Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

21.07.2024 18:07

Síldarævintýrið á Siglufirði 2024

Ég átti frumkvæðið að þvi að setja Síldarævintýrið á Siglufirði af stað aftur árið 2019, eftir tveggja ára hlé, og hef verið í þriggja manna stýrihópi ævintýrisins síðan. Framkvæmdin var þó með nýjum hætti, í ljósi breytinga sem orðið hafa á Siglufirði síðustu ár. Lagt upp með að virkja bæjarbúa meira en áður með hverfisskreytingum og hverfisgrillum og að dagskráin væri borin upp af heimafólki í minni viðburðum vítt og breitt um bæinn. Markmið hátíðarinnar að kynna það sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða í menningu, mat og drykk, veita bæjarbúum tækifæri til að eiga góðar stundir saman, að ógleymdu stórfenglegu umhverfi og sögunni sem er við hvert fótmál. Vel tókst til árið 2019 en svo tóku Covid árin við og settu svip sinn á framkvæmdina. Í fyrra var loks hægt að blása til sóknar á ný og héldum við glæsilegt og vel heppnað Síldarævintýri. 

Í ár verður bætt í í tilefni þess að þetta er þrítugasta Síldarævintýrið sem haldið er. Sem fyrr er öll barnadagskrá ókeypis, heimafólk er í aðalhlutverki í tónlistarflutningi og annarri skemmtun og söfn og setur bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Auk þess verður sameiginleg grillveisla bæjarbúa, hverfaskreytingar, bjórleikar, síldarball, froðufjör, hoppukastalar, fjöldasöngur, flugeldasýning og margt, margt fleira eins og sjá má í dagskránni sem hér fylgir með. Upplagt að kíkja á Siglufjörð um verslunarmannahelgina og njóta. 

 
Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96181
Samtals gestir: 24342
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 02:34:48