Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

28.08.2025 22:05

Ævintýravika og Landsmót 50+

Vikan 22. - 28. júní var undirlögð af tveimur krefjandi en skemmtilegum verkefnum. Í þó nokkur ár hef ég verið með svokallaðar Ævintýravikur fyrir ung börn á Siglufirði. Þetta eru nokkurs konar leikjanámskeið en þó er áherslan nokkuð önnur en á hefðbundnum leikjanámskeiðum. Aðaláherslan er á útiveru, menningu og sköpun og að kynnast sínu nærumhverfi og hvað það hefur upp á að bjóða. Þessa viku var sem sagt fyrri Ævintýravika sumarsins hjá Umf Glóa, sem ég stýri og þjálfa hjá, og tæplega 20 börn á aldrinum 6-8 ára undu sér vel í ýmsum spennandi ævintýrum undir minni stjórn eins og t.d. fjöruferð, leikjum og þrautum, safnaferð, ferð í skógræktina og fleira.

Seinna verkefnið var svo öllu umfangsmeira; að undirbúa, skipuleggja og framkvæma frjálsíþróttakeppni á Landsmóti UMFÍ 50+ hér í Fjallabyggð. Umf Glói tók að sér að sjá um frjálsíþróttakeppnina og þar sem ég er sá eini sem veit um hvað það snýst stýrði ég þeim hluta og undirbjó. Fékk svo flott fólk með mér í framkvæmdina og allt gekk að óskum. En að koma upp frjálsíþróttavelli var stærsti höfuðverkurinn þó gekk þetta allt upp fyrir rest og allir voru eins sátir og hægt er að vera. Mótið gekk frábærlega fyrir sig í alla staði og gestir ánægðir. Frjálsíþróttakeppnin gekk meira að segja svo vel fyrir sig að ég gat tekið þátt í nokkrum greinum, á hlaupum, og nældi í nokkur gull og nokkur silfur.

 

 

   

Flettingar í dag: 555
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 269
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 168799
Samtals gestir: 32950
Tölur uppfærðar: 29.8.2025 17:48:44