Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

29.08.2024 17:46

Tólfta starfsárið mitt við MTR hafið

Haustið 2013 hóf ég störf sem kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga og er óhætt að segja að þessi rúmi áratugur sem liðinn er síðan hafi verið viðburðaríkur í starfi. Skólinn er sérlega framsækinn og starfið þar einstaklega blómlegt. Ég get fullyrt að þar fá kennarar að nýta og þróa sína hæfileika og hæfni í starfi með stöðugri símenntun og framþróun hvort sem er í kennslufræðum eða tækninýjungum. Ef þið komið í skólann getið þið t.d. búist við því að mæta vélmennum á göngum hans en þar eru innanborðs kennarar skólans sem búsettir eru erlendis eða í öðrum landshlutum og þeir sinna kennslu sinni að hluta gegnum þessi tæki. Fjarnám við skólann hefur verið sérlega vinsælt og hafa fjarnemar verið um 500 talsins á hverri önn undanfarin ár.

Ég er þannig gerður að ég vil vera með mörg járn í eldinum, hef ýmis áhugamál og get jafnvel sagt að mér sem ýmislegt til lista lagt og hef fengið að njóta þeirra kosta minna við skólann. Ég hef t.d. kennt 44 mismunandi áfanga við skólann á þessum rúma áratug og búið til um 3/4 þeirra. Megnið af þeim eru áfangar á sviði íslensku og íþrótta en einnig mjög skemmtilegir áfangar eins og t.d. saga kvikmyndalistarinnar og saga rokktónlistar að ógleymdum áfanga helguðum ljóðagerð. Einnig hef ég kennt áfanga í frumkvöðlafræði, fjármálalæsi, íþróttasálarfræði og þjóðfræði svo eitthvað sé nefnt. Auk þess hef ég fengið að sjá um menningarmál í skólanum; sett upp ýmiskonar listsýningar og skipulagt viðburði, stýri verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli við skólann og s.l. haust tók ég við sem fréttaritari skólans og rita fréttir á heimasíðu hans.

Það sem er samt mest heillandi við kennarastarfið er að fá að starfa með öllu þessu unga efnilega fólki, og fólki á öðrum aldri líka, sem er að þroskast og finna sína leið út í lífið, er að finna leiðir til að leysa þau verkefni sem liggja fyrir, leita lausna, skoða hlutina frá ýmsum hliðum og uppgötva sína styrkleika. 

Þá er aðeins eitt ótalið; sá ótrúlegi starfsmannahópur sem starfar við MTR. Þetta lærdómssamfélag þar sem allir eru tilbúnir að aðstoða, segja til og leiðbeina, þar sem maður lærir eitthvað nýtt á hverjum degi og getur ekkert dvalið í torfkofanum sínum með sömu gömlu verkfærin og áður. Auk þess er þetta vinnustaður þar sem fólk stendur saman, hlúir að hvert öðru, hrósar og ræðir málin af hreinskilni og heilindum. Það eru forréttindi að vinna á slíkum stað. 

 

 

Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 45
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 71167
Samtals gestir: 19122
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 02:52:45