17.12.2025 10:47
Dansiball, ljóð og höfuðborg norðursins
Vikurnar 2. - 15. nóvember voru þéttar af ævintýrum og fjöri, svei mér þá. Hefðbundnar vinnuvikur í Menntaskólanum á Tröllaskaga, ef svo má að orði komast því enginn dagur er jú eins í kennslunni, en allt gengur vel hjá okkur á þessum líflega og frjóa vinnustað þar sem nemendur sem starfsfólk er alltaf að læra eitthvað nýtt.
Í fyrri vikunni tók ég á móti nemendum úr 2. og 3. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar á Ljóðasetrinu og fræddi þá um íslenska ljóðlist og nokkur ljóða- og tóndæmi fylgdu með. Flottir krakkar og áhugasamir sem allir voru leystir út með bókagjöf til að ýta undir lestur. Voru þessar heimsóknir liður í ljóðahátíðinni Haustglæður sem ég stýri nú 19. árið í röð. Að lokinni kennslu á fimmtudegi renndum við Stína svo til Reykjavíkur þar sem við Stulli spiluðum fyrir dansi á sprellfjörugu balli hjá Félagi harmonikkuunnenda og á laugardagskvöldinu vorum við í skemmtilegu matarboði hjá vinafólki okkar. Svo var verslað í borginni og heilsað upp á afkomendur og ættingja.
Að lokinni kennslu seinni vikuna var brunað á Akureyri þar sem við komum okkur fyrir í herbergi hjá Patreki syni okkar sem leigir íbúð þar. Verður það athvarf okkar í höfuðborg norðursins næstu mánuðina þar sem dvalartími okkar þar er sífellt að lengjast. Stafar það af því að börnin okkar Stínu eru nú öll búsett þar og verkefnum mínum í ljóða- og tónlistardeildinni hefur einnig fjölgað töluvert á þeim slóðum seinustu árin. Áttum þar góðar fjölskyldustundir og aðrar, kannski ekki alveg eins ánægjulegar, í verslunum; byrjað að huga að jólagjöfum og slíku.
Í ritunardeildinni var einnig eitthvað að gera. Skrifaði nokkrar blaðsíður í handritið að sögu íþróttalífs í Arnarfirði, skemmtilegt grúsk og ýmislegt áhugavert sem kemur upp úr dúrnum, svo var fréttavaktin á sínum stað varðandi íþrótta- og skólamál.
Á myndinni má sjá nemendur 2. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar með bækurnar að lokinni heimsókn á Ljóðasetrið
![]() |

