Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Hljómsveitirnar

 

Brestur
Starfaði veturinn 1978-´79 vestur á Bíldudal og var skólahljómsveit Barnaskóla Bíldudals. Kom alls fram 8 sinnum þar af einu sinni órafmagnað og kallaðist þá Bíldudal´s Bluegrass Band.  Hafði tæplega 20 lög á lagalista sínum.

Hljóðfæraskipan:

Gísli Ragnar Bjarnason gítar og söngur.

Helgi Hjálmtýsson bassi.

Þórarinn Hannesson trommur og söngur.
Með hljómsveitinni sungu einnig á stundum bekkjarsystur þeirra félaga Hrönn Hauks, Erna Hávarðar og Hera Guðmunds auk Bylgju Agnarsdóttur.

Á hátíðinni Bíldudals grænar ... 2009 kom hljómsveitin saman aftur eftir 30 ára hlé og flutti 5 lög á hljómsveitartónleikum hátíðarinnar með upprunalegri hljóðfæraskipan. Hrönn kom einnig á sviðið og söng þrjú laganna ásamt Þórarni.

 

Bíldudal´s Bluegrass Band
Gísli Ragnar Bjarnason gítar og banjó.

Helgi Hjálmtýsson mandólín og gítar.

Þórarinn Hannesson bongótrommur og söngur.

Bjarni Þór Sigurðsson gestasöngvari.

 

Camelía 2000
Hljómsveitin var stofnuð í október 1981 í Héraðsskólanum á Reykholti og lék aðeins á einu skólaballi með þessari hljóðfæraskipan og undir þessu nafni.  Á lagalistanum voru 14 lög.

Hljóðfæraskipan:

Guðný Ása Þorsteinsdóttir söngur.

Jóhann Jónsson gítar og söngur.

Jón Bjarni Guðsteinsson bassi.

Torfi Guðlaugsson hljómborð.

Þórarinn Hannesson trommur og söngur.

Þórarinn Steingrímsson gítar.


JÓGÓHÓ og HETOÞÓ
Önnur útgáfa af hljómsveitinni hér að ofan með smávægilegum mannabreytingum og tilfæringum á hljóðfærum.  Nafnið var búið til úr upphafsstöfum nafna og gælunafna hljómsveitarmeðlima en þótti nú frekar óþjált og tolldi aðeins á sveitinni einn skóladansleik í Reykholti, nánar tiltekið í lok janúar 1982. 

Hljóðfæraskipan:

Guðný Ása Þorsteinsdóttir söngur.

Hermann Helgi Traustason trommur.

Jón Bjarni Guðsteinsson bassi.

Torfi Guðlaugsson hljómborð.

Þórarinn Hannesson söngur.

Þórarinn Steingrímsson gítar.


Tíbía
Lokanafnið á skólahljómsveitinni í Reykholti veturinn 1981-1982 og var hljóðfæraskipan sú sama og áður.  Kom hljómsveitin fram 6 sinnum undir þessu nafni í Reykholti, í Varmalandi og í Logalandi.  Hafði hún 26 lög tiltæk til spilunar þegar upp var staðið.  Frægðarsólin skein líklega skærast þegar leikið var í pásunni hjá hljómsveitinni Start, með þá Eirík Hauksson og Pétur Kristjánsson innanborðs, á árshátíð skólans í Logalandi.


Bíldudals Búggarnir
Þessi hljómsveit var önnur tveggja sem sett var saman fyrir dansleik sem Leikfélagið Baldur á Bíldudal hélt milli jóla og nýárs 1986.  Æft var yfir daginn og ball um kvöldið, hvor hljómsveit lék nokkur lög.  Báðar sveitirnar urðu kveikjur af langlífari hljómsveitum.

Hljóðfæraskipan:

Gísli Ragnar Bjarnason gítar.

Helgi Hjálmtýsson bassi.

Viðar Örn Ástvaldsson hljómborð.

Víkingur Gunnarsson trommur.

Þórarinn Hannesson söngur.


