Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

17.12.2024 09:23

Mannrækt og meitluð orð

Eins og fyrri daginn er í nógu að snúast. Lokaspretturinn á haustönninni stendur yfir í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þar sem ég kenni, glæsileg sýning á verkum nemenda stendur yfir, yfirferð verkefna lokið, lokaeinkunnir komnar í hús og útskrift stúdenta á næsta leyti. Blómlegt og kraftmikið starf í þessum skóla þar sem færri komast að en vilja. Nemendafjöldi yfir 500 síðustu annir, mikill meirihluti eru fjarnemar.

Skilaði af mér afmælisriti Ungmennafélagsins Glóa í síðasta mánuði. Félagið varð 30 ára fyrr á árinu og mér falið að rita og ritstýra riti í tilefni tímamótanna. Söguna þekki ég mæta vel enda verið þjálfari hjá félaginu frá upphafi og formaður í 29 ár. Ritið er 28 síður, í A4 broti og ríkulega skreytt af myndum. Í því er stiklað á stóru í sögu félagsins og tæpt á þeim fjölmörgu verkefnum sem félagið hefur staðið fyrir og komið að þessa þrjá áratugi. Má þar nefna æfingar í a.m.k. 5 íþróttagreinum, leikjanámskeið og Ævintýravikur, umhverfismál, lífseigustu ljóðahátíð landsins, 17. júní hátíðahöld, ýmis hreyfingarátök, umsjón Kvennahlaupsins í tæpa tvo áratugi o.fl.

Svo hefur nóg verið um að vera í ljóðadeildinni. Ljóðahátíðin Haustglæður, sem Umf Glói og Ljóðasetur Íslands, halda nú 18 árið í röð í Fjallabyggð er á lokametrunum en hún er samansett af 10 - 12 viðburðum á haustmánuðum ár hvert. Að þessu sinni hefur hátíðin verið að færa út kvíarnar og ég hef verið með viðburði bæði á Dalvík og Akureyri í tengslum við hana auk þess sem nokkrir viðburðir hafa verið hér í Fjallabyggð. Sérkenni hátíðarinnar er hversu virkan þátt börn og ungmenni taka í henni og úrslit í hinni árlegu ljóðasamkeppni nemenda í 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar voru m.a. kynnt fyrir fullu húsi nemenda í Ljóðasetrinu í síðustu viku og ljóðalestur hefur farið fram fyrir nemendur í yngri bekkjum skólans. Eldri borgarar gleymast ekki heldur og hefur ljóðalestur og söngur verið fyrir þá bæði á Dalvík og Ólafsfirði. 

 

 

  

24.11.2024 14:02

Ljúfar fjölskyldustundir

Höfum átt ljúfar og góðar stundir með stórfjölskyldunum undanfarnar vikur. Brá mér vestur á Bíldudal um miðjan október að heilsa upp á karl föður minn og vini og ættingja þar. Í lok október var svo haldið í borgina til að halda upp á afmæli elsta barnabarnsins, hennar elsku Ronju sem átti 21 árs afmæli. Var það sérlegga góð stund. Í suðurferðinni hittum við einnig systkini okkar, börn og barnabörn. 

Í byrjun nóvember dvöldum við hjónin nokkrar nætur í bústað í Kjarnaskógi og fengum góða vini og ættingja í grillveislur. Um miðjan nóvember vorum við Logi bróðir svo með dagskrá í Davíðshúsi á Akureyri, opnuðum þar Litlu ljóðahátíðina. Þar voru eiginkonur okkar viðstaddar og þrjár dætur mínar. Svo kom yngsta dóttirin heim í laufabrauðsgerð á dögunum og sonurinn kíkir í mat öðru hvoru. Ómetanlegar fjölskyldustundir.

 

 

 

 

 

18.10.2024 16:24

Annir í október

Októbermánuður fer líflega af stað, nóg að gera í hinu blómlega starfi í Menntaskólanum á Tröllaskaga sem og í tónlistar- og ljóðadeildinni og öðrum verkefnum sem tínast til.

