Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

10.03.2025 10:39

Tíminn flýgur og nóg fyrir stafni

Já, tíminn flýgur áfram, manni finnst árið bara rétt byrjað en samt er það komið vel á þriðja mánuð. Það hefur verið nóg að gera á ýmsum vígstöðum. Sem betur fer náðust samningar varðandi kjarasamninga kennara svo maður getur haldið sínu striki á vinnustaðnum góða; Menntaskólanum á Tröllaskaga þar sem ég kenni íslensku og náttúrusögu á þessari önn auk þess að vera sérlegur menningarfulltrúi skólans, sjá um verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli og skrifa fréttir á heimasíðu hans. Skólinn hlaut á dögunum viðurkenningu sem Fyrirmyndarstofnun og hefur nú í rúman áratug verið meðal 10 efstu stofnana af sinni stærð enda starfsandi einstaklega góður og hvetjandi.

Í tónlistinni hefur allt verið á blússandi siglingu. Búinn að koma fram 13 sinnum á þessu ári, oftast með Sturlaugi Kristjánssyni, honum Stulla. Spiluðum m.a. fyrir dansi á 6 þorrablótum og sáum einnig um fjöldasöng á flestum þeirra auk þess sem við spiluðum á balli á Akureyri og fl. Svo hefur maður eitthvað komið fram einn með gítarinn. Nóg framundan í þessum efnum; fleiri dansleikir með Stulla, erum komnir með bókanir eitthvað fram á næsta ár, svo eru það tónleikar með Karlakór Fjallabyggðar eftir páska og ekki má gleyma að það á að skella sér í að taka upp 2 lög eða svo, fyrstu drög að því vonandi í þessari viku.

Ritstörfin hafa ekki gleymst, endalaust verið í fréttaskrifum á ýmsar fésbókarsíður verkefna sem ég tengist auk heimasíðu skólans og héraðsfréttablaðsins Hellunnar. Svo er verið að ljúka við að skrá síðustu siglfirsku gamansögurnar í hefti númer 8 í ritröðinni 50 gamansögur frá Siglufirði. Sögurnar því að verða 400 talsins í þessi hefti.

Svo stýrir maður Ljóðasetrinu og Ungmennafélaginu Glóa, tiltölulega rólegt á báðum stöðum um þessar mundir, og er kominn í framkvæmdanefnd fyrir Landsmót 50+ sem verður haldið hjá okkur hér í Fjallabyggð næsta sumar. Þar er allt að komast í fullan gang í undirbúningi. 

Það var því ágætt að skjótast aðeins suður í síðustu viku í afslöppun og til að heilsa upp á dætur og barnabörn, vini og ættingja. Áttum þar mjög góðar stundir með fólkinu okkar á suðvestur horninu og ræktuðum tengslin.

 

  

Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 117
Gestir í gær: 23
Samtals flettingar: 110020
Samtals gestir: 26870
Tölur uppfærðar: 12.3.2025 10:08:42