Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Íþróttaannálar 1981-´85

Að loknu jólafríi, og árið 1981 runnið upp, lá leiðin aftur í Reykholt þar sem tekin var upp fyrri íþróttaiðja og stundirnar í íþróttasal, velli og sundlaug voru fleiri en tölu á festir. Háð var annað bekkjarmót í körfuknattleik, sem fór á svipaða lund og það fyrra, og eins var keppt á milli landshluta, þar sem Vestfirðingar dreifðu kröftum sínum í tvö lið og báru nokkuð skarðan hlut frá borði. Haldið var annað mót í frjálsum íþróttum þar sem bekkur Þórarins hafnaði í 3. sæti að þessu sinni. Í bekkjamóti í blaki varð 2. sæti hlutskipti Þórarins og bekkjarfélaga. Í mars var hin árlega keppni við Héraðsskólann að Reykjum þreytt og fór hún fram að Reykjum þetta árið. Ríkti mikil tilhlökkun meðal nemenda fyrir þessa ferð og mikill hugur í fólki að gera sitt allra besta. Árangurinn lét ekki á sér standa því úrslitin í stigakeppninni urðu 69 stig gegn 36 Reykholti í vil. Þórarinn lagði hönd á plóginn með því að keppa í handbolta, blaki og innanhússfótbolta og stóð sig með ágætum. Á vorin þegar hlýnaði varð knattspyrnan íþrótt númer eitt í Reykholti og var þá m.a. háð hörkukeppni milli bekkja.

Í maí lá leiðin aftur heim. Bíldudalur heilsaði Þórarni með sinni einstöku veðurblíðu. Valdimar var aftur ráðinn þjálfari þetta sumar og sagði börnum til í frjálsum og fótbolta. Þórarinn tók frjálsu íþróttirnar föstum tökum en sá að mestu leyti um sig sjálfur. Spjótkast og hástökk voru þær greinar sem best virtust liggja fyrir honum og einbeitti hann sér nokkuð að þeim en stundaði einnig aðrar kast- og stökkgreinar. Aðstæður voru þó allar þær frumstæðustu en Þórarinn og Valdimar tóku sig til og steyptu bæði kúluvarps- og kringlukasthringa sem bætti aðstöðuna töluvert auk þess sem útbúin hafði verið stökkgryfja en stokkið var af grasi bæði í langstökki og hástökki og sömuleiðis var spjótinu kastað af grasi.

Bíldudalur. Mynd: Mats.

Bíldudalur á fallegum sumardegi

Þetta sumar tók Þórarinn þátt í sínu fyrsta Héraðsmóti í flokki 15-18 ára, er hann var á sautjánda ári, og má segja að hann hafi slegið í gegn. Hann bar sigur úr býtum í hástökki, þrístökki og spjótkasti og setti héraðsmet í öllum þeim greinum, varð annar í langstökki, 4. í 1.500m hlaupi en eitthvað neðar í kringlukasti.
Einnig var haldið Bíldudalsmót í frjálsum og þar sigraði Þórarinn í 4 greinum af 6 sem hann tók þátt í.

Þórarinn tekur við gullverðlaunum fyrir spjótkast á sínu fyrsta Héraðsmóti

Knattspyrnan var einnig stunduð af miklum móð og keppt við nágrannabæina að venju. Gengi ÍFB var ekki nógu gott á þessum árum til að vinna Héraðsmótið en leiknir voru hörkuleikir, sérstaklega við Tálknfirðinga sem voru alltaf þekktir fyrir að leika fast. Þórarinn var markahæsti maður liðsins þetta ár sem önnur.

Um haustið hóf Þórarinn þriðja og síðasta vetur sinn á Reykholti, þar sem ekki var boðið upp á lengra nám þar. Lét hann enn meira til sín taka í íþróttalífinu þar en áður og var valinn í öll helstu skólaliðin, en afþakkaði boð um sæti í sundúrvalinu þar sem sú íþrótt hafði aldrei höfðað neitt sérstaklega til hans. Löngu tímabæru viðhaldi íþróttasalarins var nú loksins sinnt sem þýddi að þar hófust æfingar og kennsla ekki fyrr en í byrjun nóvember, á meðan var kennt og æft á útivellinum. Þórarinn varð fyrir því óláni við knattspyrnuiðkun á haustdögum að eyðileggja í sér liðþófa í hné og átti það eftir að há honum nokkuð um veturinn. Bekkjarmótin fóru strax af stað og salurinn var klár en eitthvað var Þórarni og félögum í 6ÍU mislagðar hendur í körfuknattleiksmótinu því þeir höfnuðu í 4. sæti. Körfuknattleikslið skólans lék nokkra leiki og vann þá alla m.a. Hvanneyri, Borgarnes, Sauðárkrók og eldri nemendur. Bekkur Þórarins sigraði á bekkjarmótunum í frjálsum og sundi með miklum yfirburðum og átti Þórarinn sinn þátt í þeim sigrum.

