bæjarbúum að þá kvíði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningum og öllum þeim átökum, baknagi og baktjaldamakki sem þeim fylgir. Það veitir því ekki af að reyna að opna augu fólks fyrir öllu því jákvæða sem við eigum og reyna að gleðjast yfir því í stað þess að velta sér alltaf hreint upp úr því sem er neikvætt.  

 

31.12.2013  Nýja jólakverið - Um jólin - fékk góðan hljómgrunn

Loks koma nýjar fréttir. Nýja jólaljóðakverið mitt - Um jólin, myndskreytt af Marsibil mágkonu minni, fékk ágætis sölu og kynningu þessi jólin. Ég las og kvað úr kverinu hér og þar við góðar undirtektir, m.a. á Ljóðasetrinu, í Grunnskóla Fjallabyggðar og Menntaskólanum við Tröllaskaga, í Ólafsfjarðarkirkju, Siglufjarðarkirkju, Eymundsson á Akureyri, Minjasafninu á Akureyri og á upplestrarkvöldi hjá Siglfirðingafélaginu í Reykjavík. Fyrsta upplag af kverinu er langt komið og hefur selst vel af því, sérstaklega hér norðan heiða og fyrir vestan. Kverið fæst í ýmsum verslunum, m.a. hjá Eymundsson og Mál og menningu, en einnig er hægt að panta það beint frá mér. 

19.11.2013  Nýja ljóðabókin - Um jólin - komin út

Mín fjórða ljóðabók - Um jólin - kom út á laugardaginn var, þann 16. nóvember, á Degi íslenskrar tungu. Eins og nafnið ber með sér er hér ort um eitt og annað sem tengist jólunum og að þessu sinni er allt háttbundið, þ.e. með rími, stuðlum og höfuðstöfum en þó með nokkuð mismunandi bragarháttum. Mágkona mín, hún Marsibil, myndskreytir kverið af sinni alkunnu snilld og held ég að henni hafi bara sjaldan tekist betur upp. Útgáfuhóf var í Ljóðasetrinu í tilefni útgáfunnar og lögðu þó nokkrir leið sína þangað og versluðu eintak af nýju bókinni. Bókin fæst nú í Siglósport, bókahorni Tunnunnar og svo er að sjálfsögðu hægt að panta hana áritaða "beint frá bónda". Einnig er bókin væntanleg í hillurnar hjá Eymundsson um allt land sem og hjá bókabúð Máls og menningar.

19.11.2013  Feðginin komu fram á tónleikum hjá Rotary í Ólafsfirði

Á dögunum komum við feðginin, Amalía og ég, fram á góðgerðartónleikum í Ólafsfjarðarkirkju. Rotaryklúbbur Ólafsfjarðar stóð fyrir tónleikunum og var safnað til styrktar unglingadeild björgunarsveitarinnar á staðnum. Lögðu þó nokkrir leið sína í kirkjuna til að njóta stundarinnar og styrkja gott málefni. Amalía söng lagið Fylgd við undirleik þeirra Steina Sveins og Guito úr tónskólanum og stóð sig frábærlega að vanda. Ég flutti tvö ljóð úr væntanlegri ljóðabók minni og kvað svo þrjár frumsamdar stemmur við vísur eftir sveitunga mína að vestan, úr Arnarfirðinum.

 

12.11.2013  Frábær stund til heiðurs Páli Helgasyni

Það var alveg mögnuð stund á Ljóðasetrinu um helgina þegar við í kvæðamannafélaginu Rímu kváðum til heiðurs Páli okkar Helgasyni. Á dagskránni voru einvörðungu vísur og ljóð eftir Pál og kváðum við þær við hin ýmsu kvæðalög. Það var fullt hús á þessum viðburði, um 60 manns í setrinu, og hafa sjaldan verið fleiri þar á einstökum viðburði. Páll sjálfur var viðstaddur og var afskaplega glaður með það sem fram fór sem og aðrir gestir sem skemmtu sér konunglega. Að skemmtun lokinni var glæsilegt hlaðborð veitinga sem fólk gerði góð skil.  Frábær stund og skemmtilegt samstarfsverkefni Rímu og Ljóðasetursins.

Mynd Munið dagskrá til heiðurs Páli Helgasyni í Ljóðasetrinu í dag kl. 16.00. Kvæðamannafélagið Ríma mun þar eingöngu kveða vísur eftir Pál og margt af því í léttum dúr.
Ókeypis aðgangur, kaffi og heimabakað á vægu verði.

