Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

22.06.2024 15:08

Íþróttir og tónlist

Löngum hafa íþróttir og tónlist spilað stórar rullur í mínu lífi og stundum togast á. Þar sem ég hef nú lagt keppnisíþróttirnar á hilluna þá er ekkert um árekstra á þessum sviðum lengur og hægt að einbeita sér meira að tónlistinni. Helstu afskipti af íþróttum eru nú í þjálfun og að stýra Ungmennafélaginu Glóa sem starfar á Siglufirði og í ár eru einmitt 30 ár frá því að við stofnuðum það. Á dögunum vorum við með okkar árlega 17. júní hlaup og í næstu viku stýri ég fyrri Ævintýraviku sumarsins hjá félaginu. Á fyrri myndinni sem fylgir er ég einmitt í hópi kátra krakka sem ég var að þjálfa í fyrra í íþróttaskóla Umf Glóa.

Eitt og annað er svo framundan í tónlistinni m.a. erum við Stulli, Sturlaugur Kristjánsson, bókaðir á nokkrum stöðum næstu vikurnar, ég mun koma fram með gítarinn á Ljóðasetrinu nokkrum sinnum í sumar og gítarinn verður einnig á lofti í ljóðaverkefni sem ég er að skipuleggja á Vestfjörðunum. Auk þess hefur verið óskað eftir mér suður að leika mín lög á listahátíð í Kópavogi og svo er náttúrulega alltaf hugmyndin að fara að taka meira upp af mínu efni. Já, þetta tínist til. Neðri mynd: Stulli og Tóti að spila við Segul 67 sumarið 2023. 

 
 

 

Flettingar í dag: 5
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 45
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 71159
Samtals gestir: 19118
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 02:15:28