27.12.2025 13:41
Halló Akureyri
Vikurnar 16. - 29. nóvember voru skemmtilegar, tónlistin allsráðandi og mikið verið inn á Akureyri vegna hennar og til að hitta börnin. Hefðbundin kennsla í Menntaskólanum á Tröllaskaga báðar vikurnar, æfingar með Karlakór Fjallabyggðar á mánudögum og með Stulla spilafélaga mínum á föstudögum og svo skrifaðar fréttir á ýmsa miðla flesta daga.
Við Stulli spiluðum inn á Akureyri báðar vikurnar; í þeirri fyrri á balli hjá 60+, einu sinni sem oftar, mikið fjör þar að vanda og í seinni vikunni í þrítugsafmæli og þar ver heilmikið fjör líka. Í seinni vikunni skelltum við í Jólatríó í MTR, ég og tveir nemendur, og spiluðum jólalög í einu hádeginu fyrir nemendur og starfsfólk.
Frúin átti afmæli í seinni vikunni og áttum við góðar stundir með börnunum okkar inn á Akureyri í tilefni þess, fórum út að borða og gistum. Fórum einnig á jólahlaðborð á Kaffi Rauðku á Sigló með Síldarævintýristeyminu þar sem mér voru þökkuð góð störf þar sem ég hef ákveðið að láta gott heita með að koma að undirbúningi og skipulagi þeirrar hátíðar. Mun þó nokkuð örugglega koma fram á hátíðinni nokkur ár í viðbót. Rifjaði það upp í einhverri færslu hér að ég hef komið fram á 20 Síldarævintýrum alls rúmlega 100 sinnum.
![]() |