Var með kynningu á starfsemi Ljóðasetursins fyrir íbúa og gesti á dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík í upphafi mánaðar og auðvitað hljómuðu einhver ljóð og lög líka. Tók einnig á móti tveimur nemendahópum á setrinu og fræddi þá um íslenska ljóðlist og fleira skemmtilegt og brá gítarnum á loft.

Spilaði og söng á hestamannaballi í Svarfðardalnum fyrstu helgina í október með Stulla félaga mínum og var þar mikil gleði. Mundaði einnig gítarinn fyrir hestafólk á Siglufirði og í heimsókn vestur á Bíldudal var spilað fyrir fjöldasöng á árshátíð eldri borgara í Vesturbyggð ásamt félaga mínum Matta. Svo er fleira í pípunum.

Við Matti í góðum gír

 

29.09.2024 16:56

Flutt tónlist 400 sinnum á Ljóðasetrinu

Eins og einhverjir vita er ég stofnandi og forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands á Siglufirði. Setrið var vígt af frú Vigdísi Finnbogadóttur þann 8. júlí 2011 og hefur verið opið síðan yfir sumartímann en aðra tíma ársins tek ég á móti hópum. Á þessum rúmu 13 árum hafa verið haldnir um 400 viðburðir í setrinu og við höfum tekið á móti tæplega 200 hópum sem fá kynningu á starfsemi setursins, fræðslu um íslenska ljóðlist sem og ljóðalsestur, söng og kveðskap allt eftir óskum hvers hóps. 

Oftar en ekki gríp ég í gítarinn og flyt nokkur lög eða kveð nokkrar stemmur á þessum lifandi viðburðum, og eins þegar hópar sækja setrið, og nú á dögunum kom ég fram í 400asta skiptið á Ljóðasetrinu til að flytja tónlist. Alls hef ég komið fram tæplega 1600 sinnum á tónlistarferlinum á rúmlega 200 stöðum þ.e. ýmsum félagsheimilium, skemmti- og veitingastöðum, skólum, sölum, kirkjum, útisviðum, söfnum o.fl. 

Mynd: Trölli.is

 

29.08.2024 17:46

Tólfta starfsárið mitt við MTR hafið

Haustið 2013 hóf ég störf sem kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga og er óhætt að segja að þessi rúmi áratugur sem liðinn er síðan hafi verið viðburðaríkur í starfi. Skólinn er sérlega framsækinn og starfið þar einstaklega blómlegt. Ég get fullyrt að þar fá kennarar að nýta og þróa sína hæfileika og hæfni í starfi með stöðugri símenntun og framþróun hvort sem er í kennslufræðum eða tækninýjungum. Ef þið komið í skólann getið þið t.d. búist við því að mæta vélmennum á göngum hans en þar eru innanborðs kennarar skólans sem búsettir eru erlendis eða í öðrum landshlutum og þeir sinna kennslu sinni að hluta gegnum þessi tæki. Fjarnám við skólann hefur verið sérlega vinsælt og hafa fjarnemar verið um 500 talsins á hverri önn undanfarin ár.

Ég er þannig gerður að ég vil vera með mörg járn í eldinum, hef ýmis áhugamál og get jafnvel sagt að mér sem ýmislegt til lista lagt og hef fengið að njóta þeirra kosta minna við skólann. Ég hef t.d. kennt 44 mismunandi áfanga við skólann á þessum rúma áratug og búið til um 3/4 þeirra. Megnið af þeim eru áfangar á sviði íslensku og íþrótta en einnig mjög skemmtilegir áfangar eins og t.d. saga kvikmyndalistarinnar og saga rokktónlistar að ógleymdum áfanga helguðum ljóðagerð. Einnig hef ég kennt áfanga í frumkvöðlafræði, fjármálalæsi, íþróttasálarfræði og þjóðfræði svo eitthvað sé nefnt. Auk þess hef ég fengið að sjá um menningarmál í skólanum; sett upp ýmiskonar listsýningar og skipulagt viðburði, stýri verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli við skólann og s.l. haust tók ég við sem fréttaritari skólans og rita fréttir á heimasíðu hans.

