Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

31.07.2024 10:16

Sungið á frábærum Trilludegi á Sigló

Síðasta laugardag var Trilludagurinn haldinn í sjöunda sinn á Siglufirði og hefur sjaldan tekist eins vel. Einmuna veðurblíða lék við gesti sem sigldu út á fjörðinn á fjölda smábáta með vöskum sæköppum. Alls fóru rúmlega 600 manns á sjó. Þegar í land var komið tóku Kiwanismenn við aflanum flökuðu og grilluðu og smakkaðist sérlega vel. Að sjálfsögðu þarf að hafa réttu tónlistina í eyrunum og því vorum við Stulli kallaðir til og tókum við tvær 90 mínútna skorpur þar sem við fluttum um 60 lög af prógraminu okkar sem telur orðið vel á þriðja hundrað lög. Gömlu góðu sjóaralögin og aðrir slagarar í aðalhlutverki og það var sungið með og sumir brustu í dans. Mikið fjör og mikil gleði.

Næst á dagskrá hjá okkur Stulla er Síldarævintýrið, sem hefst á morgun, þar munum við koma fram a.m.k. þrisvar sinnum saman og auk þess verð ég með þrjá viðburði á Ljóðasetrinu. Sem sagt rólegt og gott framundan.

 
 

 

 

21.07.2024 18:07

Síldarævintýrið á Siglufirði 2024

Ég átti frumkvæðið að þvi að setja Síldarævintýrið á Siglufirði af stað aftur árið 2019, eftir tveggja ára hlé, og hef verið í þriggja manna stýrihópi ævintýrisins síðan. Framkvæmdin var þó með nýjum hætti, í ljósi breytinga sem orðið hafa á Siglufirði síðustu ár. Lagt upp með að virkja bæjarbúa meira en áður með hverfisskreytingum og hverfisgrillum og að dagskráin væri borin upp af heimafólki í minni viðburðum vítt og breitt um bæinn. Markmið hátíðarinnar að kynna það sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða í menningu, mat og drykk, veita bæjarbúum tækifæri til að eiga góðar stundir saman, að ógleymdu stórfenglegu umhverfi og sögunni sem er við hvert fótmál. Vel tókst til árið 2019 en svo tóku Covid árin við og settu svip sinn á framkvæmdina. Í fyrra var loks hægt að blása til sóknar á ný og héldum við glæsilegt og vel heppnað Síldarævintýri. 

Í ár verður bætt í í tilefni þess að þetta er þrítugasta Síldarævintýrið sem haldið er. Sem fyrr er öll barnadagskrá ókeypis, heimafólk er í aðalhlutverki í tónlistarflutningi og annarri skemmtun og söfn og setur bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Auk þess verður sameiginleg grillveisla bæjarbúa, hverfaskreytingar, bjórleikar, síldarball, froðufjör, hoppukastalar, fjöldasöngur, flugeldasýning og margt, margt fleira eins og sjá má í dagskránni sem hér fylgir með. Upplagt að kíkja á Siglufjörð um verslunarmannahelgina og njóta. 

 

12.07.2024 20:36

Smíðað, málað og ljóðað

Góðir dagar á Siglufirði að undanförnu, veðurblíða, sól og sæla en kannski heldur mikill vindur. Tíminn hefur verið notaður til að smíða skýli yfir grillið; það er komið langleiðina, mála húsið; langt kominn með að pensla og vonandi rúllað á morgun og svo er verið að sinna ljóðlistinni og tónlistinni. Viðburðir á Ljóðasetrinu á hverjum degi kl. 16.00 og oftar en ekki fer gítarinn á loft á þessum viðburðum til að skreyta það sem fram fer, frumflutti t.d. nýtt lag í gær. Svo er skipulagning fyrir Síldarævintýrið um verslunarmannahelgina einnig í fullum gangi og munum við birta dagskrána í næstu viku. Sem sagt nóg um að vera, a.m.k. eins mikið og maður vil. 