Dalli Daladriver og hryggsúlurnar
Seinni hljómsveitin sem lék á leikfélagsballinu í Baldurshaga á Bíldudal um jólin 1986.  Átti hún eftir að marka djúp spor í tónlistarsögu Bíldudals næstu áratugina í örlítið breyttri mynd og undir öðru nafni.

Hljóðfæraskipan:

Bjarni Þór Sigurðsson gítar.

Matthías Ágústsson bassi.

Viðar Örn Ástvaldsson hljómborð.

Víkingur Gunnarsson trommur.

Þórarinn Hannesson söngur.


Harðlífi
Drengirnir úr Dalla Daladriver tóku upp þráðinn sumarið 1987 og hófu formlegar æfingar.  Ein breyting hafði þó orðið á upphaflegri skipan því nýr trommari var við settið.  Æfði hljómsveitin í fornfrægu húsi á Bíldudal sem nefnt var Langi skúr, en það var byggt á dögum Péturs Thorsteinssonar á Bíldual, um aldamótin 1900, og var á sínum tíma lengsta hús landsins.  Hljómsveitin hafði ekki fengið nafn þegar hún var beðin að leika á sínum fyrsta dansleik en fékk nafnið Harðlífi þar sem það hljómaði svo vel í enskri þýðingu Hard life!! Sumir heyrðu nafnið þó sem Hafliði í útvarpinu, og þótti eðlilegt að skýra sveitina eftir stórskáldi Bílddælinga Hafliða Magnússyni.  Hljómsveitin lék aðeins á einum dansleik undir þessu nafni.

Hljóðfæraskipan:

Bjarni Þór Sigurðsson gítar og söngur.

G. Hjalti Jónsson trommur.

Matthías Ágústsson bassi.

Viðar Örn Ástvaldsson hljómborð.

Þórarinn Hannesson söngur.
 

Vesturfararnir
Haustið 1987 kom beiðni frá stjórn Leikfélagsins Baldurs á Bíldudal til þriggja bílddælskra tónlistarmanna sem voru við nám eða störf í Reykjavík þar sem spurt var hvort þeir gætu sett saman hljómsveit og leikið fyrir dansi á árshátíð leikfélagins fyrir vestan.  Skemmtun þessi gengur undir nafninu Desinn, enda alltaf haldin í kringum 1. des.  Þetta voru félagarnir Gísli, Helgi og Þórarinn úr Bresti og var málið auðsótt, fengu þeir til liðs við sig feðga fyrir vestan, mikla tónlistarmenn, og fóru æfingar fram á sitthvoru landshorninu þ.e. þremenningarnir æfðu fyrir sunnan og feðgarnir fyrir vestan.  Deginum fyrir árshátíðina hittist hljómsveitin svo fyrir vestan og stillti saman strengi.  Fékk hljómsveitin nafn sitt af augljósum ástæðum.  Lék hún saman alls 5 sinnum árin 1987 - 1989, tvisvar í upprunalegri mynd en síðan urðu nokkrar mannabreytingar í henni.

Hljóðfæraskipan:

Ástvaldur Hall Jónsson hljómborð.

Gísli Ragnar Bjarnason gítar.

Helgi Hjálmtýsson bassi.

Viðar Örn Ástvaldsson trommur.

Þórarinn Hannesson söngur.

Síðar komu við sögu:

G. Hjalti Jónsson trommur.

Bjarni Þór Sigurðsson gítar.

Víkingur Gunnarsson trommur.

Ragnar Jónsson hljómborð.