Endilega líta inn og njóta.

Ég og Páll á góðri stundu í Þjóðlagasetrinu fyrir nokkrum árum (mynd af sksiglo.is)

12.11.2013  Lítil skrif hér að undanförnu

Maður hefur ekki verið nógu duglegur að skrifa hér að undanförnu og kemur það til af þrennu: Verið var að breyta uppsetningunni hjá 123.is sem hýsir þessa síðu og er nýja viðmótið ekki nógu hliðhollt mér, er í vandræðum með að setja inn myndir á fréttasíðuna, og misjafnt eftir tölvum hvernig þetta gengur allt saman, í öðru lagi hefur verið mjög mikið að gera og lítll tími til almennra skrifa, í þriðja lagi hef ég notað facebook meira að undanförnu - eins og einhverjir hafa orðið varir við líklega vegna þess að þar fylgjast fleiri með. En ég ætla að reyna að bæta um betur hvað þessa síðu varðar og vera duglegri í fréttaflutningi og skrásetningu á listabrölti mínu.

15.09.2013  Kveðið og ljóðað á Ljóðasetrinu

Þó formlegri sumnaropnun Ljóðasetursins sé fyrir nokkru lokið eru enn áhugasamir að hafa samband og fá að líta í heimsókn. Á dögunum tók ég á móti litlum hópi menningarfulltrúa af landsbyggðinni og sýndi þeim setrið. Að sjálfsögðu brá ég einnig fyrir mig kveðskapnum, kvað tvö frumsamin kvæðalög og las úr handriti að nýju ljóðabókinni minni.

15.09.2013  Ljóðahátíðin Glóð hafin

Ég hef skipulagt og stýrt ljóðahátíðinni Glóð hér í Fjallabyggð á hverju ári síðan 2007. Í ár er hátíðin með nýju sniði því í stað þess að hafa alla viðburði hennar þrjá samliggjandi daga þá verður þeim dreift yfir septembermánuð. Allir föstu liðir hátíðarinnar verða þó á sínum stað og reynt verður að brydda upp á einhverjum nýjungum. Fyrsti viðburðurinn er þegar yfirstaðinn en þá las eistneska skáldkonan Katlin Kaldman úr verkum sínum á Ljóðasetrinu. Í næstu viku munu nemendur úr 8. og 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar taka þátt í árlegri ljóðasamkeppni þar sem þeir yrkja ljóð út frá málverkum úr málverkasafni Fjallabyggðar. Svo er von á góðum gestum og heimamenn munu láta ljós sitt skína sem fyrr. Nánari fréttir fljótlega.

15.09.2013  Glæsilegt brúðkaup hjá litlu systur

Hún Birna Friðbjört, yngri systir mín, og Ásgeir Sveinsson gengu í það heilaga um síðustu helgi fyrir vestan. Athöfnin var glæsileg í alla staði og vinir og fjölskyldur samfögnuðu með brúðhjónunum. Þau báðu mig að syngja við athöfnina, sem var heiður að fá að gera, og að lokinni veislunni var slegið upp balli þar sem maður söng í góða tvo tíma. Og svo þegar rafmagnið fór þá voru bara teknir upp kassagítararnir og haldið áfram, já ekkert stopp á stuðinu! Eða þannig! Til hamingju með daginn ykkar glæsilegu brúðhjón.

11.09.2013  Uppgjör 802

Eins og einhverja rekur kannski í minni þá efndi ég til tónleikaraðar í sumar undir yfirskriftinni 802 í tilefni þess að ég hafði komið fram 802 sinnum þegar tónleikaröðin hófst. Markmiðið var að leika og syngja í óhefðbundnum og litlum tónleikarýmum og skapa þannig meiri nánd milli mín og tónleikagesta en annars mundi myndast. Tónleikarnir urðu 11 talsins og voru þeir haldnir á Siglufirði, í Ólafsfirði og á Bíldudal. Alls lék ég og söng 46 af mínum lögum og textum  og gestir urðu á þriðja hundrað. Upplifun mín var ánægjuleg og gestir tóku mér fagnandi.

