12.08.2025 10:45
Skógarböð, skólalok og meiri söngur
Vikan 18. - 24. maí var annasöm og viðburðarík, svona eins og vikur eiga að vera. Hún hófst í sælunni í Kjarnaskógi og Skógarböðunum sem við prufuðum í fyrsta sinn, ekki amalegt að svamla um þar, og svo komu börnin í grillveislu í bústaðinn. Verkefnayfirferð, innfærsla einkunna og ýmis frágangur í skólanum og svo útskrift 52 nemenda á föstudeginum, fjölmennasti hópurinn sem útskrifast hefur frá MTR.
Sat fund vegna undirbúnings Landsmóts UMFÍ 50+, sem fór fram hjá okkur hér í Fjallabyggð í lok júní. Ég var í framkvæmdanefndinni og félagið sem ég stýri, Umf Glói, tók að sér að sjá um frjálsíþróttakeppni mótsins og fleira. Mín beið það áhugaverða verkefni að búa til eitt stykki frjálsíþróttavöll og skipuleggja og sjá um frjálsíþróttakeppnina. Hugsaði mér að keppa líka eitthvað sjálfur og rifjaði því upp gamla takta í spjóti og kringlu og tók tvær æfingar í þeim greinum í vikunni.
Áfram var svo sungið af miklum þrótti, líkt og síðustu vikur. Við Stulli kallaðir einu sinni enn til Akureyrar að spila og syngja fyrir dansi hjá Félagi eldri borgara þar sem allir 60+ eru velkomnir. Mikið fjör á föstudagskvöldi, um 100 manns mættu og dansgólfið fullt allt kvöldið. Á laugardeginum var svo endapunkturinn hjá Karlakór Fjallabyggðar þennan veturinn og hann var ekki amalegur. Ósk kom frá kór Langholtskirkju að við mundum halda tónleika með þeim í Bátahúsi Síldarminjasafnsins og var því vel tekið. Kórarnir fluttu bara lög án undirleiks; fyrst við og svo sunnanfólk og svo var sameinast í þrjú lög í lokin. Alveg gæsahúðarmóment á köflum, gestir fjölmenntu og allir kátir. Tvær æfingar voru í vikunni til undirbúnings.
Svo var að sjálfsögðu haldið áfram að skrifa eitt og annað, m.a. einar 14 fréttir í héraðsfréttablaðið Helluna og á nokkrar fésbókarsíður.
![]() |