Það sem er samt mest heillandi við kennarastarfið er að fá að starfa með öllu þessu unga efnilega fólki, og fólki á öðrum aldri líka, sem er að þroskast og finna sína leið út í lífið, er að finna leiðir til að leysa þau verkefni sem liggja fyrir, leita lausna, skoða hlutina frá ýmsum hliðum og uppgötva sína styrkleika. 

Þá er aðeins eitt ótalið; sá ótrúlegi starfsmannahópur sem starfar við MTR. Þetta lærdómssamfélag þar sem allir eru tilbúnir að aðstoða, segja til og leiðbeina, þar sem maður lærir eitthvað nýtt á hverjum degi og getur ekkert dvalið í torfkofanum sínum með sömu gömlu verkfærin og áður. Auk þess er þetta vinnustaður þar sem fólk stendur saman, hlúir að hvert öðru, hrósar og ræðir málin af hreinskilni og heilindum. Það eru forréttindi að vinna á slíkum stað. 

 

 

12.08.2024 09:56

Rúmlega 100 sinnum á Síldarævintýri

Þrítugasta Síldarævintýrið á Siglufirði - Það tuttugasta sem ég kem fram á

Hátíðin Síldarævintýrið var haldin í fyrsta sinn 1991 og í þrítugasta sinn nú um sl. verslunarmannahelgi, þar sem nokkur ár hafa dottið út m.a. vegna Covid. Frá því að ég flutti til Siglufjarðar haustið 1993 höfum við fylgst nokkuð þétt að, ég og Síldarævintýrið. Kom fyrst fram á hátíðinni árið 1994 en svo eignuðumst við Stína Videoval og næstu árin stóð maður bak við búðarborðið og seldi hátíðargestum ýmsar veitingar.

Það var svo árið 2001 sem ég kom fram næst á Síldarævintýri og hef komið fram á svo til öllum þeirra síðan og þetta nýliðna var það tuttugasta. Telst mér til að alls hafi ég komið fram rúmlega 100 sinnum á þessari hátíð, þ.e. að meðaltali um 5 sinnum á hverju þeirra!

Þessar framkomur hafa verið fjölbreyttar; oftast á sviði í miðbænum en einnig á skemmtistöðum, söfnum og setrum. Oft einn með gítarinn en einnig með sönghópnum Gómum í Síldarminjasafninu sem og á sviði og með ýmsum öðrum spilafélögum víða um miðbæinn.

Eftir að ég opnaði Ljóðasetrið hef ég verið með fjölda viðburða þar á Síldarævintýri og einnig samdi ég leikþátt sem ég sýndi í Bátahúsi Síldarminjasafnsins auk þess sem ég hefi komið fram á Þjóðlagasetrinu, á Kaffi Rauðku og við Segul 67 svo eitthvað sé nefnt.

En þá er ekki allt talið í samneyti mínu og þessa ævintýris sem kennt er við síldina. Ég var t.d. kynnir á tveimur hátíðum og stýrði auk þess söngvakeppni barna a.m.k. tvisvar sinnum, en hún var fastur liður á hátíðinni hér áður.

Þegar Síldarævintýrið missti svo flugið um 2017 þá átti ég frumkvæði að því að koma því aftur í gang árið 2019 og hef verið í stýrihópi þeim sem hefur haldið Síldarævintýrið síðan.

Þessi samfylgd hefur verið skemmtileg en sannarlega útheimt mikla vinnu og ekki síður mikla þolinmæði frá mínum nánustu. Launin hafa aðallega verið ánægjan af því að taka þátt og skapa líf og fjör í bænum okkar.