11.09.2013  Handrit að næstu ljóðabók komið úr yfirlestri

Handrit að næstu ljóðabók er nú nýkomið úr yfirlestri hjá meistara Páli Helgasyni og er ég nú að skoða athugasemdir hans sem voru góðar og uppbyggilegar að vanda. Bókin mun heita Um jólin og fjallar um eitt og annað sem tengist jólunum. Marsibil mágkona mín mun myndskreyta og er hugmyndin að bókin/kverið muni koma út fyrir lok október.

11.09.2013  Sungið í jarðarför kærrar samstarfskonu

Þann 31. ágúst sl. var útför kærrar samstarfskonu okkar í Grunnskóla Fjallabyggðar og áður Grunnskóla Siglufjarðar, Ásdísar Kjartansdóttur, en hún lést eftir áralanga og hetjulega baráttu við krabbamein. Nokkrum dögum fyrir andlátið bað hún mig um að eiga við sig orð á sjúkrahúsinu hér á Siglufirði og áttum við þar gott spjall saman. Hún bað mig um að syngja lag við útförina ef ég treysti mér til og þótti mér afskaplega gott að geta þakkað henni fyrir samveruna og samstarfið í skólanum í 20 ár með þeim hætti.

11.09.2013  Afastelpa í heimsókn

Við vorum svo heppin að fá í heimsókn til okkar á dögunum afastelpuna mína hana Svövu Nótt sem verður bráðum fjögurra mánaða. Hún kom með foreldrum sínum og stoppaði í nokkra daga á Sigló áður en þau fóru aftur til Danmerkur að halda áfram sínu námi. Þetta er náttúrulega algjör gullmoli sem bræðir hvert hjarta með brosinu sínu.

 

 

28.08.2013  Tvöfaldur í roðinu!

Þá er skólastarf komið á fullt og í ýmis horn að líta hjá mér þar sem nú starfa ég hjá tveimur fræðslustofnunum. Ég er í hálfu starfi við Grunnskóla Fjallabyggðar og kenni þar íþróttir- og íþróttatengdar valgreinar og svo réð ég mig til Menntaskólans á Tröllaskaga, stýri þar starfsbrautinni og kenni nemendum hennar íslensku auk þess að þjálfa í frjálsíþróttaakademíu sem við stefnum að að koma á fót við skólann. Vika er síðan kennsla í MTR hófst og hefur verið nóg að gera að koma öllu í fastar skorður á starfsbrautinni og kennsla í GF hófst í gær. Flottir nemendur og flott samstarfsfólk á báðum stöðum sem gaman og þroskandi er að vinna með.

28.08.2013  Kveðið í Hofi

Á dögunum vorum við í kvæðamannafélaginu Rímu beðin að kveða í menningarhúsinu Hofi á Akureyri fyrir gesti á ráðstefnu um málefni Norðurskautsins. Var þeirri bón vel tekið og mættum við 12 kvæðamenn til leiks og kváðum fyrir ráðstefnugeti ýmis kvæðalög í um 20-30 mínútur. Var gerður góður rómur af þessu atriði jafnt meðal innlendra- sem erlendra ráðstefnugesta. Þótti það mjög þjóðlegt og lögin vel flutt.

11.08.2013  Sumardagskránni að ljúka

Þá er víst blessað sumarið að verða liðið og dagskráin hjá manni að breytast. Síðustu opnunardagar á Ljóðasetrinu framundan, þar hefur verið líflegt og skemmtilegt í sumar, fjöldi gesta heldur fleiri en í fyrra og um 20 viðburðir hafa farið þar fram síðan í byrjun júlí. Frjálsíþróttaæfingar verða þó enn á dagskránni hjá mér og framundan eru tvö mót á Akureyri sem við munum sækja. Frjálsíþróttaæfingum mínum hjá Umf Fljótamanna lauk á föstudaginn, en ég fór í 9 heimsóknir þangað að þjálfa kraftmikla og duglega stráka, er þetta 6 sumarið sem ég þjálfa í Fljótunum. Skólastarfið er svo rétt að hefjast, er byrjaður að undirbúa mig fyrir nýja starfið í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þar sem ég mun m.a. stýra starfsbrautinni, og grunnskólinn hefst fljótlega.