              

Græni bíllinn hans Garðars
Hljómsveitin sem fyrst kallaði sig Harðlífi fékk sitt endanlega nafn milli jóla og nýárs 1987 þegar hljómsveitin æfði fyrir sína fyrstu Áramótagleði sem fram fór í Baldurshaga á Bíldudal, en alls lék sveitin á fimm slíkum.  Næstu árin var leikið og sungið á dansleikjum hér og þar á Vestfjörðunum við ágætan orðstír.  Lengst af voru hljómsveitarmeðlimir búsettir á sitthvoru landshorninu og því lítið um æfingar nema dagana eða jafnvel aðeins daginn fyrir dansleik.  Þó voru ný lög fastur liður á lagalistanum á hverjum dansleik og árið 1993 var sveitin með tiltæk um 150 lög en alls komust 185 lög inn á listann með einum eða öðrum hætti.  Hljómsveit þessi var mjög uppátækjasöm og margt skondið dreif á daga hennar á þessum árum.  Hefur ævintýrum hennar verið gerð skil í ritinu Saga gleðisveitar sem söngvari hennar tók saman og gaf út  árið 2001.

Segja má að fyrsta blómaskeið sveitarinnar hafi verið á þessum árum þ.e. 1987-1993 en á þeim árum kom hún fram um 50 sinnum og þar af voru um 40 dansleikir.

Hljóðfæraskipan þessi árin var að mestu sú sama og í upphafi:

Bjarni Þór Sigurðsson gítar og söngur.

G. Hjalti Jónsson trommur.

Matthías Ágústsson bassi.

Viðar Örn Ástvaldsson hljómborð.

Þórarinn Hannesson söngur.


Árið 2001 var skorað á félagana í Græna bílnum að snúa aftur og leika á árshátíð Leikfélagsins Baldurs á Bíldudal í byrjun desember.  Stóðust drengirnir ekki þessa áskorun og komu aftur saman fyrir vestan í upprunalegri mynd og léku bæði á Patreksfirði og Bíldudal.  Þessa helgi kom einnig út rit Þórarins um sveitina og var því fylgt úr hlaði fyrir vestan með spilamennsku og áritunum.  Árið eftir var leikurinn endurtekinn og þá fór boltinn að rúlla fyrir alvöru upp á nýtt hjá gleðipinnunum á Græna bílnum og blómaskeið númer tvö að renna upp því nú skildi stefnt í hljóðver.  Það varð að veruleika þegar dvalið var eina helgi í Geimsteini hjá Rúnna Júl í maí 2003 og tekin upp 6 laga geislaplata með frumsömdum og bílddælskum lögum.  Efni af henni var frumflutt á hátíðinni Bíldudals grænar, sem haldin var í fyrsta sinn þetta sumar, og lagið Bíldudalur bærinn minn með Græna bílnum varð einkennislag hátíðarinnar og hefur lifað góðu lífi síðan.  Hljómsveitin hefur komið saman á fjórum Grænu bauna hátíðunum og er alltaf á leiðinni aftur í hljóðver að taka upp frumsamið efni.

Hljóðfæraskipan hefur í megin atriðum verið þessi síðustu ár:

Bjarni Þór Sigurðsson gítar, söngur og raddir.

G. Hjalti Jónsson trommur og annar ásláttur.

Matthías Ágústsson bassi og raddir.

Viðar Örn Ástvaldsson gítar, munnharpa, söngur og raddir.

Þórarinn Hannesson söngur, raddir, kassagítar og tamborína. 


Hinir og þessir
Sumarið 1988 var unnið að því að dýpka höfnina á Bíldudal og var vaskt lið frá Dýpkunarfélagi Siglufjarðar sem sá um þá framkvæmd.  Voru þeir kostgangarar á Vegamótum, veitingastað foreldra Þórarins söngvara, og í spjalli þeirra einn daginn kom í ljós að tónlistarmenn voru í þeirra röðum.  Hófust nú bollaleggingar um hvort ekki væri hægt að búa til hljómsveit með aðstoð heimamanna og slá upp balli og að lokum varð svo, en bassaleikarinn var að vísu fenginn sérstaklega að sunnan.  Ballið var auglýst, æfing á föstudegi og ball á laugardeginum, fullt af fólki og hörkustuð.  Gömul og góð rokklög báru uppi lagalistann, sem taldi rúmlega 20 lög, en nokkur ný slæddust með.  Eins og sjá má á hljóðfæraskipan var valinn maður í hverju rúmi, gítarleikari og bassaleikari úr hljómsveit Bubba Morthens MX21, trommuleikarinn úr þungarokkssveitinni Drýsli og annar söngvarinn og hljómborðsleikarinn úr Græna bílnum en hinn söngvarinn eilífðartöffari frá Siglufirði sem tryllti kvenfólkið á þessum þrumudansleik sem varð sá eini sem hljómsveitin lék á.