 
 

31.07.2024 10:16

Sungið á frábærum Trilludegi á Sigló

Síðasta laugardag var Trilludagurinn haldinn í sjöunda sinn á Siglufirði og hefur sjaldan tekist eins vel. Einmuna veðurblíða lék við gesti sem sigldu út á fjörðinn á fjölda smábáta með vöskum sæköppum. Alls fóru rúmlega 600 manns á sjó. Þegar í land var komið tóku Kiwanismenn við aflanum flökuðu og grilluðu og smakkaðist sérlega vel. Að sjálfsögðu þarf að hafa réttu tónlistina í eyrunum og því vorum við Stulli kallaðir til og tókum við tvær 90 mínútna skorpur þar sem við fluttum um 60 lög af prógraminu okkar sem telur orðið vel á þriðja hundrað lög. Gömlu góðu sjóaralögin og aðrir slagarar í aðalhlutverki og það var sungið með og sumir brustu í dans. Mikið fjör og mikil gleði.

Næst á dagskrá hjá okkur Stulla er Síldarævintýrið, sem hefst á morgun, þar munum við koma fram a.m.k. þrisvar sinnum saman og auk þess verð ég með þrjá viðburði á Ljóðasetrinu. Sem sagt rólegt og gott framundan.

 
 

 

 

21.07.2024 18:07

Síldarævintýrið á Siglufirði 2024

Ég átti frumkvæðið að þvi að setja Síldarævintýrið á Siglufirði af stað aftur árið 2019, eftir tveggja ára hlé, og hef verið í þriggja manna stýrihópi ævintýrisins síðan. Framkvæmdin var þó með nýjum hætti, í ljósi breytinga sem orðið hafa á Siglufirði síðustu ár. Lagt upp með að virkja bæjarbúa meira en áður með hverfisskreytingum og hverfisgrillum og að dagskráin væri borin upp af heimafólki í minni viðburðum vítt og breitt um bæinn. Markmið hátíðarinnar að kynna það sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða í menningu, mat og drykk, veita bæjarbúum tækifæri til að eiga góðar stundir saman, að ógleymdu stórfenglegu umhverfi og sögunni sem er við hvert fótmál. Vel tókst til árið 2019 en svo tóku Covid árin við og settu svip sinn á framkvæmdina. Í fyrra var loks hægt að blása til sóknar á ný og héldum við glæsilegt og vel heppnað Síldarævintýri. 

Í ár verður bætt í í tilefni þess að þetta er þrítugasta Síldarævintýrið sem haldið er. Sem fyrr er öll barnadagskrá ókeypis, heimafólk er í aðalhlutverki í tónlistarflutningi og annarri skemmtun og söfn og setur bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Auk þess verður sameiginleg grillveisla bæjarbúa, hverfaskreytingar, bjórleikar, síldarball, froðufjör, hoppukastalar, fjöldasöngur, flugeldasýning og margt, margt fleira eins og sjá má í dagskránni sem hér fylgir með. Upplagt að kíkja á Siglufjörð um verslunarmannahelgina og njóta. 

 

12.07.2024 20:36

Smíðað, málað og ljóðað

Góðir dagar á Siglufirði að undanförnu, veðurblíða, sól og sæla en kannski heldur mikill vindur. Tíminn hefur verið notaður til að smíða skýli yfir grillið; það er komið langleiðina, mála húsið; langt kominn með að pensla og vonandi rúllað á morgun og svo er verið að sinna ljóðlistinni og tónlistinni. Viðburðir á Ljóðasetrinu á hverjum degi kl. 16.00 og oftar en ekki fer gítarinn á loft á þessum viðburðum til að skreyta það sem fram fer, frumflutti t.d. nýtt lag í gær. Svo er skipulagning fyrir Síldarævintýrið um verslunarmannahelgina einnig í fullum gangi og munum við birta dagskrána í næstu viku. Sem sagt nóg um að vera, a.m.k. eins mikið og maður vil. 

