Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

14.12.2025 13:40

Ljóðasetur, söngur og félagsmál

Vikurnar 19. okt. - 1. nóv. voru nokkuð hefðbundnar þannig séð. Sinna vinnunni í Menntaskólanum á Tröllaskaga og svo ýmsum verkefnum á menningar- og félagsmálahliðinni. Ljóðasetrið nokkuð tímafrekt fyrri vikuna þ.s. ég var að vinna að stórri umsókn um rekstrarstyrk og svo kom skemmtilegur hópur Veraldarvina í heimsókn og fékk fræðslu um íslenska ljóðlist og einhverja skemmtun með. Sat einnig formannafund félaga innan Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar þessa viku og gerði grein fyrir ferð okkar hjóna á Sambandsþing UMFÍ sem við sátum fyrir hönd UÍF í Stykkishólmi.

Tónlistin á sínum stað að venju; æfingar með Karlakór Fjallabyggðar á mánudögum og á föstudögum með Stulla spilafélaga mínum. Við Stulli skemmtum á grillkvöldi eldri borgara í Fjallabyggð sem haldið var í Tjarnarborg á Ólafsfirði. Ég flutti nokkrar vísur og limrur meðan á borðhaldi stóð og svo lékum við félagarnir fyrir dansi.

Eitthvað var skrifað að venju; fréttir á síður UÍF, Ljóðasetursins og mína eigin á fésbókinni og einnig á heimasíðu MTR og í héraðsfréttablaðið Helluna, samtals 14 fréttir. Svo dustaði ég rykið af handriti um íþróttalíf í Arnarfirði sem ég var kominn ágætlega af stað með fyrir nokkru og ætla nú að setja endurnýjaðan kraft í að klára og stefni að bókarútgáfu árið 2027.

 
 

 

Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 2295
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 206330
Samtals gestir: 34781
Tölur uppfærðar: 15.12.2025 01:32:28