Hljóðfæraskipan:

Viðar Örn Ástvaldsson hljómborð.

Þorgeir Reynisson söngur.

Þorleifur Guðjónsson bassi.

Þorsteinn Magnússon gítar.

Þórarinn Hannesson söngur.

Vissi aldrei nafnið á trommuleikaranum.


Heimatilbúna hljómsveitin
Lionsklúbburinn á Bíldudal hélt dansleik í nóvember 1989 og smalað var saman í hljómsveit sem tók eina æfingu eða svo og lét svo slag standa, enda vanir menn á ferð.

Hljóðfæraskipan:

Bjarni Þór Sigurðsson gítar og bassi.

Gísli Ragnar Bjarnason gítar og bassi.

Ragnar Jónsson hljómborð.

Sverrir Garðarsson söngur.

Viðar Örn Ástvaldsson trommur.

Þórarinn Hannesson söngur.


Darlingarnir
Um áramótin 1991-1992 var sett saman ein hljómsveit úr tveimur, þ.e. úr Græna bílnum og Vesturförunum, til að leika og syngja á Áramótagleði á Bíldudal auk þess sem ýmsir gestasöngvarar og hljóðfæraleikarar stigu á stokk með sveitinni.  Lagalistinn var bræðingur af lögum sem þessar sveitir höfðu gjarnan leikið kryddaður með nokkrum nýjum lögum.  Lék sveitin aðeins á þessum eina dansleik.  Nafnið var fengið úr frasasafni Jóns Kr. Ólafssonar stórsöngvara frá Bíldudal.

Hljóðfæraskipan:

Bjarni Þór Sigurðsson gítar og söngur.

Gísli Ragnar Bjarnason gítar.

Helgi Hjálmtýsson bassi.

Viðar Örn Ástvaldsson hljómborð.

Víkingur Gunnarsson trommur.

Þórarinn Hannesson söngur.


Mínus einn
Félagarnir úr Græna bílnum léku undir þessu nafni nokkra dansleiki seinni part vetrar 1992 þegar Hjalti trommuleikari hafði flutt á mölina en hinir 4 sem eftir voru héldu sínu striki.  Hljóðfæraskipan breyttist nokkuð við þetta, lagalistann var krufinn til mergjar og á hann bætt mikið af eldri íslenskum lögum og m.a. herjað á þorrablótsmarkaðinn.

Hljóðfæraskipan:

Bjarni Þór Sigurðsson gítar og söngur.

Matthías Ágústsson bassi og raddir.

Viðar Örn Ástvaldsson trommur.

Þórarinn Hannesson söngur og gítar.


Bjórbandið
Körfuknattleiksdeild Harðar á Patreksfirði hélt bjórkvöld til fjáröflunar og almennrar upplyftingar í október 1992 og að sjálfsögðu var boðið upp á lifandi tónlist.  Þórarinn var búsettur á Paterksfirði þennan vetur og lék körfubolta með liði Harðar.  Hann varð meðlimur í hljómsveit kvöldsins sem tók eina eða tvær léttar æfingar í tilefni þessarar uppákomu.

Hljóðfæraskipan:

Aðalsteinn Júlíusson söngur.

Finnur Björnsson hljómborð.

Nunu Miquel Carilla trommur og söngur.

Símon ........ gítar og bassi.

Sævar Árnason bassi og gítar.

Þórarinn Hannesson söngur.


Bjórbandið II
Í apríl 1993 var aftur efnt til bjórkvölds á vegum körfuknattleiksdeildar Harðar á Patreksfirði og aftur mynduð hljómsveit sem var örlítið breytt frá fyrra skiptinu.

