Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Færslur: 2024 Ágúst

29.08.2024 17:46

Tólfta starfsárið mitt við MTR hafið

Haustið 2013 hóf ég störf sem kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga og er óhætt að segja að þessi rúmi áratugur sem liðinn er síðan hafi verið viðburðaríkur í starfi. Skólinn er sérlega framsækinn og starfið þar einstaklega blómlegt. Ég get fullyrt að þar fá kennarar að nýta og þróa sína hæfileika og hæfni í starfi með stöðugri símenntun og framþróun hvort sem er í kennslufræðum eða tækninýjungum. Ef þið komið í skólann getið þið t.d. búist við því að mæta vélmennum á göngum hans en þar eru innanborðs kennarar skólans sem búsettir eru erlendis eða í öðrum landshlutum og þeir sinna kennslu sinni að hluta gegnum þessi tæki. Fjarnám við skólann hefur verið sérlega vinsælt og hafa fjarnemar verið um 500 talsins á hverri önn undanfarin ár.

Ég er þannig gerður að ég vil vera með mörg járn í eldinum, hef ýmis áhugamál og get jafnvel sagt að mér sem ýmislegt til lista lagt og hef fengið að njóta þeirra kosta minna við skólann. Ég hef t.d. kennt 44 mismunandi áfanga við skólann á þessum rúma áratug og búið til um 3/4 þeirra. Megnið af þeim eru áfangar á sviði íslensku og íþrótta en einnig mjög skemmtilegir áfangar eins og t.d. saga kvikmyndalistarinnar og saga rokktónlistar að ógleymdum áfanga helguðum ljóðagerð. Einnig hef ég kennt áfanga í frumkvöðlafræði, fjármálalæsi, íþróttasálarfræði og þjóðfræði svo eitthvað sé nefnt. Auk þess hef ég fengið að sjá um menningarmál í skólanum; sett upp ýmiskonar listsýningar og skipulagt viðburði, stýri verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli við skólann og s.l. haust tók ég við sem fréttaritari skólans og rita fréttir á heimasíðu hans.

Það sem er samt mest heillandi við kennarastarfið er að fá að starfa með öllu þessu unga efnilega fólki, og fólki á öðrum aldri líka, sem er að þroskast og finna sína leið út í lífið, er að finna leiðir til að leysa þau verkefni sem liggja fyrir, leita lausna, skoða hlutina frá ýmsum hliðum og uppgötva sína styrkleika. 

Þá er aðeins eitt ótalið; sá ótrúlegi starfsmannahópur sem starfar við MTR. Þetta lærdómssamfélag þar sem allir eru tilbúnir að aðstoða, segja til og leiðbeina, þar sem maður lærir eitthvað nýtt á hverjum degi og getur ekkert dvalið í torfkofanum sínum með sömu gömlu verkfærin og áður. Auk þess er þetta vinnustaður þar sem fólk stendur saman, hlúir að hvert öðru, hrósar og ræðir málin af hreinskilni og heilindum. Það eru forréttindi að vinna á slíkum stað. 

 

 

12.08.2024 09:56

Rúmlega 100 sinnum á Síldarævintýri

Þrítugasta Síldarævintýrið á Siglufirði - Það tuttugasta sem ég kem fram á

Hátíðin Síldarævintýrið var haldin í fyrsta sinn 1991 og í þrítugasta sinn nú um sl. verslunarmannahelgi, þar sem nokkur ár hafa dottið út m.a. vegna Covid. Frá því að ég flutti til Siglufjarðar haustið 1993 höfum við fylgst nokkuð þétt að, ég og Síldarævintýrið. Kom fyrst fram á hátíðinni árið 1994 en svo eignuðumst við Stína Videoval og næstu árin stóð maður bak við búðarborðið og seldi hátíðargestum ýmsar veitingar.

Það var svo árið 2001 sem ég kom fram næst á Síldarævintýri og hef komið fram á svo til öllum þeirra síðan og þetta nýliðna var það tuttugasta. Telst mér til að alls hafi ég komið fram rúmlega 100 sinnum á þessari hátíð, þ.e. að meðaltali um 5 sinnum á hverju þeirra!

Þessar framkomur hafa verið fjölbreyttar; oftast á sviði í miðbænum en einnig á skemmtistöðum, söfnum og setrum. Oft einn með gítarinn en einnig með sönghópnum Gómum í Síldarminjasafninu sem og á sviði og með ýmsum öðrum spilafélögum víða um miðbæinn.

Eftir að ég opnaði Ljóðasetrið hef ég verið með fjölda viðburða þar á Síldarævintýri og einnig samdi ég leikþátt sem ég sýndi í Bátahúsi Síldarminjasafnsins auk þess sem ég hefi komið fram á Þjóðlagasetrinu, á Kaffi Rauðku og við Segul 67 svo eitthvað sé nefnt.

En þá er ekki allt talið í samneyti mínu og þessa ævintýris sem kennt er við síldina. Ég var t.d. kynnir á tveimur hátíðum og stýrði auk þess söngvakeppni barna a.m.k. tvisvar sinnum, en hún var fastur liður á hátíðinni hér áður.

Þegar Síldarævintýrið missti svo flugið um 2017 þá átti ég frumkvæði að því að koma því aftur í gang árið 2019 og hef verið í stýrihópi þeim sem hefur haldið Síldarævintýrið síðan.

Þessi samfylgd hefur verið skemmtileg en sannarlega útheimt mikla vinnu og ekki síður mikla þolinmæði frá mínum nánustu. Launin hafa aðallega verið ánægjan af því að taka þátt og skapa líf og fjör í bænum okkar.

 
 
  • 1
Flettingar í dag: 15
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 104
Gestir í gær: 23
Samtals flettingar: 70844
Samtals gestir: 19079
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 11:02:34