09.08.2025 06:31
Bílskúrssala, söngur og sæla í skóginum
Vikan 11. - 17. maí. Jæja, ætli sé ekki rétt að halda áfram að segja frá fyrri vikum til að ná einhverntíman í skottið á sér! Þessi vika um miðjan maí var fyllt fjölbreyttum og skemmtilegum viðfangsefnum og endaði í sumarsælu.
Sunnudaginn 11. maí vorum við með bílskúrssölu heima hjá okkur á Hafnargötunni og tókst að losna við töluvert af dótaríi sem hafði safnast upp hjá okkur. Síðustu kennsludagar annarinnar í Menntaskólanum á Tröllaskaga voru í vikunni og vildi svo vel til að veðrið lék við okkur þannig að útivera og sprikl litaði þá daga. Var einnig viðstaddur afhendingu Eyrarrósarinnar, sem fór fram í Alþýðuhúsinu á Sigló.
Á miðvikudeginum vorum við í Karlakór Fjallabyggðar með tónleika á Sjúkrahúsinu á Siglufirði þar sem þakklátir hlustendur fögnuðu okkur vel. Að tónleikum loknum hélt ég á ársþing Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar (UÍF) þar sem ég var kosinn aftur í stjórn eftir smá hlé. Hef setið í stjórn þar flest ár frá því sambandið varð til árið 2009, þar af formaður í þrjú ár. Auk þess var ég í rúman áratug í stjórn annars forvera UÍF, Íþróttabandalags Siglufjarðar, og gengdi þar öllum stjórnarstörfum nema formannsembættinu.
Að lokinni kennslu á fimmtudeginum brunuðum við Stína mín beint í bústað í Kjarnaskógi þar sem einmuna veðurblíða lék við okkur og við áttum ljúfa daga. Sinntum skólaverkefnum, ræktuðum skrokkinn, fórum í göngutúra, grilluðum og fengum börnin okkar í mat, kíktum í miðbæinn og ýmislegt fleira.
![]() |