Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Færslur: 2024 Júlí

31.07.2024 10:16

Sungið á frábærum Trilludegi á Sigló

Síðasta laugardag var Trilludagurinn haldinn í sjöunda sinn á Siglufirði og hefur sjaldan tekist eins vel. Einmuna veðurblíða lék við gesti sem sigldu út á fjörðinn á fjölda smábáta með vöskum sæköppum. Alls fóru rúmlega 600 manns á sjó. Þegar í land var komið tóku Kiwanismenn við aflanum flökuðu og grilluðu og smakkaðist sérlega vel. Að sjálfsögðu þarf að hafa réttu tónlistina í eyrunum og því vorum við Stulli kallaðir til og tókum við tvær 90 mínútna skorpur þar sem við fluttum um 60 lög af prógraminu okkar sem telur orðið vel á þriðja hundrað lög. Gömlu góðu sjóaralögin og aðrir slagarar í aðalhlutverki og það var sungið með og sumir brustu í dans. Mikið fjör og mikil gleði.

Næst á dagskrá hjá okkur Stulla er Síldarævintýrið, sem hefst á morgun, þar munum við koma fram a.m.k. þrisvar sinnum saman og auk þess verð ég með þrjá viðburði á Ljóðasetrinu. Sem sagt rólegt og gott framundan.

 
 

 

 

21.07.2024 18:07

Síldarævintýrið á Siglufirði 2024

Ég átti frumkvæðið að þvi að setja Síldarævintýrið á Siglufirði af stað aftur árið 2019, eftir tveggja ára hlé, og hef verið í þriggja manna stýrihópi ævintýrisins síðan. Framkvæmdin var þó með nýjum hætti, í ljósi breytinga sem orðið hafa á Siglufirði síðustu ár. Lagt upp með að virkja bæjarbúa meira en áður með hverfisskreytingum og hverfisgrillum og að dagskráin væri borin upp af heimafólki í minni viðburðum vítt og breitt um bæinn. Markmið hátíðarinnar að kynna það sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða í menningu, mat og drykk, veita bæjarbúum tækifæri til að eiga góðar stundir saman, að ógleymdu stórfenglegu umhverfi og sögunni sem er við hvert fótmál. Vel tókst til árið 2019 en svo tóku Covid árin við og settu svip sinn á framkvæmdina. Í fyrra var loks hægt að blása til sóknar á ný og héldum við glæsilegt og vel heppnað Síldarævintýri. 

Í ár verður bætt í í tilefni þess að þetta er þrítugasta Síldarævintýrið sem haldið er. Sem fyrr er öll barnadagskrá ókeypis, heimafólk er í aðalhlutverki í tónlistarflutningi og annarri skemmtun og söfn og setur bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Auk þess verður sameiginleg grillveisla bæjarbúa, hverfaskreytingar, bjórleikar, síldarball, froðufjör, hoppukastalar, fjöldasöngur, flugeldasýning og margt, margt fleira eins og sjá má í dagskránni sem hér fylgir með. Upplagt að kíkja á Siglufjörð um verslunarmannahelgina og njóta. 

 

12.07.2024 20:36

Smíðað, málað og ljóðað

Góðir dagar á Siglufirði að undanförnu, veðurblíða, sól og sæla en kannski heldur mikill vindur. Tíminn hefur verið notaður til að smíða skýli yfir grillið; það er komið langleiðina, mála húsið; langt kominn með að pensla og vonandi rúllað á morgun og svo er verið að sinna ljóðlistinni og tónlistinni. Viðburðir á Ljóðasetrinu á hverjum degi kl. 16.00 og oftar en ekki fer gítarinn á loft á þessum viðburðum til að skreyta það sem fram fer, frumflutti t.d. nýtt lag í gær. Svo er skipulagning fyrir Síldarævintýrið um verslunarmannahelgina einnig í fullum gangi og munum við birta dagskrána í næstu viku. Sem sagt nóg um að vera, a.m.k. eins mikið og maður vil. 

 

 

08.07.2024 10:05

Frábær ferð á Vestfirði

Hún lukkaðist ljómandi vel upplestrar- og tónlistarferðin á Vestfirðina á dögunum. Bjó til dagskrá sem ég kallaði Þorpin þrjú og fékk til liðs við mig Ólaf Svein Jóhannesson, skáld frá Tálknafirði, og Birtu Ósmann, listakonu á Patreksfirði, sem er nýkjörin bæjarlistamaður Fjallabyggðar. Hvert okkar flutti sín ljóð, auk ljóða Jóns úr Vör, og svo söng ég og spilaði eigin lög við ljóð skáldanna. Inn á milli var svo sagt frá tilurð ljóðanna og rifjaðar upp skemmtilegar sögur frá uppvaxtarárum okkar Ólafs fyrir vestan. Fluttum dagskrána í þorpunum þremur; Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal á fimmtudag og föstudag, var skemmtileg og notaleg stemning á þeim öllum og aðsókn með ágætum. Vesturbyggð styrkti verkefnið og eru sveitarfélaginu færðar kærar þakkir fyrir. 

Á leiðinni norður á laugardeginum var stoppað í Skagafirðinum og sungið með honum Stulla á dansleik eitthvað inn í nóttina í stórafmæli í Miðgarði. Þar var heilmikið stuð eins og lög gera ráð fyrir. Það var ljúft að leggjast á koddann og hvíla raddböndin þegar komið var heim á Sigló um miðja nótt. 

Myndin er tekin að loknum upplestri okkar í Dunhaga í Tálknafirði. Skemmtilegt upplestrarrými og frábær matsölustaður. 

 

   

03.07.2024 13:08

Nóg að gera í ljóðheimum

Eins og einhverjir vita stofnaði ég og rek Ljóðasetur Íslands sem staðsett er á Siglufirði. Þar er oft líf og fjör og í morgun fengum við aldeilis góða heimsókn þegar elsti árgangurinn af leikskólanum Leikskálum kom í heimsókn með kennurum sínum. Börnin fengu kynningu á setrinu og ljóðlistinni auk þess að hlýða á nokkur ljóð og lög. Svo sungu börnin að sjálfsögðu fyrir forstöðumanninn áður en tekin var mynd af hópnum í himinháu bókahillunum sem geyma þúsundir ljóðabóka. Skemmtileg heimsókn.

Í dag verður svo rennt vestur á firði í verkefnið Þorpin þrjú sem Ljóðasetrið stendur fyrir á sunnanverðum Vestfjörðum í tilefni sameiningarinnar þar. Þar mun ég flytja ljóð mín um æskuslóðirnar fyrir vestan og lög mín við ljóð Jóns úr Vör úr bókinni Þorpið. Með mér verður Tálknfirðingurinn Ólafur Sveinn Jóhannesson og Birta Ósmann nýkjörinn bæjarlistamaður Vesturbyggðar, munu þau flytja sín ljóð. Viðburðirnir verða þrír: einn í hverju þorpi: Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, eins og sjá má í færslunni hér að neðan. Vesturbyggð veitti Ljóðasetrinu styrk vegna verkefnisins.

Síðan er verið að setja saman viðburðardagskrá fyrir næstu vikur á setrinu og birtist hún fljótlega á fésbókarsíðu Ljóðasetursins.

 
  • 1
Flettingar í dag: 33
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 121
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 83741
Samtals gestir: 22073
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:18:15