Helstu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru eftirtaldir: langstökk 5.05m, þrístökk 11,16m, hástökk inni 1,70, hástökk úti 1,70, kringlukast 1,5 kg 28,25m, spjótkast 800 gr 44,50m, 100 metra hlaup 13,55 sek, 400m 1:09,0 mín, 800m 2:26,0mín.

 

Árið 1982 runnið upp og síðustu mánuðir Þórarins við Héraðsskólann í Reykholti framundan. Íþróttir, íþróttir, íþróttir daginn út og inn sem fyrr. Glæstir sigrar unnust m.a. í Borgarfjarðarmótinu í körfubolta sem fram fór í Varmalandi, í keppni við Reykjaskóla og í keppni við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki í hinum ýmsu greinum á Króknum. Bekkjarkeppnir í blaki, sundi og frjálsum unnust glæsilega af Þórarni og félögum og svo mætti áfram telja. Þetta var yndislegt líf fyrir íþróttaálfa. En hápunkturinn var eftir því í lok skólaársins var okkar maður kosinn íþróttamaður skólans þennan veturinn og þótti honum það mikill heiður þar sem mannvalið var mikið og gott. Líklega hefur fjölhæfni kappans þar haft nokkuð að segja. Þannig endaði vera Þórarins í Reykholti. Kvaddi hann staðinn með tárum og hugsaði æ síðan með miklu þakklæti aftur til þessara frábæru vetra sem hann átti þar.

Sumarið var gott á íþróttasviðinu og Þórarinn tryggði sér sess sem einn besti frjálsíþróttamaður héraðsins með því að setja 5 héraðsmet þetta sumarið og eitt Vestfjarðamet. Æfði hann vel og samviskusamlega á sínum eigin forsendum og voru stundirnar stundum einmannalegar á íþróttavellinum en ekki sá hann eftir einni mínútu þegar árangur æfinganna kom í ljós.

Héraðsmótið í frjálsum var í fyrsta sinn haldið á Barðaströnd og Þórarinn kunni vel við sig á Ströndinni. Hann setti héraðsmet í hástökki og spjótkasti og sigraði auk þess í kringlukasti. Hafnaði í 2. sæti í þrístökki og boðhlaupi með sveit ÍFB og í 3. sæti í öðrum greinum sem hann keppti í þ.e. langstökki, kúluvarpi, 400m og 1500m. Í kjölfarið á þessum góða árangri var Þórarinn valinn í fyrsta úrvalslið HHF sem tók þátt í bikarkeppni FRÍ. Félagið hóf að sjálfsögðu keppni í 3. deild og fór keppnin fram í Vík í Mýrdal. Keppti hann í hástökki og hafnaði í 2. sæti á nýju héraðsmeti 1.80 m, einnig keppti hann sem gestur í þrístökki og setti þar einnig héraðsmet.

Um haustið lá leiðin í borgina og hóf Þórarinn nám við Fjölbrautaskólann við Ármúla á íþróttabraut sem fyrr. Annar íþróttakennari skólans var Ólafur Unnsteinsson fyrrum frjálsíþróttakappi og sá hann um tíma fyrir UMFÍ í Baldurshaga, frjálsíþróttaaðstöðunni undir stúku Laugardalsvallar, og nýtti Þórarinn sér þá tíma til æfinga. Fyrir áeggjan Ólafs keppti Þórarinn á einu frjálsíþróttamóti þetta haust á Laugardalsvellinum en það var Kastmót ÍR. Þar kastaði hann 600 gr. spjótinu 55.24m sem mönn töldu líklegt að væri Vestfjarðamet en fékkst þó ekki staðfest. Hástökk var aukagrein á mótinu og þar bætti Þórarinn héraðsmetið í fjórða sinn með því að stökkva 1.81m.

