Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

15.05.2007 12:12

Fyrsti upptökudagur, æsileg kosninganótt og fleira skemmtilegt

Jæja, þá er Eurovision æðið úti í bili.  Þetta fór eins og mann grunaði, Eiki átti ekki séns í austublokkina þó hann hafi staðið sig vel.  En það verður ekki tekið frá þeim þarna fyrir austan að þeir eiga úrvals listamenn þ.á.m. fína söngvara.  En það þarf einhvernveginn að enduskoða þetta svo áhuginn verði áfram fyrir hendi hérna vestan megin.

Fyrsti upptökudagur/nótt á nýja diskinum var aðfararnótt laugardags.  Við hittumst í Ólafsfirði hjá Magga og tókum upp allar trommur og bassa, kláruðum um kl. 3.30 um nóttina.  Þetta gekk mjög vel, 13 lög á um 6 tímum, geri aðrir betur.  Svo er Maggi núna á fullu að setja inn gítara og fleira og ég fer svo á fimmtudaginn og syngi yfir sem mest.

Íþróttaæfingar vetrarins eru nú hættar og það er gott að fá smá pásu frá þeim.  Við vorum með lokahóf hjá frjálsíþróttahópnum á Bíóinu, spjölluðum saman, fengum okkur pizzu og svona.

Laugardagurinn var ansi þéttsetinn.  Stórsýningardagur hjá okkur í skólanum þar sem nemendur sýndu afrakstur vetrarins í tali, tónum og munum.  Heppnaðist alveg frábærlega á fjórða hundrað gestir og krarkkarnir eins og englar.  Skólinn alveg glæsilegur, verk um allt og líf og fjör í öllum stofum.  Að sýningu lokinni var farið og kosið, og kosið rétt nema hvað.  Svo var kosningakaffi og Eurovision og svo þessi æsilega kosninganótt sem endaði svona líka vel.  Ég vakti nú ekki nema til 3.30 þar sem ég sá fram á að línur mundu ekki skýrast endanlega fyrr en undir morgun .  Lokaniðurstaðan var aldeilis glæsileg, stjórnin hélt velli og við bættum við okkur þremur þingmönnum, glæsilegt.
Flettingar í dag: 5
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 45
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 71159
Samtals gestir: 19118
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 02:15:28