23.09.2025 18:49
Ameríka, Reykjavík, Danmörk
Vikan 3. - 9 . ágúst var ljúf og eitt og annað gert. Skrýtið þó að vera ekki heima á Siglufirði þessa helgi, verslunarmannahelgina, þegar Síldarævintýri er í gangi. Ég bjargaði því líklega frá glötun árið 2019 þegar það hafði ekki verið haldið í 2 ár og ýmsir, m.a. bæjaryfirvöld vildu það út af borðinu. En mér rann blóðið til skyldunnar og talaði fyrir hugmynd að nýrri nálgun á ævintýrið og fékk til liðs við mig kappa sem voru til í að láta slag standa. Úr varð þetta fína Síldarævintýri sem bæjarbúar tóku virkan þátt í og haldnir voru um 40 viðburðir frá fimmtudegi til sunnudags. Hef svo verið í stýrihópi ævintýrisins síðan og tók þátt í undirbúningi og uppgjöri í ár en var ekki við framkvæmdina sjálfa. Það var undarleg tilfinning, en engin eftirsjá, og líklega fyrsta Síldarævintýrið í 30 ár þar sem ég er ekki heima og hef komið fram rúmlega 100 sinnum í heildina á þessum ævintýrum. En nóg um það.
Vikan hófst úti í Minneapolis í Ameríkunni þar sem ævintýrin héldu áfram. Héldum upp á afmæli Orra tengdasonar á sunnudeginum og við Stína tókum að okkur að líta eftir barnabörnunum svo turtildúfurnar gætu farið út að borða í tilefni dagsins. Næstu dagar einkenndust svo af ýmiskonar æðislegri samveru þar sem var verið að leika og sprikla, versla og fara út að borða að ógleymdri heimsókn í Mall of America.
Svo var bara allt í einu komið að heimferð. Flogið heim til Ísalands og hittum þar fyrir elsku Amalíu dóttur okkar sem var á leiðinni í lýðháskóla í Danmörku. Skutluðum henni út á Keflavíkurvöll rúmum sólarhring eftir að við lentum þar og sáum á eftir henni á vit ævintýranna. Já, mikið um ævintýri hjá fjölskyldunni!
![]() |