Hljóðfæraskipan:

Finnur Björnsson hljómborð.

Símon ....... gítar.

Svanur Jónasson bassi og trommur.

Sævar Árnason bassi.

Þórarinn Hannesson söngur.


Ættarbandið
Á ættarmóti í júlí 1998 komu þrír félagar og frændur úr Græna bílnum saman á sviði fyrir utan Baldurshaga á Bíldudal og héldu uppi stuðinu í nokkra klukkutíma með því að leika lög úr ýmsum áttum.  Höfðu þeir þá ekki leikið saman í tæplega 5 ár og réðu sér bara ekki fyrir spilagleði og almennri kátínu svo þeir gátu ekki hætt fyrr en um 70 lög lágu í valnum og komið var langt fram á nótt.

Hljóðfæraskipan:

Bjarni Þór Sigurðsson gítar og söngur.

Matthías Ágústsson bassi og söngur.

Þórarinn Hannesson söngur og tamborína.


Tóti og Kiddi
Þessir félagar léku saman sem dúett á öldurhúsum, einkum á Siglufirði, um tveggja ára skeið á árunum 2000-2002.  Ein hálftíma æfing var haldin fyrir fyrsta "giggið" árið 2000 og það látið duga.  Eftir það mætti Þórarinn á staðinn með sínar möppur, sem hann bætti nýjum lögum í eftir hendinni, opnaði þær, byrjaði að spila og syngja og Kiddi elti.  Vegna þessa fékk dúettinn nýtt nafn þegar frá leið.

Hljóðfæraskipan:

Kristinn Kristjánsson bassi og raddir.

Þórarinn Hannesson gítar og söngur.


Öl og elta
Þetta nafn fékk dúettinn Tóti og Kiddi á seinni stigum og þótti nokkuð lýsandi fyrir hann.  Einn, tveir bjórar og Kiddi elti síðan Þórarinn í spilamennskunni það sem eftir lifði kvölds.

 

TK plús
Það kom nokkrum sinnum fyrir að trommuleikari bættist í hópinn með þeim Tóta og Kidda og var það yfirleitt tvíburabróðir Kidda, Kristján Kristjánsson, en stundum Þorsteinn Sveinsson.  Fengu þessi tríó ýmis nöfn s.s. Tóti og tvíburarnir, Tóti og Kiddarnir, Þrír á palli o.fl.  Fyrir rest var þó nafnið TK plús notað þ.e. Tóti og Kiddi plús einhver.


Áramótaálfarnir
Þetta tríó lék tvö áramót í röð á Allanum á Siglufirði þ.e. árin 2001 og 2002.  Fyrra skiptið var brjálað fjör og leikið til rúmlega 7 um morguninn en öllu rólegra var ári seinna.  Trommarinn var ráðinn á gamlársdag þar sem upprunalegi trommarinn komst ekki á staðinn.

Hljóðfæraskipan:

Agnar Þór Sveinsson trommur.

Kristinn Kristjánsson bassi og raddir.

Þórarinn Hannesson gítar og söngur.


Hey í harðindum
Tríó sem sett var saman í tilefni að söng- og leikskemmtun sem fram fór í Allanum í desember 2002.  Tveir trúbadorar með möppurnar sínar eltu hvorn annan í gegnum söng og spil og trommarinn elti þá báða.  Gekk vonum framar en tríóið kom þó ekki oftar fram.

Hljóðfæraskipan:

Agnar Þór Sveinsson trommur.

Ómar Hlynsson gítar og söngur.

Þórarinn Hannesson gítar og söngur.


Tóti og ungarnir
Í desember 2003 fékk Þórarinn nokkra unga drengi úr tónlistarvali grunnskólans á Siglufirði til að leika með sér lög eftir hann á tónleikum sem hann hélt í æskulýðsheimili staðarins.  Þetta lukkaðist svo vel að áfram var haldið og kom þessi hljómsveit fram alls 12 sinnum við ýmis tækifæri fram til sumarsins 2004 og hafði þá um 15 lög á takteinum þar af 3 eftir Þórarinn. 