 

 

08.07.2024 10:05

Frábær ferð á Vestfirði

Hún lukkaðist ljómandi vel upplestrar- og tónlistarferðin á Vestfirðina á dögunum. Bjó til dagskrá sem ég kallaði Þorpin þrjú og fékk til liðs við mig Ólaf Svein Jóhannesson, skáld frá Tálknafirði, og Birtu Ósmann, listakonu á Patreksfirði, sem er nýkjörin bæjarlistamaður Fjallabyggðar. Hvert okkar flutti sín ljóð, auk ljóða Jóns úr Vör, og svo söng ég og spilaði eigin lög við ljóð skáldanna. Inn á milli var svo sagt frá tilurð ljóðanna og rifjaðar upp skemmtilegar sögur frá uppvaxtarárum okkar Ólafs fyrir vestan. Fluttum dagskrána í þorpunum þremur; Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal á fimmtudag og föstudag, var skemmtileg og notaleg stemning á þeim öllum og aðsókn með ágætum. Vesturbyggð styrkti verkefnið og eru sveitarfélaginu færðar kærar þakkir fyrir. 

Á leiðinni norður á laugardeginum var stoppað í Skagafirðinum og sungið með honum Stulla á dansleik eitthvað inn í nóttina í stórafmæli í Miðgarði. Þar var heilmikið stuð eins og lög gera ráð fyrir. Það var ljúft að leggjast á koddann og hvíla raddböndin þegar komið var heim á Sigló um miðja nótt. 

Myndin er tekin að loknum upplestri okkar í Dunhaga í Tálknafirði. Skemmtilegt upplestrarrými og frábær matsölustaður. 

 

   

03.07.2024 13:08

Nóg að gera í ljóðheimum

Eins og einhverjir vita stofnaði ég og rek Ljóðasetur Íslands sem staðsett er á Siglufirði. Þar er oft líf og fjör og í morgun fengum við aldeilis góða heimsókn þegar elsti árgangurinn af leikskólanum Leikskálum kom í heimsókn með kennurum sínum. Börnin fengu kynningu á setrinu og ljóðlistinni auk þess að hlýða á nokkur ljóð og lög. Svo sungu börnin að sjálfsögðu fyrir forstöðumanninn áður en tekin var mynd af hópnum í himinháu bókahillunum sem geyma þúsundir ljóðabóka. Skemmtileg heimsókn.

Í dag verður svo rennt vestur á firði í verkefnið Þorpin þrjú sem Ljóðasetrið stendur fyrir á sunnanverðum Vestfjörðum í tilefni sameiningarinnar þar. Þar mun ég flytja ljóð mín um æskuslóðirnar fyrir vestan og lög mín við ljóð Jóns úr Vör úr bókinni Þorpið. Með mér verður Tálknfirðingurinn Ólafur Sveinn Jóhannesson og Birta Ósmann nýkjörinn bæjarlistamaður Vesturbyggðar, munu þau flytja sín ljóð. Viðburðirnir verða þrír: einn í hverju þorpi: Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, eins og sjá má í færslunni hér að neðan. Vesturbyggð veitti Ljóðasetrinu styrk vegna verkefnisins.

Síðan er verið að setja saman viðburðardagskrá fyrir næstu vikur á setrinu og birtist hún fljótlega á fésbókarsíðu Ljóðasetursins.

 

28.06.2024 10:55

Þorpin þrjú - Spennandi verkefni fyrir vestan

Dagana 4. og 5. júlí tek ég þátt í skemmtilegu verkefni í Vesturbyggð í tilefni sameiningarinnar sem var þar á dögunum. Ég, Bílddælingurinn, og Ólafur Sveinn Jóhannesson, Tálknfirðingur, munum þar flytja dagskrá í tali og tónum þar sem við flytjum ljóð okkar og hugleiðingar um æskuárin fyrir vestan auk þess að flytja ljóð Jóns úr Vör úr bókinni Þorpið, sem fjallar að sjálfsögðu um Patreksfjörð. Sérstakur gestur á þessum viðburðum verður Birta Ósmann Þórhallsdóttir sem á dögunum var kjörin bæjarlistamaður Vesturbyggðar 2024 og mun hún flytja eigin ljóð.

Viðburðirnir verða í hverju þorpi sem hér segir:

Fimmtudag 4. júlí kl. 17.00 í Skriðu á Patreksfirði.

Fimmtudag 4. júlí kl. 20.00 í Dunhaga í Tálknafirði.

Föstudag 5. júlí kl. 21.00 á Vegamótum á Bíldudal.

Hver viðburður mun enda á spjalli við gesti um þorpin þrjú í þátíð, nútíð og framtíð.

Enginn aðgangseyrir verður að þessum viðburðum en Vesturbyggð styrkir framkvæmd þeirra og Ljóðasetur Íslands stendur auk þess að verkefninu.

