Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

28.10.2025 16:29

Ljóð, kastþraut og nýtt félagsheimili

Fyrsta vikan í september var heldur tíðindaríkari en sú síðasta í ágúst. Hófst með rólegum sunnudegi og svo kennslu í MTR fram að föstudegi, einnig unnið að fréttaskrifum og ýmiskonar skráningu að vanda. Heimsótti einnig ljóðaklúbb á dvalarheimilinu Hornbrekku á Ólafsfirði á mánudeginum (sjá mynd) og flutti þeim eigin lög við ljóð ýmissa skálda, var það fyrsti viðburðurinn í ljóðahátíðinni Haustglæður sem ég stýri nítjánda árið í röð.

Eftir kennslu á fimmtudegi brunuðum við Stína svo suður. Erindið var aðallega að spila og syngja á dansleik en eitt og annað gert í leiðinni. Á föstudeginum héldum við á Selfoss og gistum næstu tvær nætur hjá Kristínu systur og Nonna. Brá mér á annað frjálsíþróttamót, að þessu sinni Kastþraut Óla Guðmunds, sem ég þjálfaði á sínum tíma, fór það fram á Selfossi. Keppt í 5 kastgreinum og samanlagður árangur réði sætum. Gekk mjög vel í spjótinu, bætti mið þar töluvert frá því vikunni áður og á sem fyrr langbesta árangur Íslendings í mínum aldursflokki með 800gr spjótinu, kúlan fór líka ásættanlega langt, kringlan síður og sleggjukastið og lóðkastið gekk eins og við var að búast í fyrstu tilraun svona á gamals aldri. Mjög skemmtilegt og félagsskapurinn góður.

Dansleikurinn fór svo fram í Goðalandi í Fljótshlíð. Við Stulli kallaðir til yfir þvert landið til að skemmta frábærum hópi og var fjörið allsráðandi. Goðaland félagsheimili nr. 57 sem ég spila í og staður nr. 226 á um 47 ára ferli í músikinni.

 
Flettingar í dag: 101
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 370
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 190914
Samtals gestir: 34090
Tölur uppfærðar: 29.10.2025 16:46:56