Sumarið hefur verið mjög gott; frábært frí til Danmerkur, góð heimsókn á æskuslóðirnar á Bíldudal og glæsileg Baunahátíð þar, skemmtilegir sumargestir hafa litið inn og dvalið hjá okkur fjölskyldunni, veðrið verið mjög gott, búið að spila töluvert af strandblaki, fara í góðar gönguferðir með frúnni, taka á móti hundruðum góðra gesta á Ljóðasetrinu, þjálfað áhugasama krakka í frjálsum, gaf út nýja geislaplötu, spilað og sungið við ýmis tækifæri, kláraði handrit að nýrri ljóðabók sem kemur út í október og bara notið lífsins með fjölskyldunni.

 

11.08.2013  Nýr starfsvettvangur -  að hluta

Það verða breytingar hjá mér í haust varðandi starf mitt og starfsvettvang. Í vetur mun ég aðeins verða í hálfu starfi við Grunnskóla Fjallabyggðar og eingöngu kenna íþróttir og valfög tengdum þeim en svo hef ég ráðið mig til starfa við Menntaskólann á Tröllaskaga, sem staðsettur er í Ólafsfirði, og þar mun ég stýra starfsbraut með 12 nemendum og kenna þeim hópi íslensku. Einnig ætlum við að fara af stað með svokallaða frjálsíþróttaakademíu, sem ég mun stýra, og vonandi fáum við þar inn áhugasama nemendur. Spennandi verkefni að takast á við og þessi nýja menntastofnun áhugaverður starfsvettvangur. Ég tel mig geta samsamað mig vel kjörorðum skólans sem eru: Frumkvæði - Sköpun - Áræði og hlakka til að takast á við ný verkefni.

05.08.2013  Kom fimm sinnum fram á Síldarævintýri

Ég kom fram fimm sinnum á Síldarævintýrinu þetta árið auk þess sem ég var að bardúsa á Ljóðasetrinu. Við í sönghópnum Sex um borð vorum með alveg hreint magnaða tónleika á Kaffi Rauðku þann 1. ágúst, fullt hús og stemningin alveg rosaleg, og á laugardeginum fluttum við nokkur lög á sviðinu á torginu. Það var gaman að hafa foreldra mína meðal áheyrenda á báðum þessum tónleikum því þau hafa ekki heyrt í okkur áður. Svo kom ég þrisvar sinnum fram með gítarinn á sviðinu og flutti þar aðallega vel þekkta slagara. Á Ljóðasetrinu fékk ég góða gesti og sprellaði eitthvað með þeim; kvað með kvæðamönnum, kvað ljóð eftir Palla Helga, sem var að lesa úr eínum verkum á setrinu, leiddi fjöldasöng þegar Stúlli mætti með nikkuna í setrið, sagði gamansögur og svona eitt og annað. Þetta er sem sagt búið að vera mjög líflegt og skemmtilegt ævintýri hjá mér!

05.08.2013  Glæsilegu en blautu Síldarævintýri lokið

Já, veðrið lék ekki alveg við okkur hér norðanlands þessa verslunarmannahelgina og gestir því mun færri en oft áður á Síldarævintýri en dagskráin var mjög góð og töluðu gestir mikið um það. Höfðu gestir mörg orð um það hvað dagskráin væri góð og lýstu yfir mikilli ánægju með það hvað allt gekk vel fyrir sig t.d. á sviðinu þar sem hver hljómsveitin af annarri kom fram ásamt nokkrum trúbadorum og þó rigndi og rigndi á laugardeginum þá hélt dagskráin þar áfram hnökralaust. Veðrið á föstudag var mjög gott og á sunnudag slapp þetta alveg þó maður hefði ekkert haft á móti nokkrum gráðum í viðbót í plús. En við stjórnum því víst ekki - en allt sem við höfðum stjórn á á þessu Síldarævintýri held ég að hafi bara gengið mjög vel - annað var að minnsta kosti ekki að heyra á gestum í bænum.

01.08.2013  Og enn er kveðið

Það hefur verið mikið um rímnakveðskap að undanförnu. Ég hef kveðið nokkrar skemmtilegar brennivínsvísur eftir Halla á Kambi að undanförnu við ýmis tækifæri og hafa þær fallið í góðan jarðveg, enda stórskemmtilegar. Kveð þær ýmist við þekkt siglfirskt kvæðalag eða lag úr eigin smiðju. Í gær kvað ég þrjú lög í Útvarpi Trölla, þar af voru tvö eftir mig en vísurnar allar eftir Siglfirðinga eða menn tengda Siglufirði. Seinna um daginn fékk ég svo félaga mína úr kvæðamannafélaginu Rímu til að heimsækja mig á setrið og kváðum við saman fyrir gesti. Það var alveg ljómandi skemmtilegt.