 
 

 

22.06.2024 15:08

Íþróttir og tónlist

Löngum hafa íþróttir og tónlist spilað stórar rullur í mínu lífi og stundum togast á. Þar sem ég hef nú lagt keppnisíþróttirnar á hilluna þá er ekkert um árekstra á þessum sviðum lengur og hægt að einbeita sér meira að tónlistinni. Helstu afskipti af íþróttum eru nú í þjálfun og að stýra Ungmennafélaginu Glóa sem starfar á Siglufirði og í ár eru einmitt 30 ár frá því að við stofnuðum það. Á dögunum vorum við með okkar árlega 17. júní hlaup og í næstu viku stýri ég fyrri Ævintýraviku sumarsins hjá félaginu. Á fyrri myndinni sem fylgir er ég einmitt í hópi kátra krakka sem ég var að þjálfa í fyrra í íþróttaskóla Umf Glóa.

Eitt og annað er svo framundan í tónlistinni m.a. erum við Stulli, Sturlaugur Kristjánsson, bókaðir á nokkrum stöðum næstu vikurnar, ég mun koma fram með gítarinn á Ljóðasetrinu nokkrum sinnum í sumar og gítarinn verður einnig á lofti í ljóðaverkefni sem ég er að skipuleggja á Vestfjörðunum. Auk þess hefur verið óskað eftir mér suður að leika mín lög á listahátíð í Kópavogi og svo er náttúrulega alltaf hugmyndin að fara að taka meira upp af mínu efni. Já, þetta tínist til. Neðri mynd: Stulli og Tóti að spila við Segul 67 sumarið 2023. 

 
 

 

17.06.2024 12:17

Félagsheimili númer 53

Við Stulli spiluðum á dansleik á Melum í Hörgársveit sl. laugardag, mikið dansað og mikil gleði. Þá eru félagsheimilin sem maður hefur komið fram í orðin 53 talsins en hef auk þess flutt tónlist á 158 öðrum stöðum þ.e. ýmsum sölum, skólum, kirkjum, íþróttahúsum, samkomutjöldum, útisviðum, söfnum, veitingastöðum, dvalarheimilum o.fl. Alltaf gaman að koma fram á nýjum stöðum og sjálfsagt bætast einhverjir við á næstu vikum. 

 

14.06.2024 10:44

Ljóðaflutningur á Hlíð og ball um helgina

Var beðinn um að koma í heimsókn til ljóðaklúbbs sem starfræktur er á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri og kynna þar starfsemi Ljóðaseturs Íslands sem ég stofnaði og starfræki á Siglufirði, fyrir þá sem ekki vita. Auðvitað segir maður ekki nei við slíkri bón og ég renndi inn á Akureyri í gær og reyndi að segja eitthvað gáfulegt og vera skemmtilegur. Tókst held ég bara þokkalega til. Kynnti starfsemina, flutti nokkur af mínum ljóðum, kvað nokkrar stemmur og greip líka í gítarinn; svona sitt lítið af hverju. Um 20 manns hlýddu á  af athygli og til að gera stundina enn betri var Badda móðursystir mín í hópnum. 

Næsta verkefni í tónlistinni er dansleikur fyrir hressan hóp í Hörgársveit annað kvöld með honum Stulla, Sturlaugi Kristjáns. Það verður án efa mikið líf og fjör. 

 

11.06.2024 06:34

Bloggað á ný um hugðarefnin

Hef ákveðið að virkja heimasíðuna mína á ný til að segja tíðindi af ýmsum verkefnum sem ég er að sýsla við í tónlist, ljóðlist, ritlist, þjálfun, framkvæmdum og fleiru sem herjar á mann. Mun ég gera það í gegnum þetta blogg, sem ég sé að ég hef ekki notað síðan 2008; í 16 ár, já hratt flýgur stund. 

Undanfarin ár hef ég aðeins notað síðuna til að halda utan um og skrá ýmislegt sem ég hef tekið mér fyrir hendur í þessum efnum eins og sjá má í ýmsum hlekkjum hér til hægri. Áhugaverðastur er líklega hlekkurinn Afrakstur, embætti .... þar sem teknar eru saman ýmsar tölulegar upplýsingar um ferla á ýmsum sviðum.

Hér að neðan er fyrsta færslan af fjörinu framundan; ljóðalestur, söngur og kynning á starfsemi Ljóðaseturs íslands á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri fimmtudaginn 13. júní.