 

 

08.07.2024 10:05

Frábær ferð á Vestfirði

Hún lukkaðist ljómandi vel upplestrar- og tónlistarferðin á Vestfirðina á dögunum. Bjó til dagskrá sem ég kallaði Þorpin þrjú og fékk til liðs við mig Ólaf Svein Jóhannesson, skáld frá Tálknafirði, og Birtu Ósmann, listakonu á Patreksfirði, sem er nýkjörin bæjarlistamaður Fjallabyggðar. Hvert okkar flutti sín ljóð, auk ljóða Jóns úr Vör, og svo söng ég og spilaði eigin lög við ljóð skáldanna. Inn á milli var svo sagt frá tilurð ljóðanna og rifjaðar upp skemmtilegar sögur frá uppvaxtarárum okkar Ólafs fyrir vestan. Fluttum dagskrána í þorpunum þremur; Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal á fimmtudag og föstudag, var skemmtileg og notaleg stemning á þeim öllum og aðsókn með ágætum. Vesturbyggð styrkti verkefnið og eru sveitarfélaginu færðar kærar þakkir fyrir. 

Á leiðinni norður á laugardeginum var stoppað í Skagafirðinum og sungið með honum Stulla á dansleik eitthvað inn í nóttina í stórafmæli í Miðgarði. Þar var heilmikið stuð eins og lög gera ráð fyrir. Það var ljúft að leggjast á koddann og hvíla raddböndin þegar komið var heim á Sigló um miðja nótt. 

Myndin er tekin að loknum upplestri okkar í Dunhaga í Tálknafirði. Skemmtilegt upplestrarrými og frábær matsölustaður. 

 

   

03.07.2024 13:08

Nóg að gera í ljóðheimum

Eins og einhverjir vita stofnaði ég og rek Ljóðasetur Íslands sem staðsett er á Siglufirði. Þar er oft líf og fjör og í morgun fengum við aldeilis góða heimsókn þegar elsti árgangurinn af leikskólanum Leikskálum kom í heimsókn með kennurum sínum. Börnin fengu kynningu á setrinu og ljóðlistinni auk þess að hlýða á nokkur ljóð og lög. Svo sungu börnin að sjálfsögðu fyrir forstöðumanninn áður en tekin var mynd af hópnum í himinháu bókahillunum sem geyma þúsundir ljóðabóka. Skemmtileg heimsókn.

Í dag verður svo rennt vestur á firði í verkefnið Þorpin þrjú sem Ljóðasetrið stendur fyrir á sunnanverðum Vestfjörðum í tilefni sameiningarinnar þar. Þar mun ég flytja ljóð mín um æskuslóðirnar fyrir vestan og lög mín við ljóð Jóns úr Vör úr bókinni Þorpið. Með mér verður Tálknfirðingurinn Ólafur Sveinn Jóhannesson og Birta Ósmann nýkjörinn bæjarlistamaður Vesturbyggðar, munu þau flytja sín ljóð. Viðburðirnir verða þrír: einn í hverju þorpi: Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, eins og sjá má í færslunni hér að neðan. Vesturbyggð veitti Ljóðasetrinu styrk vegna verkefnisins.

Síðan er verið að setja saman viðburðardagskrá fyrir næstu vikur á setrinu og birtist hún fljótlega á fésbókarsíðu Ljóðasetursins.

 

28.06.2024 10:55

Þorpin þrjú - Spennandi verkefni fyrir vestan

Dagana 4. og 5. júlí tek ég þátt í skemmtilegu verkefni í Vesturbyggð í tilefni sameiningarinnar sem var þar á dögunum. Ég, Bílddælingurinn, og Ólafur Sveinn Jóhannesson, Tálknfirðingur, munum þar flytja dagskrá í tali og tónum þar sem við flytjum ljóð okkar og hugleiðingar um æskuárin fyrir vestan auk þess að flytja ljóð Jóns úr Vör úr bókinni Þorpið, sem fjallar að sjálfsögðu um Patreksfjörð. Sérstakur gestur á þessum viðburðum verður Birta Ósmann Þórhallsdóttir sem á dögunum var kjörin bæjarlistamaður Vesturbyggðar 2024 og mun hún flytja eigin ljóð.

Viðburðirnir verða í hverju þorpi sem hér segir:

Fimmtudag 4. júlí kl. 17.00 í Skriðu á Patreksfirði.