Leikfimi og verkleg kennsla við íþróttabrautina fór fram í Laugardalshöllinni þar naut Þórarinn sín vel í hinum ýmsu greinum. Var hann valinn til að keppa með blakúrvali skólans þetta haust í keppni framhaldsskóla og var m.a. farið í eftirminnilega keppnisferð á Land Rover upp í Borgarfjörð. Sem fyrr var farið heim í heiðardalinn í jólafríinu og spriklað þar með gömlu félögunum.

Laugardalshöllinn þar sem Þórarinn átti góðar stundir

Helstu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru eftirtaldir: langstökk 5.64m, þrístökk 12.22m, hástökk inni 1,79, hástökk úti 1,81, kringlukast 1,5 kg 36.07m, spjótkast 600gr 55.24m 800 gr 48,50m, 100 metra hlaup 12.60 sek, 400m 1:04,0 mín, 800m 2:21,0mín, 1500m 5:12.6 mín.


Árið 1983 heilsaði með nýjum ævintýrum. Áfram var námið stundað við Fjölbrautaskólann við Ármúla og Þórarinn var duglegur að sækja æfingar í frjálsum á vegum UMFÍ í Baldurshaga. Keppti hann á Skólamóti FÁ, sigraði þar í hástökki og þrístökki og setti skólamet í báðum greinum en varð annar í langstökki. Leikfimin var sem fyrr í Laugardalshöll og þar kunni okkar maður vel við sig.

Sumarið var heldur betur viðburðarríkt á íþróttasviðinu. Þar ber fyrst að telja að í fyrsta sinn var knattspyrnulið frá Vestur-Barðarstrandarsýslu skráð til keppni í Íslandsmóti í knattspyrnu þegar ákveðið var að meistaraflokkur Hrafnaflóka tæki þátt í keppni 4. deildar. Var þar sem sagt um að ræða sameiginlegt lið Bílddælinga, Patreksfirðinga og Tálknfirðinga. Gengi liðsins var með ágætum framan af en síðan seig heldur á ógæfuhliðina og liðið endaði í 5. sæti síns riðils. Leikið var við önnur lið af Vestfjörðum sem og að sunnan. Þórarinn fór mikinn í markaskorun, skoraði 10 af 16 mörkum liðsins og var einn af markahæstu mönnum deildarinnar. Héraðsmótið í knattspyrnu fór fram í skugga deildarkeppninar og þar endaði ÍFB í 2. sæti. Þórarinn var fyrirliði og markahæstur.

Í frjálsíþróttunum var fjörið ekki minna og tvö héraðsmet sett. Á Héraðsmótinu sigraði Þórarinn í hástökki, spjótkasti og í boðhlaupi með sveit ÍFB, varð annar í kringkukasti og þrístökki og þriðji í langstökki. Á Meistaramóti HHF sigraði Þórarinn svo í hástökki og spjótkasti, þar sem hann setti nýtt héraðsmet og varð annar í þrístökki. Aftur var sent lið til þátttöku í 3. deild FRÍ og fór keppnin að þessu sinni fram á Sauðárkróki. Þórarinn keppti í hástökki og spjótkasti. Í hástökki féll enn eitt hérðasmetið og dugði það til silfurverðlauna en spjótið sveif ekki eins langt og áður og varð Þórarinn að gera sér bronsið að góðu.

Um haustið lá leiðin aftur í skólann við Ármúla og var Þórarinn valinn í skólaliðin í körfubolta og blaki. Báðum liðum gekk ágætlega og höfðu þau innanborðs framtíðarlandsliðsmenn í þessum greinum. Körfuknattleiksliðið lék t.a.m. 7 leiki og vann 5 þeirra. Þórarinn stundaði einnig frjálsar áfram og keppti á Skólamóti FÁ með góðum árangri. Þar setti hann aftur skólamet í hástökki og sigraði einnig í þrístökki en varð annar í langstökki.

Helstu árangrar í frjálsum árið 1983 voru þessir: Hástökk inni 1.86m úti 1.87, langstökk inni 5.98m úti 5.89, þrístökk inni 12.81m úti 12.45, spjótkast 50,55m, kringlukast 30.81m, kúluvarp 8.87m (fullorðinsþyngdir í köstum) 100m hlaup 12.8 sek, 400m 1:02.mín og 800m 2:20 mín.


