Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

19.04.2007 15:56

Gleðilegt sumar, upptökur, nýtt lag og meiri lestur

Gleðilegt sumar allir saman og við skulum vona að veðurguðirnir verði í sólskinsskapi þetta sumarið.  Enn einn frídagurinn í dag, þetta er ljúft.

Jæja, þá eru upptökumál vegna barnadisksins komin á hreint í grófum dráttum.  Búinn að fá leyfi til að nota textana og Maggi komin af stað í að útsetja.  Við ákváðum að hafa þetta allt einfalt í smíðum og sem mest órafmagnað og helst að fá nokkra krakka til að syngja eitthvað af þessum lögum inn með mér.  Maður skellir sér í austurbæinn (Ólafsfjörð) fljótlega og skoðar þetta með Magga annars notum við tæknina mikið við þetta og sendum hugmyndir á milli tölvuapparata.

Eins og kemur fram í nýjustu fréttinni hjá mér samdi ég lokalagið á þennan disk í gær.  Það kom hratt og örugglega, ég settist niður með gítarinn með textann fyrir framan mig og sló C-hljóminn og lagalínan kom svona í megindráttum í framhaldi.  Einfalt þriggja hljóma lag C-F-G var niðurstaðan 10 mínútum seinna eða svo, þau þurfa ekki alttaf að vera flókin til að virka.

Var við opnun kosningaskrifstofunnar hjá okkur Sjálfstæðismönnum hér á Siglufirði í gær og heyrði í frambjóðendum okkar.  Kraftur og hæfileg bjartsýni ríkjandi í hópnum og fólk tilbúið að leggjast á árarnar.

Hef verið duglegur, kannski aðeins of, við lesturinn að undanförnu.  Kláraði Líffærameistarann eftir Federicho Andahazi í gær og byrjaði síðan á Gamli maðurinn og hafið eftir Hemingway uppúr miðnætti og lét hana ekki frá mér fyrr en ég hafði lokið henni, um klukkan 2.30.  Ævisaga leikkonunnar Ingrid Bergman er nú komin á náttborðið.

Annars er mikið um að vera í gleði og sorg í dag.  Í kvöld verður kistulagning afa hennar Stínu minnar og jarðarförin er á morgun.  Þar kveðjum við góðan mann.  Vestur á Bíldudal ætlar bróðir minn Elfar Logi að frumsýna nýjan einleik sem hann hefur samið í samstarfi við Pétur Eggertz úr Möguleikhúsinu sem leikstýrir.  Ber einleikurinn nafnið Skrímsli og er hann m.a. tilkominn vegna aðkomu okkar bræðra að undirbúningi Skrímslaseturs á Bíldudal sem vonandi kemst á koppinn í sumar.  En fyrir þá sem ekki vita er Arnarfjörður þekktasti skrímslafjörður landsins því þaðan koma flestar sagnir af sjóskrímslum og ýmsum kvikindum.  Það verður gaman að sjá þetta stykki.  Tu, tu Logi. 
 
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 45
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 71167
Samtals gestir: 19122
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 02:52:45