09.10.2025 08:54
Heim, í skólann og út í Hrísey
Vikan 10. - 16. ágúst var svona í rólegri kantinum. Keyrðum heim á Sigló á sunnudeginum og næstu dagar fóru í að ná áttum eftir Ameríkuferðina, sinna garðvinnu, undirbúa sig fyrir haustönnina í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þar sem ég kenni, og ýmsum hugðarefnum öðrum. Svo var bara allt í einu komið að því að skólastarf hæfist að nýju. Tveir vinnudagar í MTR í lok vikunnar þar sem allt starfsfólk mætti til skrafs og ráðagerða og lagði línurnar fyrir veturinn.
Að loknum skólapælingum á föstudeginum var brunað með honum Stulla inn á Ársskógsströnd og þaðan siglt út í Hrísey þar sem við lékum fyrir dansi um kvöldið á skemmtilegri danshátíð sem þar var haldin þessa helgi. Frábær hópur að spila fyrir sem dansaði frá fyrsta tóni til þess síðasta. Tókum líka nokkur lög með Rúnari Þór Péturssyni sem var með tónleika áður en við byrjuðum að spila og lukkaðist það ljómandi vel. Dansleikir helgarinnar fóru fram í hinu sögufræga félagsheimili Sæborg þar sem Lilla, amma hennar Stínu minnar, kom í heiminn árið 1927!
![]() |