Árið 1984 rann upp og æviár Þórarins nú að fylla annan tuginn. Sem fyrr eru íþróttirnar stór þáttur í lífi þessa unga manns. Stúdentspróf af íþróttabraut við Fjölbrautaskólann við Ármúla í sjónmáli og stefnan tekin á frekara nám í íþróttafræðum á Laugarvatni með haustinu. Ekki var mikið um þátttöku í mótum síðustu mánuðina í Ármúlanum, aðeins leiknir nokkrir leikir í körfunni með skólaliðinu en engin frjálsíþróttamót.

Þórarinn tók að sér þjálfun í fyrsta sinn þetta sumar er hann réð sig sem þjálfari hjá Íþróttafélagi Bílddælinga. Þjálfaði hann frjálsar og knattspyrnu auk þess að vera með leikjanámskeið fyrir yngstu iðkendurna. Sem fyrr var leikið með meistaraflokk í Héraðsmótinu í knattspyrnu og endaði ÍFB þar í öðru sæti sem svo oft áður og skoraði Þórarinn flest mörk liðsins, 12 mörk í 7 leikjum.

Keppt var á tveimur mótum í frjálsum íþróttum en engin hérðasmet sett þetta árið. Þórarinn sigraði í sínum greinum, hástökki og spjótkasti, á héraðsmótinu. Varð annar í þrístökki og boðhlaupi, með sveit ÍFB og þriðji í kringlukasti, langstökki og 1500m hlaupi. Hitt mótið var hið árlega Meistaramót Hrafnaflóka og þar sigraði Þórarinn í þeim þremur greinum sem hann tók þátt hástökki, þrístökki og spjótkasti.

Um haustið var svo haldið á Laugarvatn til náms við Íþróttakennaraskóla Íslands og þar var nóg við að vera fyrir íþróttaálfa. Það voru ófáar verklegar stundirnar í náminu á íþróttavellinum eða í íþróttasalnum og lærði Þórarinn margt gott og gagnlegt af kennurum sem samnemendum þetta haust. Fljótlega var farið að velja hverjir skildu keppa fyrir skólans hönd í framhaldsskólamótum og var Þórarinn valinn í þrjú af fjórum skólaliðum þ.e. í körfubolta, fótbolta og blakliðið. Margir frambærilegir knattspyrnumenn úr liðum efstu deildar voru við skólann t.d. frá Keflavík, Víkingum, Leiftri og fleiri liðum enda fór það svo að skólaliðið náði silfrinu í framhaldsskólamótinu. Átti Þórarinn ekki fast sæti í liðinu en kom inná sem varamaður í nokkrum leikjum. Í körfunni voru einnig þekktir leikmenn en þar var okkar maður fastamaður í liðinu og mikilvægur hlekkur.

Hérðasskólinn á Laugarvatni

Mikið körfuknattleikslíf var í kringum Laugarvatn og kepptu Laugdælir í 1. deild Íslandsmótsins. Þórarinn átti sæti í liðinu sem var að mestu skipað ungum drengjum og áttu þeir við ramman reip að draga í keppni við Keflavík, Grindavík og fleiri tilvonandi stórveldi í körfuboltanum. Á vegum héraðssambandsins HSK fóru fram nokkur mót á svæðinu. Þórarinn keppti með B-liði Laugdæla í þessum mótum og vakti fljótt athygli fyrir stigaskorun og skemmtileg tilþrif. Þórarinn keppti einnig með skólaliðinu í framhaldsskólakeppninni en það datt fljótlega úr leik.

Bestu árangrar Þórarins í frjálsum árið 1984 voru þessir: Hástökk inni 1.85m úti 1.82, langstökk úti 5.73m, þrístökk úti 13.00m, spjótkast 51.10m, kringlukast 31.10m, kúluvarp 10.08m, 100m hlaup 12.7sek og 400m 1:02.2mín.


Árið 1985 hófst eins og öll önnur ár í lífi Þórarins heima á Bíldudal en þar dvaldi hann yfir hátíðarnar eins og ávallt hingað til. Þar hitti hann félagana sem fjölmenntu heim úr skólunum og þá var gjarnan brugðið á leik í félagsheimilinu í blaki eða körfu.

