Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

12.08.2024 09:56

Rúmlega 100 sinnum á Síldarævintýri

Þrítugasta Síldarævintýrið á Siglufirði - Það tuttugasta sem ég kem fram á

Hátíðin Síldarævintýrið var haldin í fyrsta sinn 1991 og í þrítugasta sinn nú um sl. verslunarmannahelgi, þar sem nokkur ár hafa dottið út m.a. vegna Covid. Frá því að ég flutti til Siglufjarðar haustið 1993 höfum við fylgst nokkuð þétt að, ég og Síldarævintýrið. Kom fyrst fram á hátíðinni árið 1994 en svo eignuðumst við Stína Videoval og næstu árin stóð maður bak við búðarborðið og seldi hátíðargestum ýmsar veitingar.

Það var svo árið 2001 sem ég kom fram næst á Síldarævintýri og hef komið fram á svo til öllum þeirra síðan og þetta nýliðna var það tuttugasta. Telst mér til að alls hafi ég komið fram rúmlega 100 sinnum á þessari hátíð, þ.e. að meðaltali um 5 sinnum á hverju þeirra!

Þessar framkomur hafa verið fjölbreyttar; oftast á sviði í miðbænum en einnig á skemmtistöðum, söfnum og setrum. Oft einn með gítarinn en einnig með sönghópnum Gómum í Síldarminjasafninu sem og á sviði og með ýmsum öðrum spilafélögum víða um miðbæinn.

Eftir að ég opnaði Ljóðasetrið hef ég verið með fjölda viðburða þar á Síldarævintýri og einnig samdi ég leikþátt sem ég sýndi í Bátahúsi Síldarminjasafnsins auk þess sem ég hefi komið fram á Þjóðlagasetrinu, á Kaffi Rauðku og við Segul 67 svo eitthvað sé nefnt.

En þá er ekki allt talið í samneyti mínu og þessa ævintýris sem kennt er við síldina. Ég var t.d. kynnir á tveimur hátíðum og stýrði auk þess söngvakeppni barna a.m.k. tvisvar sinnum, en hún var fastur liður á hátíðinni hér áður.

Þegar Síldarævintýrið missti svo flugið um 2017 þá átti ég frumkvæði að því að koma því aftur í gang árið 2019 og hef verið í stýrihópi þeim sem hefur haldið Síldarævintýrið síðan.

Þessi samfylgd hefur verið skemmtileg en sannarlega útheimt mikla vinnu og ekki síður mikla þolinmæði frá mínum nánustu. Launin hafa aðallega verið ánægjan af því að taka þátt og skapa líf og fjör í bænum okkar.

 
 
Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96181
Samtals gestir: 24342
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 02:34:48