29.07.2013  Kveðið í afmælisveislu

Eftir líflegan laugardag í Ljóðasetrinu fórum við nokkur úr kvæðamannafélaginu Rímu og kváðum fyrir gesti í stórafmæli sem haldið var á Bakka í Ólafsfirði. Þar var haldið uppá 3 x 50 ára afmæli og gestir á þriðja hundrað. Við kváðum nokkur lög saman og einnig sitt í hvoru lagi. Heppnaðist vel að mestu en hljóðið kannski ekki alveg nógu gott þar sem salarkynnin voru löng og barst hljóð því illa til þeirra sem sátu aftast.

29.07.2013  Líflegt á Ljóðasetrinu

Það hefur verið fínasta aðsókn að Ljóðasetrinu í sumar og gestir eru nú um 100 fleiri miðað við sama tíma í fyrra. Sem fyrr eru lifandi viðburðir alla daga kl. 16.00, þegar einhverjir eru til að hlýða á, og fjöldi góðra gestaskálda og tónlistarmanna hafa komið þar fram í sumar. Svo fylli ég inní með eigin ljóðum eða lögum eða tek fyrir ákveðin skáld, segi frá þeim og þeirra verkum, þegar maður hefur ekki uppá þekktari gesti að bjóða. Laugardagurinn síðasti var líklega líflegasti dagurinn á setrinu í sumar því þá urðu gestir um 70 talsins, þar af voru tveir hópar sem ég söng og kvað fyrir.

29.07.2013  Frábærir tónleikar á Kaffi Rauðku

Tónleikarnir með lögunum hans Gylfa Ægis, sem við héldum á Kaffi Rauðku á dögunum heppnuðust alveg ljómandi vel og gestir sem flytjendur skemmtu sér konunglega. Það kom fólki á óvart, sem fyrr, hversu mörg góð lög hann Gylfi hefur samið og flutningur okkar lukkaðist vel. Að sjálfsögðu var mikið sungið með, klappað og dillað sér enda eru flest þessara laga lög sem allir þekkja. Þetta var virkilega gaman og næstu "Gylfa-tónleikar" eru á Kaffi Rauðku á fimmtudaginn kemur, 1. ágúst, svo það er um að gera að ná sér í miða sem fyrst, þeir eru í forsölu í Kaffi Rauðku.

24.07.2013  Tvennir tónleikar framundan

Það eru tvennir tónleikar framundan hjá sönghópnum Sex um borð og hljómsveitinni Áhöfnin á Tý. Tónleikarnir verða á Kaffi Rauðku föstudaginn 26 nk. og svo fimmtudaginn 1. ágúst. Á þessum tónleikum verða lög Gylfa Ægis í fyrirrúmi en einnig munu nokkrar aðrar siglfirskar perlur fljóta með. Þetta verða alveg þrusutónleikar þar sem allir syngja með, því mörg laganna hans Gylfa eru landsþekkt s.s. Minning um mann, Stolt siglir fleyið mitt, Í sól og sumaryl, Gústi guðsmaður, Sonur minn, Ég hvísla yfir hafið, Frá því fyrst ég sá þig o.fl. o.fl. Þannig að nú er um að gera að mæta og skemmta sér við góða tónlíst í vönduðum flutningi.

24.07.2013  Ljóð dagsins

Eins og fram hefur komið hér áður er eitt stykki útvarpsstöð flutt á efri hæð Ljóðasetursins, er þar um að ræða Útvarp Trölli FM 103,7, og er þar oft mikið líf og fjör. Dagskrárgerð er alltaf að aukast og eru þar t.d. daglega þættir frá kl. 13-16 og auk þess þættir á föstudagsmorgnum og á laugardögum auk þess sem sent hefur verið beint út frá ýmsum viðburðum í sveitarfélaginu. Stöðin heyrist víða í Eyjafirði og svo á netinu um allan heim. Útvarpsstjórinn stakk upp á því að ljóð dagsins yrði fastur liður í starfseminni og kæmi að sjálfsögðu frá Ljóðasetri Íslands á neðri hæðinni. Greip ég þessa hugmynd á lofti og undanfarnar tvær vikur hef ég kíkt daglega á efri hæðina og flutt ljóð dagsins í útvarpið. Er yfirleitt um að ræða nokkur ljóð eða vísur auk þess sem ég segi lítillega frá skáldinu. Í fyrstu mun ég einbeita mér að ljóðskáldum af hlustunarsvæði stöðvarinnar og kennir þar ýmissa grasa. Á dögunum var lýst beint frá leik KF og Fjölnis í 1. deildinni á útvarpi Trölla og í hálfleik þá flutti ég tvö ljóða minna sem fjalla um fótbolta.

