Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

05.05.2007 22:35

Blakmót, demo, heiður o.fl. o.fl.

Jæja, langt síðan síðast.  Það hefur verið svo mikið um að vera þessa viku að maður hefur varla haft tíma til að setjast niður og setja einhverjar línur á blað.  Lítum á það helsta:
Skellti mér á Íslandsmót öldunga í blaki með félögum mínum úr stórliði Hyrnunnar.  Við fórum með tvö lið annað keppti í svokölluðum öðlingaflokki þar sem sæti eiga keppendur yfir 50 ára aldri og hitt í 3. deild (af 4) og náðu bæði lið þeim stórgóða árangri að enda í 3. sæti.  Einnig fóru tvö kvennalið frá Sigló en þeim gekk ekki eins vel.  Mótið fór fram í Garðabæ að þessu sinni og fórum við svilarnir, ég og Daníel, saman á bíl suður.  Ég gisti hjá Birnu systur í Gautlandinu sem verður myndarlegri með hverri vikunni sem líður enda komin tæpa 8 mánuði á leið með sitt fyrsta barn.
Hitti fullt af gömlum félögum héðan og þaðan á mótinu, skólafélaga og kennara úr Reykholti og frá Laugarvatni, Bílddælinga, Tálknfirðinga, félaga úr kennarastéttinni o.fl.

Í borginni var tíminn nýttur vel.  Átti góðar stundir með dætrum mínum og prinsessunum Ronju og Hafrúnu, algjörar rúsínur, og tilfinningin að vera afi verður bara betri og betri.  Það er munur að vera svona ríkur.

Heimsótti félaga minn Bjarna Þór og tók upp demo af nokkrum lögum fyrir væntanlegan disk Græna bílsins.  Hann ætlar svo að koma þeim á disk og láta aðra meðlimi hljómsveitarinnar fá til hlustunar.  Það verður gaman að heyra viðbrögðin hjá þeim og spennandi að sjá hvaða lög verða fyrir valinu á diskinn.

Komum heim undir miðnætti á mánudagskvöldið, nokkuð lúnir eftir þriggja daga at.  Það var rólegt yfir hátíðahöldum á 1.maí svo veðurblíðan var nýtt í vorverkin í garðinum.  Undum okkur þar hjónin í eina 5-6 tíma með einni góðri íspásu á bensínstöðinni.

Síðan tók vinnan við á miðvikudag og þar er alltaf í nógu að snúast.  Á fimmtudeginum varð frumburðurinn 24 ára, ótrúlegt en satt.  Ég renndi yfir Láheiðina að lokinni kennslu og tók upp demo hjá Magga af þremur síðustu lögunum um dyggðirnar og fundaði með Magga og Ástu í símasölufyrirtækinu um framkvæmdina á útgáfunni og sölunni.

Föstudagurinn var svo þéttsetinn af viðburðum.  Að lokinni kennslu var farið í íþróttahúsið þar sem við vorum með frjálsíþróttamót á síðustu æfingu vetrarins.  Þar bættu nokkrir árangra sína.  Eftir mótið var haldið á Pizza 67 þar sem mér var veittur sá heiður að vera valinn Maður mánaðarins af Kaupmannasamtökum Siglufjarðar vegna starfa minna í íþróttalífinu, þá sérstaklega vegna starfseminnar hjá Glóa, í tónlistarlífinu, fyrir ritstörf o.fl.  Var ég mjög ánægður og stoltur af þessari viðurkenningu og þá ekki síst fyrir mitt félag Umf. Glóa sem hefur haldið uppi öflugu íþrótta- og menningarstarfi allt frá stofnun þess árið 1994.  Lít ég á þetta sem hvatningu til að halda áfram á sömu braut.  Eftir afhendinguna lá leiðin upp í skíðaskála þar sem bæjarfulltrúar gerðu sér glaðan dag ásamt mökum sínum.  Fyrst var farið með troðaranum í útsýnisferð allt upp að Bungu, en vegna þoku var ekki hægt að fara lengra, síðan skíðuðu nokkrir niður þaðan í frábæru færi, m.a. ég og skíðadrottningin konan mín.  Þá var sest að snæðingi, farið í hópeflisleiki sem vöktu mikla lukku og svo sungið, en ég var vinsamlegast beðinn að hafa gítarinn með og var hann vel nýttur.  Lukkaðist kvöldið afskaplega vel og hristi liðið vel saman.

Laugardagurinn var síðan í rólegri kantinum eftir þetta allt saman.  Þó var síðasti tíminn í Íþróttaskólanum um morguninn, svo vann ég við síðuna, sinnti heimilisstörfunum og svona eitt og annað smálegt.  Hefði þó viljað vera á leiðinni vestur því í dag varð Matti vinur minn 40 ára og það hefði sko svo sannarlega verið gaman að geta glaðst með honum, öðrum Græna bíls meðlimum og vinum í kvöld í félagsheimilinu á Patró.  En það gekk því miður ekki upp í þetta sinn, en andinn er hjá mínum góða vini á þessari stundu.  Góða skemmtun félagar.
Flettingar í dag: 314
Gestir í dag: 139
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96477
Samtals gestir: 24476
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 06:02:09