Hljóðfæraskipan:

Daníel Baldursson gítar.

Hjörtur Hjartarson bassi.

Jóhannes Einarsson gítar.

Valur Þór Hjálmarsson ásláttur.

Þórarinn Hannesson gítar og söngur.

Þórhallur Dúi Ingvarsson trommur.


Tóti og Danni (Tótmon og Dafunkel eða Svilabandið)
Árið 2006 hófu þeir Þórarinn og Daníel Pétur Daníelsson, söngvari og gítarleikari, samstarf.  Einbeittu þeir sér fyrst um sinn að lögum frá bítla- og hippaárunum og voru þá gjarnan nefndir Tótmon og Danfunkel eftir þeim félögum Simon og Garfunkel enda með nokkur lög frá þeim á prógramminu.  Komu þeir fram við ýmis tækifæri næstu árin og lagavalið varð smá saman fjölbreyttara auk þess sem þeir bættu við ásláttarhljóðfærum.  Léku þeir einnig gjarnan lög eftir Þórarin og kom Daníel oft fram með Þórarni á tónleikum hans. Komu fram við ýmis tækifæri til ársins 2013. Árið 2020 kom út saga samstarfs þeirra á bók sem varðveitt er m.a. á Bókasafni Fjallabyggðar á Siglufirði. Þórarin tók söguna saman og skreytti myndum frá ýmsum ljósmyndurum.
Hljóðfæraskipan:
Daníel Pétur Daníelsson gítar, söngur og ásláttur.
Þórarinn Hannesson gítar, söngur og ásláttur.

Tóti og Danni, ásamt Guito Thomas á mandolín, á tónleikum í Knappstaðakirkju 


Skyggni ágætt 
Þessi hljómsveit varð til um áramótin 2008-2009 og lék á sínum fyrsta dansleik á Allanum (áður Bíóinu) á Siglufirði þann 30. des. 2008.  Um borð voru ýmsir vanir menn og renndu þeir í 10 lög á fyrstu æfingunni og svo var haldið ball.  Í hljómsveitinni er ákveðinn kjarni en ýmsir fleiri koma við sögu.  Sveitin lék á öðrum dansleik sínum um páskana 2009.  Þetta er sannkallað stórhátíðaband.
Hljóðfæraskipan:
Ásgrímur Antonsson trommur og raddir.
Hilmar Elefssen gítar og raddir.
Sturlaugur Kristjánsson bassi og raddir.
Þórarinn Hannesson gítar,ásláttur og söngur.

Á fyrsta dansleik sveitarinnar komu þessir einnig fram:
Daníel Pétur Daníelsson gítar, ásláttur og söngur.
Guito Thomas gítar.
Kristinn Kristjánsson bassi.

Aðrar sveitir sem Þórarinn hefur stokkið upp á svið með og sungið nokkur lög:

 

Dolby - Hljómsveit frá Ísafirði

Bleikir fílar - Hljómsveit frá Flateyri

Miðaldamenn - Hljómsveit frá Siglufirði

Stjórnin - Þessi eina og sanna með Siggu og Grétari

Hellix - Unglingahljómsveit frá Siglufirði

Bingó - Hljómsveit frá Borgarnesi

Von - Hljómsveit frá Sauðárkróki

Heba - Unglingahljómsveit frá Siglufirði

Fjallabandalagið - Hljómsveit frá Siglufirði og Ólafsfirði

Stúlli og Dúi - Dúett frá Siglufirði
Tröllaskagahraðlestin - Hljómsveit frá Ólafsfirði

Buff - Hljómsveit úr Reykjavíkinni

Stúlli og Danni - Dúett frá Siglufirði

 

  

 

Flettingar í dag: 208
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 284
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 59562
Samtals gestir: 16430
Tölur uppfærðar: 17.7.2024 21:30:39