24.07.2013  Sungið og kveðið fyrir hresst fólk

Á dögunum sungum við í sönghópnum Sex um borð fyrir hressa húsbílaeigendur sem höfðu myndað nýtt þorp í miðbæ Siglufjarðar. Tónleikarnir fóru fram á Kaffi Rauðku og fluttum við um 10 lög úr Gylfa Ægis prógramminu. Féllu þessi lög afar vel í kramið hjá fólki og var sungið með frá fyrsta lagi og dansað með frá því þriðja. Kvöldið eftir skemmti ég svo kátum árgangi í Bátahúsinu; söng, kvað og flutti gamansögur og var mikil ánægja með þá dagskrá að sögn viðstaddra, sérstaklega vöktu vísurnar og lögin sem ég kvað mikla athygli enda ekki á hverjum degi sem fólk heyrir slíkt.

16.07.2013  Enn er sungið og mikið framundan

Já, það er enn verið að þenja raddböndin og mörg spennandi verkefni eru framundan. Í gær flutti ég nokkur af mínum lögum á Ljóðasetrinu, lög sem ég hef samið við ljóð nokkurra skáldkvenna. Svei mér þá ég held bara að gestir hafi farið út með sælubros! Á fimmtudaginn munum við í sönghópnum Sex um borð taka lagið fyrir hóp húsbílaeigenda sem eru á ferð um Siglufjörð, á föstudag les ég gamansögur og syng fyrir skemmtilegan hóp hér á Sigló, svo eru tvær skemmtanir framundan hjá okkur í sönghópnum þar sem við flytjum lög eftir Gylfa Ægis og aðra Siglfirðinga, Síldarævintýrið er líka handan við hornið og þá verður maður á ferð með gítarinn og svo verður eitthvað sungið og kveðið á Ljóðasetrinu áfram.

15.07.2013  Kveðið kölds og morgna

Það var skemmtilegur dagur í gær og mikið kveðið. Félagar í kvæðamannafélaginu Rímu voru beðnir að kveða í Bátahúsi Síldarminjasafnsins fyrir gesti af erlendu skemmtiferðaskipi og vorum við um 10 sem gátu orðið við þeirri bón. Komum alls fram þrisvar sinnum fyrir um 150 manns og kváðum ýmis kvæðalög úr safninu okkar. Mjög gaman og erlendur gestirnir margir hverjir heillaðir af íslensku kvæðalögunum, sérstaklega tvísöngslögunum sem minnti þá á söngva frá miðöldum, enda er tvísöngurinn aðeins varðveittur hér á Íslandi (að ég held) en horfinn úr menningu annarra þjóða. Í gærdag kvað ég svo á setrinu ýmis kvæðalög eftir mig og aðra. Var það mjög góð stund og gestir ákaflega þakklátir og svei mér þá glaðir í sálinni eftir heimsóknina. Það er gaman að taka þátt í að varðveita og viðhalda þessum merka arfi okkar; kvæðalögunum og ljóðlistinni.

15.07.2013  Mikið um að vera á Ljóðasetrinu

Það hefur verið líf og fjör á Ljóðasetrinu að undanförnu og aðsókn verið með ágætum, það stefnir í mun betri aðsókn en á síðasta ári a.m.k. Fjöldi viburða hefur verið á dagskránni: tónlistarmenn, leikarar og heilu hljómsveitirnar hafa troðið þar upp á síðustu dögum og heillað gesti með flutningi sínum. Má þar sérstaklega nefna hljómsveitina The Sainst of Boggie Street sem flutti lög Leonard Cohen í setrinu síðasta föstudag, það var alveg mögnuð stund, og Logi bróðir var flottur þegar hann flutti okkur þulur Theodóru Thoroddsen og ljóð Dags Sigurðarsonar. Inn á milli hef ég svo fyllt inn í með ljóðaflutningi og eða söng og spileríi.

