03.07.2024 13:08
Nóg að gera í ljóðheimum
Eins og einhverjir vita stofnaði ég og rek Ljóðasetur Íslands sem staðsett er á Siglufirði. Þar er oft líf og fjör og í morgun fengum við aldeilis góða heimsókn þegar elsti árgangurinn af leikskólanum Leikskálum kom í heimsókn með kennurum sínum. Börnin fengu kynningu á setrinu og ljóðlistinni auk þess að hlýða á nokkur ljóð og lög. Svo sungu börnin að sjálfsögðu fyrir forstöðumanninn áður en tekin var mynd af hópnum í himinháu bókahillunum sem geyma þúsundir ljóðabóka. Skemmtileg heimsókn.
Í dag verður svo rennt vestur á firði í verkefnið Þorpin þrjú sem Ljóðasetrið stendur fyrir á sunnanverðum Vestfjörðum í tilefni sameiningarinnar þar. Þar mun ég flytja ljóð mín um æskuslóðirnar fyrir vestan og lög mín við ljóð Jóns úr Vör úr bókinni Þorpið. Með mér verður Tálknfirðingurinn Ólafur Sveinn Jóhannesson og Birta Ósmann nýkjörinn bæjarlistamaður Vesturbyggðar, munu þau flytja sín ljóð. Viðburðirnir verða þrír: einn í hverju þorpi: Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, eins og sjá má í færslunni hér að neðan. Vesturbyggð veitti Ljóðasetrinu styrk vegna verkefnisins.
Síðan er verið að setja saman viðburðardagskrá fyrir næstu vikur á setrinu og birtist hún fljótlega á fésbókarsíðu Ljóðasetursins.