Á næstunni er svo dansleikur á Melum í Hörgárdal, hlaup fyrir börnin á 17. júní, ýmsir viðburðir á Ljóðasetrinu, áframhaldandi skipulagning Síldarævintýris, útgáfa á afmælisriti Umf Glóa í tilefni af 30 ára afmæli félagsins, Ævintýravikur fyrir börn á Siglufirði, ljóðalestursrúntur á Vestfirðina o.fl. skemmtilegt. 

Mynd: Trölli.is

 

10.06.2024 17:38

Ljóðaflutningur á Hlíð

Ljóðaflutningur og kynning á Ljóðasetrinu í Hlíð á Akureyri

Um hríð hefur verið starfandi ljóðaklúbbur í tengslum við félagsstarfið á Hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Það eru þau Rakel Hinriksdóttir og Arnar Már Arngrímsson sem standa fyrir þeirri starfsemi en bæði hafa sinnt ritun af ýmsu tagi undanfarin ár.

Ég, sem forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands, fékk boð um að heimsækja klúbbinn á þeirra vikulegu stund í Hlíð, segja frá setrinu og flytja ljóð og var að sjálfsögðu sagt já við þeirri góðu bón.

Næstkomandi fimmtudag, 13. júní kl. 13.30, mun ég því taka hús á þessum flotta félagsskap, kynna starfsemi Ljóðasetursins, flytja nokkur ljóð og grípa gítarinn með mér til að krydda stundina. Velkomið er fyrir áhugasama utan úr bæ að koma og hlýða á.

 

Mynd: Hlíð á Akureyri

01.10.2008 21:45

Ótitlað

24.08.2008  Tónleikaferð í bígerð
Ég er þessa dagana að skipuleggja sérstæða tónleikaferð.  Hún á aðeins að standa í um 6 klukkustundir en samt sem áður verður leikið í þremur byggðalögum.  Eingöngu verður frumsamið efni á dagskránni og hef ég fengið þá Guito Thomas og Danna Pétur í lið með mér.  Nánari fréttir síðar.

28.05.2007 22:07

Allt á útopnu

Það er búið að vera brjálað að gera á hinum ýmsu vígstöðvum.  Eins og sjá má í fréttadálkinum er ýmislegt búið að gerast í upptökumálum nýja disksins, allur söngur kominn inn og ýmis hljóðfæri.  Þetta er allt að taka á sig endanlega mynd og hljómar orðið dável, þó ég segi sjálfur frá.  Maggi á heiður skilinn fyrir góða vinnu og skemmtilegar útsetningar.  Stefnt er að því að diskurinn veði klár í símasöluna uppúr miðjum júní.

Í félagsmálunum hefur eins verið nóg að gera.  Fundað með ÍBS stjórninni, fundað vegna 17. júní, fundur um Náttúrurgripasafn í Ólafsfirði og útvarpsviðtal í framhaldinu, fundað vegna bæjarmálanna o.fl.

Í skólanum er endaspretturinn hafinn.  Síðasta vikan með nemendum framundan og verða margir hvíldinni fegnir.  Við ætlum að reyna að vera eins mikið útivið í námi, leikjum og þrautum þessa síðustu daga og hafa gaman saman.  Svo er ein vika í frágang, útskrift nemenda og fleira skemmtilegt.  Að henni lokinni ætlum við fjölskyldan að skella okkur í sumarbústað í Kjarnaskógi með vinafólki og njóta þess að vera til.

Eina sem vantar inn í prógrammið er meiri hreyfing, maður verður að fara að gera eitthvað í því.  Tók að vísu góða skorpu í garðinum í dag og komst í fyrsta steinaleiðangur sumarsins því loksins er eitthvað farið að hlýna.  En fyrir þá sem ekki vita er ég forfallinn steinasafnari, jájá enn ein bakterían, og fer alltaf nokkra leiðangra upp í fjöllin hér í kring að leita að fallegum steinum.  Fór með Patrek og Elínu Helgu með mér í dag og við komum heim með þó nokkur kíló í farteskinu sem bætast í safnið góða.  Manni veitti svo sem ekki af hreyfingunni þrjár fermingarveislur síðustu tvo daga, heldur mikið af því góða.

Annars eru bara allir hressir á heimilinu og sumarskapið að færast yfir mannskapinn.