15.07.2013  Frjálsíþróttaæfingar hafnar og líka í sveitinni

Þá er sumarstarfið komið á fullt í íþróttunum. Er með fjórar æfingar á viku fyrir frjálsíþróttakrakkana á Siglufirði og verð líka með nokkrar æfingar í Fljótunum fyrir krakkana þar. Æfingarnar hjá Siglfirðingunum hafa að vísu byrjað rólega, höfum hitt á rigningardaga, en iðkendum fer smá fjölgandi. Fín þátttaka í sveitinni, 15 krakkar mættu á fyrstu æfingu, sem var í síðustu viku.

07.07.2013  Líf og fjör á Ljóðasetrinu

Það hefur heldur betur verið líflegt á Ljóðasetrinu frá því við opnuðum þar í byrjun vikunnar. Tvö mögnuð gestaskáld hafa flutt þar ljóð sín fyrir fullu húsi. Fyrst var það Sigurður Pálsson, sem opnaði sumardagskrána hjá okkur á þriðjudag, og síðan Aðalsteinn Ásberg á föstudag. Ég lauk heimsókn Aðalsteins með því að flytja honum lag sem ég samdi við ljóð hans þann morguninn. Aðsókn að setrinu hefur verið með ágætum og gestir hrifnir af því sem borið hefur fyrir augu og eyru. Í dag ætlar Logi bróðir að troða upp og flytja skemmtilega ljóðadagskrá og alla daga verða einhverjir lifandi viðburðir svo framarlega sem einhverjir eru til að hlýða á. Svo það er endilega að líta inn á setrið og skoða sig um og næra sálina.

Ásamt Sigurði Pálssyni á Ljóðasetrinu (mynd frá sksiglo.is)

05.07.2013  Góðar grænar baunir ..

Það var líf og fjör á Bíldudals grænum ... 2013 og hátíðin var vel sótt. Fullt af flottum viðburðum og arnfirskir listamenn létu ljós sitt skína. Veðrið lék við Arnarfjörðinn þegar mest á reyndi; á laugardegi og sunnudegi. Sólin skein í heiði og hellti geislum sínum yfir brosandi mannskapinn. Ég kom fimm sinnum fram á hátíðinni: á fimmtudegi var ég með tónleika á Vegamótum - það voru síðustu tónleikarnir í tónleikaröðinni 802 og voru þeir ágætlega sóttir, á laugardeginum kvað ég eigin kvæðalög og annarra við vísur eftir Arnfirðinga - þeir tónleikar fóru fram við Kaupfélagshúsið sem nú er glæsilegt gistiheimili, seinni part laugardags vorum við Logi bróðir með viðburð við æskuheimili okkar Birkihlíð þar sem Logi las ljóðin mín þar sem ég rifja upp æskuárin og ég flutti nokkur laga minna um Bíldudal, um kvöldið kom ég fram á hátíðarsviðinu og flutti þrjú af mínum lögum og á sunnudeginum kvað ég tvö kvæðalög við messu í Bíldudalskirkju. Sem sagt fjölbreyttur og skemmtilegur pakki!

Ég og Logi bróðir í túninu heima og að sjálfsögðu sólskin

04.07.2013  Húsfyllir á flottum tónleikum

Það var húsfyllir í Bátahúsi Síldarminjasafnsins á Jónsmessuhátíð safnsins á dögunum þegar við söngfuglarnir á Sigló sungum lög Gylfa Ægis, kallinum til heiðurs, og hann tók þátt í gleðinni með okkur. Við sungum um 20 lög og Gylfi sagði sögur og brandara og lýsti því hvernig sum laganna urðu til auk þess að taka lagið með okkur. Gestirnir 250 skemmtu sér vel og það var hraustlega tekið undir enda mörg laganna kunn alþjóð. Hljómsveitin kallaði sig Áhöfnina á Tý, enda var sungið um borð í bátnum, og sönghópurinn hét að þessu sinni, Sex um borð. Hluti af þessari dagskrá verður felld inn í siglfirskt prógram sem við ætlum að flytja á tvennum tónleikum í Kaffi Rauðku dagana 26. júlí og 1. ágúst. Ég skora á ykkur að missa ekki af þeim.

Hér má sjá mynd af æfingu kvöldið fyrir tónleikana (mynd af Siglfirðingur.is)

 

Flettingar í dag: 121
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 284
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 59475
Samtals gestir: 16424
Tölur uppfærðar: 17.7.2024 20:27:13