Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

30.12.2025 12:53

Jólasöngur, safnafólk og ljóðagerð

Fyrstu tvær vikur desember voru annansamar og skemmtilegar. Allt á fullu hjá okkur í Karlakór Fjallabyggðar við að undirbúa jólatónleika sem voru þann 11. des í Siglufjarðarkirkju. Fimm æfingar þessa 10 daga áður en að tónleikunum kom svo allt small þetta vel saman þegar á hólminn var komið. Fengum kvennakórinn Hytturnar með okkur, stofnaður í haust, svo úr urðu hátíðlegir og skemmtilegir jólatónleikar og aðsóknin frábær.

Við Stína renndum inn á Akureyri og sóttum bráðskemmtilegan hausthitting safnafólks á Norðurlandi eystra. Byrjað í Minjasafninu og svo haldið í Flugsafnið, gott spjall, skemmtilegt hópefli, sögustundir og góður matur auk áhugaverðra safngripa og samstarfsaðila. Sat einnig fund hjá stjórn UÍF, Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar.

Í ljóðadeildinni voru nokkur verkefni. Heimsótti 1. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar og flutti nemendum Æskumyndir mínar með myndastuðningi að vestan og svo komu nemendur 8. - 10. bekkjar í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga til að taka þátt í hinni árlegu ljóðasamkeppni ljóðahátíðarinnar Haustglæður. Þar var ég búinn að stilla upp málverkum eftir nemendur MTR og grunnskólanemarnir notuðu þau sem kveikjur að ljóðum eftir að ég hafði gefið þeim góð ráð í ljóðasmíðinni. Hver bekkur stoppaði í s.s. 45 mínútur og úr urðu 70 ljóð sem dómnefnd fer svo yfir og þau bestu verða verðlaunuðu. Endapunkturinn í ljóðamálunum var að fylgjast með rafrænni úthlutunarhátíð þar sem fjármagni úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra var úthlutað og fékk Ljóðasetrið þar 1.7 milljón til rekstarins á næsta ári. Frábærar fréttir og hæsti rekstarstyrkur sem setrið hefur fengið í gegnum þessa áætlun. 

Í skólamálunum var einnig nóg um að vera. Annasamir síðustu kennsludagar annarinnar, þó veður hafi sett nokkuð strik í reikninginn, síðasti kennsludagur var 11. desember og við tók námsmat næstu daga og glæsileg sýning á verkum nemenda var svo laugardaginn 13. des. Var hún vel sótt. Einnig fór starfsfólk skólans saman á jólahlaðborð.

Endapunkturinn á seinni vikunni var laufabrauðsgerð og kleinubakstur heima hjá okkur á Hafnargötunni með Elínu Helgu dóttur okkar og tengdamömmu. Skemmtileg samverustund.

 
 
 
Flettingar í dag: 115
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 164
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 210003
Samtals gestir: 35092
Tölur uppfærðar: 30.12.2025 16:12:28