Fimmtudag 4. júlí kl. 20.00 í Dunhaga í Tálknafirði.

Föstudag 5. júlí kl. 21.00 á Vegamótum á Bíldudal.

Hver viðburður mun enda á spjalli við gesti um þorpin þrjú í þátíð, nútíð og framtíð.

Enginn aðgangseyrir verður að þessum viðburðum en Vesturbyggð styrkir framkvæmd þeirra og Ljóðasetur Íslands stendur auk þess að verkefninu.

 
 

 

22.06.2024 15:08

Íþróttir og tónlist

Löngum hafa íþróttir og tónlist spilað stórar rullur í mínu lífi og stundum togast á. Þar sem ég hef nú lagt keppnisíþróttirnar á hilluna þá er ekkert um árekstra á þessum sviðum lengur og hægt að einbeita sér meira að tónlistinni. Helstu afskipti af íþróttum eru nú í þjálfun og að stýra Ungmennafélaginu Glóa sem starfar á Siglufirði og í ár eru einmitt 30 ár frá því að við stofnuðum það. Á dögunum vorum við með okkar árlega 17. júní hlaup og í næstu viku stýri ég fyrri Ævintýraviku sumarsins hjá félaginu. Á fyrri myndinni sem fylgir er ég einmitt í hópi kátra krakka sem ég var að þjálfa í fyrra í íþróttaskóla Umf Glóa.

Eitt og annað er svo framundan í tónlistinni m.a. erum við Stulli, Sturlaugur Kristjánsson, bókaðir á nokkrum stöðum næstu vikurnar, ég mun koma fram með gítarinn á Ljóðasetrinu nokkrum sinnum í sumar og gítarinn verður einnig á lofti í ljóðaverkefni sem ég er að skipuleggja á Vestfjörðunum. Auk þess hefur verið óskað eftir mér suður að leika mín lög á listahátíð í Kópavogi og svo er náttúrulega alltaf hugmyndin að fara að taka meira upp af mínu efni. Já, þetta tínist til. Neðri mynd: Stulli og Tóti að spila við Segul 67 sumarið 2023. 

 
 

 

17.06.2024 12:17

Félagsheimili númer 53

Við Stulli spiluðum á dansleik á Melum í Hörgársveit sl. laugardag, mikið dansað og mikil gleði. Þá eru félagsheimilin sem maður hefur komið fram í orðin 53 talsins en hef auk þess flutt tónlist á 158 öðrum stöðum þ.e. ýmsum sölum, skólum, kirkjum, íþróttahúsum, samkomutjöldum, útisviðum, söfnum, veitingastöðum, dvalarheimilum o.fl. Alltaf gaman að koma fram á nýjum stöðum og sjálfsagt bætast einhverjir við á næstu vikum. 

 

14.06.2024 10:44

Ljóðaflutningur á Hlíð og ball um helgina

Var beðinn um að koma í heimsókn til ljóðaklúbbs sem starfræktur er á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri og kynna þar starfsemi Ljóðaseturs Íslands sem ég stofnaði og starfræki á Siglufirði, fyrir þá sem ekki vita. Auðvitað segir maður ekki nei við slíkri bón og ég renndi inn á Akureyri í gær og reyndi að segja eitthvað gáfulegt og vera skemmtilegur. Tókst held ég bara þokkalega til. Kynnti starfsemina, flutti nokkur af mínum ljóðum, kvað nokkrar stemmur og greip líka í gítarinn; svona sitt lítið af hverju. Um 20 manns hlýddu á  af athygli og til að gera stundina enn betri var Badda móðursystir mín í hópnum. 

Næsta verkefni í tónlistinni er dansleikur fyrir hressan hóp í Hörgársveit annað kvöld með honum Stulla, Sturlaugi Kristjáns. Það verður án efa mikið líf og fjör. 

 
Flettingar í dag: 296
Gestir í dag: 134
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96459
Samtals gestir: 24471
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 04:40:40