15.05.2007 12:12

Fyrsti upptökudagur, æsileg kosninganótt og fleira skemmtilegt

Jæja, þá er Eurovision æðið úti í bili.  Þetta fór eins og mann grunaði, Eiki átti ekki séns í austublokkina þó hann hafi staðið sig vel.  En það verður ekki tekið frá þeim þarna fyrir austan að þeir eiga úrvals listamenn þ.á.m. fína söngvara.  En það þarf einhvernveginn að enduskoða þetta svo áhuginn verði áfram fyrir hendi hérna vestan megin.

Fyrsti upptökudagur/nótt á nýja diskinum var aðfararnótt laugardags.  Við hittumst í Ólafsfirði hjá Magga og tókum upp allar trommur og bassa, kláruðum um kl. 3.30 um nóttina.  Þetta gekk mjög vel, 13 lög á um 6 tímum, geri aðrir betur.  Svo er Maggi núna á fullu að setja inn gítara og fleira og ég fer svo á fimmtudaginn og syngi yfir sem mest.

Íþróttaæfingar vetrarins eru nú hættar og það er gott að fá smá pásu frá þeim.  Við vorum með lokahóf hjá frjálsíþróttahópnum á Bíóinu, spjölluðum saman, fengum okkur pizzu og svona.

Laugardagurinn var ansi þéttsetinn.  Stórsýningardagur hjá okkur í skólanum þar sem nemendur sýndu afrakstur vetrarins í tali, tónum og munum.  Heppnaðist alveg frábærlega á fjórða hundrað gestir og krarkkarnir eins og englar.  Skólinn alveg glæsilegur, verk um allt og líf og fjör í öllum stofum.  Að sýningu lokinni var farið og kosið, og kosið rétt nema hvað.  Svo var kosningakaffi og Eurovision og svo þessi æsilega kosninganótt sem endaði svona líka vel.  Ég vakti nú ekki nema til 3.30 þar sem ég sá fram á að línur mundu ekki skýrast endanlega fyrr en undir morgun .  Lokaniðurstaðan var aldeilis glæsileg, stjórnin hélt velli og við bættum við okkur þremur þingmönnum, glæsilegt.

10.05.2007 10:27

Fleiri fundir, útsetningar, sund og garðvinna

Sunnudagurinn var í faðmi sjölskyldunnar, í hádeginu kom öll stórfjölskyldan í svínasteik á Hafnargötuna og síðan fórum við fjölskyldan öll saman í sund.  Seinni partinn var unnið svolítið í garðinum í kuldanum og síðan fór ég í undirbúning fyrir næsta fund. 

Á mánudaginn, eftir kennslu, var fundur hjá mér í Menningarnefndinni, við funduðum í gegnum fjarfundarbúnaðinn góða, hann hefur heldur betur sparað sporin fyrir okkur. Ýmis mál voru rædd sem koma til framkvæmda í menningarmálunum nú á næstunni.  Að loknum fundi var svo stokkið aftur út í garð að laga og leggja á ráðin um framkvæmdir sumarsins.

Maggi er búinn að senda mér sínar fyrstu hugmyndir að útsetningum laganna á nýja diskinn og hef ég hlustað þegar tími vinnst til.  Margt gott hjá Magga en annað sem ég er ekki eins sáttur við, eins og gengur, maður tengist þessum afurðum sínum hálfgerðum tilfinningaböndum og því er stundum erfitt að sjá gerðar breytingar á þeim a.m.k. verður maður oft að gefa sér tíma til að melta þær.  Fyrsti upptökudagur er svo á morgun því annað kvöld er meiningin að telja í og byrja að taka upp trommur og bassa, þá rennir maður aftur og enn yfir Láheiðina.

Í gærkvöldi var ég nefnilega á Ólafsfirði á fundi með Sjálfstæðismönnum þar sem farið var yfir stöðuna í ýmsum bæjarmálum og lagt á ráðin um næstu skref.  Mjög góður og gagnlegur fundur.

Framundan er hver atburðurinn á fætur öðrum; í dag er lokahóf hjá frjálsíþróttafólkinu mínu á Bíóinu, svo er auðvitað Eurovision í kvöld, upptaka annaðkvöld hjá Magga, Stórsýningardagur hjá okkur í skólanum á laugardag, kosningar og meira Eurovision og síðan líklega aftur í upptökur í Ólafsfjörð á sunnudag.  Manni ætti ekki að leiðast !!
Flettingar í dag: 139
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 388
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 157431
Samtals gestir: 31857
Tölur uppfærðar: 9.8.2025 08:58:21