Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

09.01.2026 18:03

Fjölskyldujól

Síðustu vikur ársins voru aldeilis gleðilegar og hátíðlegar með dassi af ýmiskonar fjöri. Sunnudaginn 14. desember brugðum við Stína okkur á stórskemmtilega tónleika á Akureyri þar sem vitringarnir þrír og gestir þeirra rúlluðu í gegnum ýmis jólalög með góðum skammti af gríni og glensi. Í vikunni þar á eftir var síðasti viðburður ljóðahátíðarinnar sem ég stýrði en þá afhenti ég verðlaun í ljóðasamkeppni 8. - 10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar en sú keppni er fastur liður í hátíðinni. Einnig voru skrifaðar fjölmargar fréttir þessa viku í ýmsa miðla.

Föstudaginn 19. des. brunuðum við í borgina í ýmsa snúninga en ekki síst til að hitta Hrefnu dóttur mína og fjölskyldu sem voru í heimsókn á landinu góða, Pálu elstu dóttur mína og hennar fólk og svo að taka á móti Amalíu okkar sem var að koma til landsins eftir ævintýradvöl í lýðháskóla úti í Danmörku. Urðu aldeilis fagnaðarfundir með öllum þessum elskum og meira að segja var haldið upp á afmælið mitt með öllum hópnum í borginni á afmælisdaginn, 21. des. Svo var brunað heim aftur til að undirbúa jólin og allt það.

Yndisleg fjölskyldujól, börnin okkar Stínu og tveir tengdasynir hjá okkur megnið af jólahátíðinni sem og tengdaforeldrarnir. Matarboð með 8 - 10 manns í nokkra daga; fyrst hin árlega Þorláksmessuskata sem ég sýð í bílskúrnum, svo fimmréttað á aðfangadag, afgangar á jóladag, hangikjöt og tilheyrandi á annan í jólum og kalkúnn á gamlársdag. Tengdamamma sá um eitt og annað, að sjálfsögðu, og Stína mín eins og Michelin-kokkur svo allt smakkaðist upp á 10. Ég var helst nothæfur í uppvaskið. Yndisleg jól og áramót með hópnum okkar. Allir kátir og glaðir og taka nýju ári með tilhlökkun. 

Mynd: Afmælishittingur í borginni. 

 
 
Flettingar í dag: 124
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 423
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 214403
Samtals gestir: 35178
Tölur uppfærðar: 10.1.2026 11:08:19