Á Laugarvatni var áfram mikið líf og fjör. Körfuboltinn var aðalíþrótt Þórarins á þessum tíma og lék hann með Laugdælum í 1. deild en Laugdælum B í 12 liða Héraðsmóti sem haldið var í héraðinu af HSK. Liði Laugdæla gekk lítið í 1. deildinni, endaði í 7. sæti deildarinnar og féll. En B lið Laugdæla vann aftur á móti Héraðsmótið og var Þórarinn stigahæsti leikmaður liðsins. Lið Íþróttakennaraskólans í blaki tók þátt í Héraðsmóti HSK í þeirri grein og endaði í 2. sæti. Þótti Þórarinn öflugur smassari og skoraði ófá stigin fyrir liðið. Þórarinn bætti sig töluvert sem íþróttamaður þennan vetur og var í fínu formi að loknum góðum vetri.

Um sumarið þjálfaði Þórarinn aftur vestur á Bíldudal bæði knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Sem fyrr var leikið í Héraðsmótinu í knattspyrnu og sem fyrr varð 2. sætið hlutskipti Bílddælinga. Þórarinn var samkvæmt venju markahæstur. Á Héraðsmótinu í frjálsum, sem haldið var á nýjum velli á Patreksfirði, vannst sigur í hástökki, þrístökki, kúluvarpi og 400m. Annað sæti var hlutskiptið í langstökki, kringlu, spjóti og boðhlaupi og þriðja sætið í 100m og 1500m. Sem sagt verðlaun í öllum greinum en keppendur voru 6-10 í hverri grein í karlaflokki á þessum árum. Engin met voru þó sett á þessu móti en þau komu á Meistaramótinu skömmu seinna þegar Þórarinn sigraði í hástökki, þrístökki og spjótkasti. Körfuknattleiksiðkunin um veturinn hafði skilað sér í auknum stökkkrafti og Þórarinn bætti hérðaðsmetið í 1.86m í hástökkinu og setti einnig héraðsmet í spjótkasti með kasti uppá 52.14m.

Um haustið lá leiðin aftur á Laugarvatn og tekin var upp fyrri iðja við nám, iðkun körfuknattleiks og fleiri íþrótta. Sett var saman harðsnúið lið HSK í körfubolta sem var skráð til leiks í 2. deildina og þar lék Þórarinn stórt hlutverk í skyttustöðu. Einnig lék hann með liði Laugdæla í Bikarkeppni HSK og í Hraðmóti HSK þar sem Laugdælir stóðu uppi sem sigurvegarar í báðum mótum. Í lok árs var Þórarinn kjörinn körfuknattleiksmaður HSK fyrir árið 1985 og þótti honum mikill heiður að þeim titli.

Lið skólans í knattspyrnu tók aftur þátt í framhaldsskólamótinu og með sama árangri og árið áður þ.e. endaði í 2. sæti eftir tap í úrslitaleik gegn liði Háskóla Íslands. Þar var hlutverk Þórarins nokkuð stærra en árið áður því nú lék hann í nýrri stöðu og kannski ekki þeirri líklegustu því hann stóð í markinu í öllum leikjum og stóð sig með prýði.

Þórarinn keppti sem gestur á einu frjálsíþróttamóti á Laugarvatni og sigraði þar í hástökki. Í skólanum var ekki slegið slöku við og æfingar stundaðar í hinum ýmsu greinum. M.a. voru nemendur svo heppnir að fá reglulega í heimsókn Jónas Tryggvason, landsliðsþjálfara í fimleikum, sem tók liðið í gegn. Þar fékkst fyrsta flokks styrktarþjálfun sem skilaði sér í framhaldinu, a.m.k. hjá Þórarni eins og lesa má um í næstu annálum. Nokkuð var farið í frjálsar íþróttir þetta haustið og þar bætti Þórarinn sig stórlega í hástökki er hann sveif yfir 1.93m.

Bestu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru: Hástökk inni 1.93 úti 1.86, langstökk 5.72m, þrístökk 12.85, kringlukast 32,55m, kúluvarp 11,09m, spjótkast 52,25m, 100m 12,8sek, 400m 1:01,3mín og 1500m 5:21,2mín.

Flettingar í dag: 139
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 284
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 59493
Samtals gestir: 16426
Tölur uppfærðar: 17.7.2024 20:48:15