Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

08.07.2024 10:05

Frábær ferð á Vestfirði

Hún lukkaðist ljómandi vel upplestrar- og tónlistarferðin á Vestfirðina á dögunum. Bjó til dagskrá sem ég kallaði Þorpin þrjú og fékk til liðs við mig Ólaf Svein Jóhannesson, skáld frá Tálknafirði, og Birtu Ósmann, listakonu á Patreksfirði, sem er nýkjörin bæjarlistamaður Fjallabyggðar. Hvert okkar flutti sín ljóð, auk ljóða Jóns úr Vör, og svo söng ég og spilaði eigin lög við ljóð skáldanna. Inn á milli var svo sagt frá tilurð ljóðanna og rifjaðar upp skemmtilegar sögur frá uppvaxtarárum okkar Ólafs fyrir vestan. Fluttum dagskrána í þorpunum þremur; Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal á fimmtudag og föstudag, var skemmtileg og notaleg stemning á þeim öllum og aðsókn með ágætum. Vesturbyggð styrkti verkefnið og eru sveitarfélaginu færðar kærar þakkir fyrir. 

Á leiðinni norður á laugardeginum var stoppað í Skagafirðinum og sungið með honum Stulla á dansleik eitthvað inn í nóttina í stórafmæli í Miðgarði. Þar var heilmikið stuð eins og lög gera ráð fyrir. Það var ljúft að leggjast á koddann og hvíla raddböndin þegar komið var heim á Sigló um miðja nótt. 

Myndin er tekin að loknum upplestri okkar í Dunhaga í Tálknafirði. Skemmtilegt upplestrarrými og frábær matsölustaður. 

 

   

Flettingar í dag: 14
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 39
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 71273
Samtals gestir: 19170
Tölur uppfærðar: 21.9.2024 01:48:44